Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11397/2021)

Kvartað var yfir mánaðarlegu gjaldi til Landspítala vegna notkunar á svefnöndunarvél. Það væri hærra en sá kostnaður sem hlytist af þjónustunni.

Þar sem hvorki lá fyrir afstaða Landspítala í málinu né að því hafði verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. nóvember sl. yfir gjaldi að fjárhæð 2.650 krónum sem yður sé gert að greiða mánaðarlega til Landspítala vegna notkunar á svefnöndunarvél, en þér teljið gjaldið vera hærra en sá kostnaðar sem hljótist af þjónustu sem yður er veitt. Í erindi yðar 8. þessa mánaðar segir að málið snúist um að þeir sem greiði fyrir heilbrigðisþjónustu eigi að fá reikning með skilgreiningu á þeim kostnaði sem greiðsluþátttakan nái til.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji. Í reglugerðinni skuli m.a. kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Á grundvelli þessa ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 760/2021, um styrki vegna hjálpartækja. Um hjálpartæki við öndunarmeðferð er fjallað í flokki 0403 í fylgiskjali reglugerðarinnar en þar segir m.a. eftirfarandi:

 „Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samning um framkvæmd og rekstur súrefnisþjónustu (súrefni á þrýstihylkjum, súrefnissíur og fylgihluti) fyrir einstaklinga í heimahúsum. Þá hafa Sjúkratryggingar Íslands gert samkomulag um ráðgjöf varðandi súrefnisþjónustu fyrir einstaklinga í heimahúsum. Einnig hefur stofnunin gert samning um öflun, umsjón og rekstur CPAP-, BIPAP-og rúmmálsstýrðra öndunarvéla og ráðgjöf fyrir einstaklinga í heimahúsum. Öndunarvélarnar eru greiddar að fullu. Skiptanlegir fylgihlutir og rekstrarvörur fyrir vélarnar ásamt þjónustu er einnig greidd að fullu nema fyrir notendur CPAP-öndunarvéla. Í þeim tilvikum er greiddur kostnaður fyrir lífeyrisþega og börn/unglinga umfram 440 kr. af mánaðarlegum meðalkostnaði og fyrir aðra umfram 2.650 kr.“

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 er ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt III. kafla laganna kæranlegur til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kæra til úrskurðarnefndarinnar skal vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Ástæða þess að þetta er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Er þetta ákvæði í samræmi við það að samkvæmt lögunum fjallar umboðsmaður að jafnaði ekki um mál nema fyrir liggi að áður hafi verið leitað eftir afstöðu stjórnvalda til þess.

Af kvörtun yðar verður hins vegar hvorki ráðið að þér hafið óskað eftir því við Landspítala eða sjúkratryggingar að fá nánari upplýsingar um hvað býr að baki gjaldtökunni eða borið ágreiningsefnið undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ef þér ákveðið að freista þess að leita til nefndarinnar, eftir atvikum í framhaldi af því að hafa fengið nánari upplýsingar um gjaldtökuna, og teljið enn ástæðu til þess þegar niðurstaða hennar liggur fyrir getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.