Menntamál.

(Mál nr. 11393/2021)

Gerðar voru athugasemdir við úrræði sem starfsfólk grunnskóla hafði beitt fósturson viðkomandi.

Að virtum þeim atvikum sem rakin voru í erindinu, eðli máls og því svigrúmi sem grunnskólar hafa til að bregðast við hegðun nemenda var það niðurstaða umboðsmanns að það yrði ekki tekið til meðferðar að svo stöddu. Þau atviku sem greint var frá hefðu hins vegar verið höfð til hliðsjónar við almenna athugun vegna aðbúnaðar barna í grunnskólum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til erindis yðar, sem barst 13. nóvember sl., en þar gerið þér athugasemdir við úrræði sem starfsmenn grunnskóla hafa beitt vegna fóstursonar yðar.

Í tilefni af erindi yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur.

Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri almennra grunn­skóla og eftirliti með þeim samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, og njóta þau við rækslu þessa verkefnis nokkurs svigrúms til að skipuleggja grunnskólastarfið innan marka laga. Forstöðumaður hvers grunnskóla hefur þá ákveðið svigrúm til að móta starf grunnskólans sem hann stjórnar, sbr. 7. gr. sömu laga. Hver skóli setur sér skólareglur þar sem m.a. skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 91/2008, og í reglugerð nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, er m.a. að finna fyrirmæli um brot gegn skólareglum og heimil viðbrögð við því þegar misbrestur verður á hegðun nemenda. Þá fer ­ráðherra, nú mennta- og barnamálaráðherra, með yfirstjórn þeirra málefna sem lög nr. 91/2008 taka til, sbr. 4. gr. laganna. Í ákvæðinu segir m.a. að ráðherra hafi úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lögin kveði á um og að ráðuneyti hans hafi eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laga nr. 91/2008 eru kæranlegar til mennta- og menningarmála­ráðherra, sbr. 47. gr. laganna.

Að virtum atvikum þeim sem rakin eru í erindi yðar, eðli málsins og því svigrúmi sem grunnskólar hafa til að bregðast við hegðun nemenda er það niðurstaða mín að erindi yðar verði ekki tekið til nánari athugunar af hálfu umboðsmanns að svo stöddu. Líkt og gerð hefur verið grein fyrir í fyrri samskiptum við yður hefur hins vegar einnig verið litið á erindi yðar til mín sem ábendingu og þakka ég yður fyrir hana. Þau atvik sem þér hafið greint frá hafa verið höfð til hliðsjónar við almenna athugun mína á máli sem er nr. F94/2020 í málaskrá umboðsmanns og snertir aðbúnað barna í grunnskólum. Nýverið sendi ég ráðherra bréf þar sem ég kom tilteknum ábendingum á framfæri við hann og fór þess jafnframt á leit við ráðuneyti hans að það veitti mér upplýsingar um hvort það hygðist bregðast við þeim og þá með hvaða hætti. Þetta bréf, sem er frá 8. þessa mánaðar, er aðgengilegt á vefsíðu minni, www.umbodsmadur.is, í frétt með fyrirsögninni Einveruherbergi – óskað eftir viðbrögðum ráðherra í kjölfar heimsókna í grunnskóla.

Að lokum læt ég þess getið að í samræmi við framangreindar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra og samskipti mín við hann getið þér freistað þess að koma erindi yðar á framfæri við hann á grundvelli eftirlitshlutverks hans með starfsemi grunnskóla. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá ráðuneytinu.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með athugun minni á erindi yðar.