Almannatryggingar.

(Mál nr. 11409/2021)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun, Þjóðskrá Íslands, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Héraðsdómi Reykjavíkur og virtist kvörtunin einkum snerta ágreining um rétt til heimilisuppbótar.

Þar sem hvorki lá fyrir að Tryggingastofnun hefði tekið ákvörðun í málinu né að því hefði verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Þá tók umboðsmaður jafnframt fram að kvörtunin lyti að hluta að aðilum sem féllu utan starfssviðs hans.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 23. nóvember sl. sem m.a. lýtur að Tryggingastofnun, Þjóðskrá Íslands, lögreglustjóranum á  höfuðborgar­svæðinu og Héraðsdómi Reykjavíkur. Þótt kvörtun yðar sé ekki fyllilega skýr verður sá skilningur lagður í hana að hún snerti einkum ágreining yðar við Tryggingastofnun um rétt til heimilis­uppbótar.

Í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki að jafnaði aðeins til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en það taki ekki til starfa dómstóla. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um að í kvörtun til umboðsmanns skuli lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar og að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik skuli fylgja kvörtun. Þá skal kvörtun borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Að auki þarf að hafa í huga að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 6. gr. laganna.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að fyrir liggi ákvörðun Tryggingastofnunar í tilefni af fyrrnefndum ágreiningi eða úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála um hann, en ákvarðanir stofnunarinnar eru almennt kæranlegar til þeirrar nefndar. Það verður því ekki séð að uppfyllt sé skilyrði áðurnefndrar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar. Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að öðrum opinberum aðilum en Tryggingastofnun verður hvorki ráðið af kvörtuninni né framlögðum gögnum að hvaða athöfnum eða athafnaleysi þeirra hún beinist. Í því samhengi skal þess einnig getið að kvörtunin lýtur að hluta að aðilum sem falla utan starfssviðs umboðsmanns, eins og það er afmarkað samkvæmt lögum.

Með vísan til framangreinds lýk ég því umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Farið þér þá leið að freista þess að bera ákvörðun Tryggingastofnunar, ef hún liggur fyrir, undir úrskurðarnefnd velferðarmála og teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.