Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. COVID-19.

(Mál nr. 11439/2021)

Kvartað var yfir töfum á svörum frá heilbrigðisráðherra og óskað eftir að umboðsmaður kæmi því til leiðar að svör fengjust. 

Erindin höfðu verið send á netfang ráðherra sem alþingismanns og þótt að stjórnvöldum beri almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa var viðkomandi bent á að beina þeim til heilbrigðisráðuneytisins eða annarra stjórnvalda á sviði heilbrigðismála áður en umboðsmaður gæti brugðist við.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar frá 14. desember sl. þar sem þér óskið eftir því að umboðsmaður Alþingis komi því til leiðar að heilbrigðisráðherra svari erindum yðar til hans frá 8. og 10. desember sl. Erindin voru send á tölvupóstfang hans sem alþingismanns en eftir að hann tók við sem ráðherra. Lúta þau að bólusetningu vegna Covid-19.

Þótt erindin hafi verið send á tölvupóstfang ráðherra á vegum þingsins skal þess getið að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Ef þér ákveðið að beina erindum yðar til heilbrigðisráðuneytisins eða annarra stjórnvalda á sviði heilbrigðismála og þér teljið að tafir verði á að brugðist sé við þeim læt ég þess getið að rétt er að stjórnvöldum sé gefið færi á að bregðast við áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.