Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11319/2021)

Kvartað var yfir ráðningu í starf við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn.

Umboðsmaður benti á að ákvörðun um hver ráðinn sé í opinbert starf ráðist almennt af heildstæðu mati og samanburði á milli þeirra sjónarmiða sem stjórnvald ákveði að byggja á. Heildarmatið byggi því ekki eingöngu á hlutlægum mælanlegum þáttum eins og lengd starfsreynslu heldur sé einnig heimilt að byggja á huglægum sjónarmiðum, svo sem persónulegum eiginleikum umsækjanda, frammistöðu í viðtali og hæfni til að starfa í hóp. Af atvikum málsins og gögnum fékk umboðsmaður ekki annað ráðið en ákvörðun um ráðninguna hefði verið byggð á heildstæðu mati á hæfni umsækjenda eftir yfirferð umsóknargagna og viðtöl þar sem sambærilegar spurningar hefðu verið lagðar fyrir umsækjendur. Þá yrði ekki séð að ráðningin hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum og viðmiðum.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar frá 22. september sl. yfir ráðningu í starf saksóknarfulltrúa við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið yður vera hæfari en umsækjandann sem ráðinn var. Í því sambandið vísið þér m.a. til þess að lögreglustjóri hafi komist að þeirri niðurstöðu í matstöflu að þér stæðuð framar þeirri er starfið hlaut bæði hvað snertir menntun og starfsreynslu. Einnig eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi verið skráðar upplýsingar um svör umsækjenda í viðtali við tveimur spurningum á sviði sakamálaréttarfars.

   

II

1

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993 og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undir­­búning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórn­völd eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í opin­bert starf þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa fyrrgreind sjónarmið að vera málefnaleg, svo sem kröfur um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórn­vald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að stjórn­valdið ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald verði að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram á væntan­legri frammistöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem lögð hafa verið til grundvallar. Hafi stjórnvald aflað full­­nægjandi upplýsinga til að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram hefur verið litið svo á að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfinu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Í því sambandi legg ég á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um ráðningu í opinbert starf. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvern hafi átt að ráða í tiltekið starf heldur að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið lögmæt.

  

2

Eins og að framan greinir lýtur kvörtun yðar einkum að efnislegu mati á hæfni yðar og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið. Í því sambandi vísið þér til þess að þér teljið mat lögreglustjóra á hæfni umsækjenda hafa verið ómálefnalegt og huglægum atriðum hafi verið gefið of mikið vægi á kostnað hlutlægra gagna. Er í því sambandi vísað til þess að samkvæmt gögnum málsins fenguð þér fleiri stig hvað snertir hlutlæg atriði í matstöflu.

Í ljósi framangreinds er rétt að taka fram að ákvörðun um hver úr hópi umsækjenda um opinbert starf skuli ráðinn, á grundvelli þess að teljast hæfastur umsækjenda, ræðst almennt af heildstæðu mati og samanburði milli þeirra sjónarmiða sem stjórnvald ákveður að byggja á. Heildarmat á hæfni umsækjenda byggist því ekki eingöngu á hlutlægum mælanlegum þáttum, eins og lengd starfsreynslu, og getur því einnig verið heimilt að byggja á huglægum sjónarmiðum, s.s. persónulegum eiginleikum umsækjanda, frammistöðu í viðtali og hæfni til að starfa í hóp. Við heildstætt mat þarf veitingarvaldshafinn jafnframt að meta, á grundvelli eigin vitneskju eða upplýsinga frá öðrum, hvernig líklegt sé að reynsla og hæfni sem umsækjandi hefur til að bera muni nýtast í starfinu sem sótt er um. Í því sambandi legg ég enn áherslu á að umboðsmaður er ekki í sömu aðstöðu og veitingarvaldshafinn til að leggja mat á hvernig fyrir­liggjandi reynsla umsækjenda, þ.m.t. sá tími og þau viðfangsefni sem umsækjandi hefur fengist við í fyrri störfum, muni nýtast í hinu nýja starfi. Reglur stjórnsýsluréttarins gera fyrst og fremst kröfu um að þetta mat sé byggt á fullnægjandi grundvelli og það sé málefnalegt í samræmi við réttmætisregluna. Forsendan er því að stjórnvaldið hafi aflað sér fullnægjandi upplýsinga um þá umsækjendur sem til greina koma í starfið vegna þeirra atriða og sjónarmiða sem það ætlar að byggja á.

Rannsókn lögreglustjóra byggðist, að loknu mati á hlutlægum gögnum, einkum á viðtölum við umsækjendur þar sem þeir voru spurðir samræmdra spurninga. Sátu þeir þrír umsækjendur sem fóru í viðtal því við sama borð að þessu leyti. Ljóst er af gögnum málsins að upplýsingar sem fram komu í viðtölum og framkoma umsækjenda í þeim hafi skipt verulegu máli við matið. Þegar svo háttar til að stjórnvald metur einn umsækjanda hæfastan með mati sem byggist á viðtölum við umsækjendur og umsagnaraðila verður endurskoðun umboðsmanns Alþingis að þessu leyti takmörkuð við þau gögn sem liggja fyrir í málinu. Fyrir liggja samantektir um frammistöðu umsækjenda í viðtölum, sem byggjast á upplýsingum sem voru skráðar í samræmi við 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, svo og minnispunktar um samtöl við umsagnaraðila.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins fæ ég ekki annað ráðið en að ákvörðun um ráðningu í það starf sem hér um ræðir hafi verið byggð á heildstæðu mati á hæfni um­­sækjenda eftir yfirferð umsóknargagna og viðtöl þar sem sam­bærilegar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur. Þá verður ekki heldur séð að þau sjónarmið og viðmið sem ráðningin var byggð á hafi verið ómálefnaleg, forsendur séu til þess af minni hálfu að gera athugasemdir við innbyrðis vægi þeirra eða hvernig þeim var beitt við mat á reynslu og hæfni yðar í samanburði við aðra umsækjendur. Því tel ég ekki efni til að slá því föstu að mat veitingarvaldsins á hæfni umsækjenda hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða ástæða sé til þess að öðru leyti að gera athugasemdir við ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um ráðningu í starf saksóknarfulltrúa við embættið.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.