Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11400/2021)

Kvartað var yfir að aldursskilyrði sem fram koma í bráðabirgðaákvæði í lögum um sölu fasteigna og skipa fælu í sér ólögmæta mismunun. 

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur almennt ekki til starfa Alþingis voru ekki skilyrði til að hann tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. nóvember sl., en af henni og þeim gögnum sem henni fylgdu má ráða að þér teljið að aldursskilyrði sem komi fram í bráðabirgðaákvæði IV í lögum nr. 70/2015, um sölu fasteigna og skipa,  feli í sér ólögmæta mismunun. Hafið þér m.a. leitað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og kærunefndar jafnréttismála vegna þessa.

Með framangreindu ákvæði var tilteknum hópi veitt undanþága til að sinna áfram ákveðnum verkefnum við fasteignasölu án þess að hafa til þess löggildingu. Nánar tiltekið kemur fram í ákvæðinu að starfsmenn á fasteignasölum sem 1. júlí 2015 höfðu starfað sem sölumenn fasteigna í meira en 20 ár og höfðu náð 50 ára aldri gátu hlotið skráningu á undanþágulista sölumanna með því að hafa sótt um það fyrir 1. júlí 2016.

Ástæða þess að framangreint lagaákvæði er rakið er sú að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í okkar réttarkerfi er almennt álitið að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um slík atriði. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún lúti aðallega að atriðum sem tekin var skýr afstaða til með lögum. Með vísan til framangreinds eru því ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að því marki sem hún lýtur að því að yður hafi verið mismunað með ólögmætum hætti.

Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að þér hafið annars vegar óskað eftir því við fyrrnefnt ráðuneyti að lögunum yrði breytt og hins vegar að yður yrði veitt undanþága frá þeim. Að því marki sem kvörtun yðar beinist að afgreiðslu ráðuneytisins á erindum yðar skal tekið fram að í ljósi þess sem hefur verið rakið, þá sérstaklega hinna lögmæltu tímamarka til að sækja um undanþágu, tel ég ekki tilefni til að taka hana til frekari athugunar. Þá tel ég jafnframt ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 12/2021 frá 2. nóvember sl. að vísa máli yðar frá.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.