Almannavarnir. COVID-19. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11435/2021)

Kvartað var yfir heilbrigðisráðherra og ráðuneyti, landlækni og sóttvarnalækni vegna sóttkvíar viðkomandi, sem er óbólusettur og var gert að sæta eftir dvöl erlendis.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menna leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Átti það við í þessu tilfelli og því ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunin hvað það áhrærði. Hvað snerti að fyrirspurn hefði ekki verið svarað taldi umboðsmaður ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum að tilefni væri til að bregðast við því af sinni hálfu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 11. desember sl. sem beinist að heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hans, landlækni og sóttvarnalækni. Lýtur hún að þeirri ákvörðun sóttvarnayfirvalda að þér skylduð sæta sóttkví eftir dvöl yðar erlendis nýverið þar sem þér hafið ekki verið bólusettir gegn Covid-19. Einnig beinist kvörtunin að því að sóttvarnayfirvöld hafi ekki brugðist við erindi yðar um forsendur að baki sömu ákvörðun.

Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið umrædda ráðstöfun fela í sér ólögmæta mismunun. Að beiðni starfsmanns míns barst mér afrit erindis yðar frá 7. þessa mánaðar til landlæknis, heilbrigðisráðherra og ráðuneytis hans þar sem þér óskið eftir því að fá upplýsingar um forsendur þess að óbólusettum sé gert að fara í sóttkví við komu til landsins. Þér hafið upplýst að yður hafi enn sem komið er ekki borist viðbrögð við þeirri fyrirspurn.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr., sbr. einnig 3. mgr. sömu greinar, sóttvarnalaga nr. 19/1997 skal sóttvarnalæknir taka ákvörðun um viðeigandi aðgerðir, svo sem sóttkví, leiki grunur á að tiltekinn einstaklingur sé haldinn smitsjúkdómi. Samkvæmt 12. mgr. 14. gr. sömu laga getur ráðherra sett reglugerð um nánari útfærslu ákvæðisins, t.d. þar sem kveðið er á um þær reglur sem gilda skulu um þá sem sæta einangrun eða sóttkví. Á þessum grundvelli hefur heilbrigðisráðherra sett reglugerð nr. 1240/2021, um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna Covid-19.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar skal ferðamaður, með tengsl við Ísland, sem dvalið hefur meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á svæði skilgreindu af sóttvarnalækni sem áhættusvæði framvísa viðurkenndu vottorði um bólusetningu, viðkenndu vottorði sem staðfestir jákvæða niðurstöðu úr PCR-prófi sem er eldra en 14 daga gamalt eða viðurkenndu vottorði sem staðfestir mótefni með mótefnaprófi. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er þeim, sem ekki geta framvísað einu af framangreindum vottorðum, skylt að fara í PCR-sýnatöku á landamærastöð eða annars staðar þar sem sóttvarnalæknir ákveður við komuna til landsins og því næst í sóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir úr annarri PCR-sýnatöku sem skylt er að undirgangast og framkvæma skal 5 dögum eftir komu til landsins.

Af 15. gr. laga nr. 19/1997, sbr. 1. málsl. 10. mgr. 14. gr. sömu laga, leiðir að stjórnvaldsákvörðun sem tekin er á grundvelli laganna og sviptir einstakling frelsi sínu, þ.m.t. þegar einstaklingur er settur í sóttkví, er endanleg á stjórnsýslustigi og verður borin undir dómstóla, í samræmi við nánari fyrirmæli samkvæmt ákvæðum 15. gr., einkum 1.-3. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 4. mgr. hennar frestar málsmeðferð fyrir dómi ekki framkvæmd slíkrar stjórnvaldsákvörðunar.

Ástæða þess að þetta er rakið er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þar sem það á við um þá ákvörðun sem kvörtun yðar snertir er ljóst að lagaskilyrði brestur til að ég geti fjallað um hana að þessu leyti.

Að því marki sem kvörtunin lýtur að því að fyrirspurn yðar hafi ekki verið svarað vek ég athygli yðar á því að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Ekki verður talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á svörum stjórnvalda við erindi yðar frá 7. desember sl. að tilefni sé til að ég taki kvörtun yðar til frekari athugunar að því leyti.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.