Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11426/2021)

Kvartað var yfir að embætti ríkislögreglustjóra hefði ekki veitt aðgang að gögnum vegna ráðningarmáls. 

Samkvæmt kvörtuninni hafði beiðnin verið afgreidd að hluta og ríkislögreglustjóri tilkynnt að unnið væri í málinu. Taldi umboðsmaður ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum að tilefni væri til frekari athugunar af sinni hálfu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. desember sl. yfir því að embætti ríkislögreglustjóra hafi ekki veitt yður aðgang að gögnum vegna ráðningarmáls sem þér teljið yður eiga rétt á. Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtuninni hefur beiðni yðar verið afgreidd að hluta en ríkislögreglustjóri tilkynnti yður síðast 17. nóvember sl. að unnið væri í málinu.

Stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Þótt áætlanir embættis ríkislögreglustjóra um vinnslu málsins hafi ekki staðist hingað til verður í ljósi samskipta yðar við embættið ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á svörum þess við erindum yðar að nægt tilefni sé til að það verði tekið til frekari athugunar hjá umboðsmanni að svo stöddu.

Lýk ég því hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.