Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 11392/2021)

Kvartað var yfir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki hafið rannsókn á skemmdarverkum á fasteign.

Þar sem ekki varð fyllilega ráðið hvort málið hefði verið kært, hvort fyrir lægi ákvörðun lögreglunnar í því eða að þess hefði verið freistað að skjóta henni til ríkissaksóknara voru ekki uppfyllt skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 14. nóvember sl. yfir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki hafið rannsókn á skemmdarverkum á fasteign yðar sem þér teljið refsiverð. Með kvörtun yðar fylgdu m.a. afrit af samskiptum yðar við lögregluna vegna framangreinds sem og dómstóla vegna máls nr. E-6082/2020, en kveðinn var upp dómur í málinu 4. nóvember sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í málinu var deilt um greiðsluskyldu yðar vegna framkvæmda á fasteigninni sem tengjast fyrrnefndri háttsemi sem þér teljið refsiverða.

Af samskiptum yðar við lögregluna verður ráðið að fyrr á þessu ári hafið þér stefnt að því leggja fram kæru hjá lögreglunni en þó er ekki fyllilega ljóst hvort það hafi gengið eftir. Þannig segir til að mynda í tölvupósti yðar 27. september sl. til ríkissaksóknara og Héraðsdóms Reykjavíkur að tilgreindur lögmaður yðar hafi ekki kært umrædda háttsemi til lögreglunnar þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða. Hvað sem því líður liggur fyrir að þér hafið átt í tölvupóstsamskiptum við kærumóttöku lögreglunnar um málið, sbr. m.a. tölvupóst 10. nóvember sl., og fenguð þau viðbrögð að um væri að ræða einkamál.

Samkvæmt því sem hefur verið rakið er ekki fyllilega skýrt hvort erindi yðar til lögreglunnar hafi verið kæra á grundvelli laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og þá hvort lögreglan hafi sett erindin í farveg samkvæmt þeim lögum og vísað kærunni frá þar sem um væri að ræða einkamál en ekki sakamál. Í 52. gr. sömu laga er hins vegar fjallað um að kæru vegna refsiverðs brots eða beiðni um rannsókn skuli beint til lögreglu eða ákæranda og einnig að lögregla geti vísað frá kæru þyki ekki efni til að hefja rannsókn út af henni. Í 6. mgr. sömu greinar kemur fram að sá sem eigi hagsmuna að gæta geti kært ákvörðun lögreglu, um að vísa frá kæru, til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum er tilkynnt um hana eða hann fær vitneskju um hana með öðrum hætti.

Ástæða þess að þetta er rakið er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Af ákvæðinu leiðir að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar. Þar sem ekki verður fyllilega ráðið hvort fyrir liggi ákvörðun lögreglunnar eða að þér hafið freistað þess að skjóta henni til ríkissaksóknara eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ef þér kjósið að freista þess að leita með mál yðar til ríkissaksóknara, eftir atvikum að undangenginni ákvörðun lögreglunnar, og teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér athugun minni á málinu.