Kvartað var yfir synjun um áframhaldandi vist á dvalar- og hjúkrunarheimili.
Viðkomandi lést áður en svör stjórnvalda við fyrirspurnum umboðsmanns lágu að fullu fyrir. Hagsmunir dánarbúsins voru ekki taldir slíkir að athugun á kvörtuninni yrði haldið áfram. Aftur á móti taldi umboðsmaður að tiltekin atriði sem á reyndi hefðu almenna þýðingu og þeim yrði haldið til haga í tengslum við aðra athugun sem unnið væri að.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar föður yðar heitins, A, yfir því að honum hafi á árinu 2018 verið synjað um áframhaldandi dvöl á [...] eftir að hann fór til læknismeðferðar og skammvinnrar innlagnar á Landspítala.
Eins og yður er kunnugt óskaði umboðsmaður eftir skýringum og upplýsingum í tilefni af kvörtuninni, bæði af hálfu embættis landlæknis og heilbrigðisráðherra, og hefur átt í samskiptum við stjórnvöld vegna málsins. Síðast var óskað eftir upplýsingum af hálfu heilbrigðisráðherra með bréfi 10. júní 2021. Eins og þar kom fram var ekki talið rétt að taka þau atriði sem kvörtunin til landlæknis laut að fyrr en endanleg niðurstaða landlæknis lægi fyrir. Í kjölfar þess hefði umboðsmaður farið yfir málið á ný, m.a. með tilliti til almennra atriða sem hann hefði ákveðið að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, viðvíkjandi ákvörðunum um aðgengi að hjúkrunar- og dvalarheimilum. Af því tilefni var óskað eftir svörum og skýringum ráðuneytisins á tilteknum atriðum.
Svör heilbrigðisráðuneytisins bárust umboðsmanni með bréfi 16. desember sl. Ég hef farið yfir svörin og kynnt mér skýringar ráðuneytisins í samhengi við gögn málsins. Að teknu tilliti til kvörtunarefnisins sem lýtur að synjun á dvöl á [...], og eins og atvikum er háttað, tel ég að dánarbú A hafi ekki þá hagsmuni af því að athugun á kvörtuninni verði haldið áfram. Aftur á móti tel ég að tiltekin atriði sem reynir á í málinu hafi almenna þýðingu og mun halda þeim til haga í tengslum við þá almennu athugun sem áfram er unnið að hjá umboðsmanni. Sú athugun hefur einkum beinst að eðli ákvarðana um að samþykkja eða hafna einstaklingi um dvöl á dvalar- og hjúkrunarheimili, hvaða kost þeir eigi á að fá leyst úr ágreiningi við heilbrigðisyfirvöld, s.s. um hvar hún eigi að fara fram, að hvaða marki reglur um stjórnsýslukærur og bindandi réttaráhrif úrskurða í þeim eigi við í þessum málum og hver fari þá með úrskurðarvald. Jafnframt hvernig stjórnsýslueftirliti er háttað á þessu réttarsviði og með hvaða hætti fólki er leiðbeint um stöðu sína og úrræði.
Með vísan til framangreinds tel ég rétt að senda yður, fyrir hönd dánarbúsins, afrit af fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins. Ef þér teljið ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum við svör ráðuneytisins óska ég eftir að þær verði sendar fyrir 1. febrúar 2022. Þær verða þá teknar til skoðunar og hafðar til hliðsjónar við fyrrgreinda almenna athugun sem unnið er að hjá embættinu.
Með vísan til þess sem að framan greinir lýk ég athugun minni á máli A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.