Námslán. Synjun um undanþágu frá endurgreiðslu. Skyldubundið mat.

(Mál nr. 2929/2000)

A kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem staðfest var synjun stjórnar lánasjóðsins á beiðni A um undanþágu frá endurgreiðslu námslána.

Umboðsmaður rakti ákvæði 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem fjallar um endurgreiðslur námslána og undanþágur frá þeim, 8., 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og grein 7.4. í úthlutunarreglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrir námsárin 1998-1999 og 1999-2000 sama efnis. Benti umboðsmaður á að orðalag 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 gerði beinlínis ráð fyrir því að stjórn sjóðsins meti í hverju tilviki fyrir sig hvort félagslegar og fjárhagslegar aðstæður umsækjanda um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána séu þess eðlis að rétt sé að veita honum slíkt að hluta eða að öllu leyti. Væru í ákvæðinu nefnd sem dæmi alvarleg veikindi eða slys, sbr. fyrri málsliður ákvæðisins eða verulegir fjárhagsörðugleikar hjá lánþega eða fjölskyldu hans, sbr. seinni málsliðurinn.

Umboðsmaður benti á að af úrskurði stjórnar lánasjóðsins yrði ráðið að synjunin hefði alfarið verið byggð á því að A yrði reiknuð tekjutengd afborgun árið 2000 eins og árin 1997 til 1999. Taldi hann að eins og lagagrundvellinum væri háttað hefði stjórninni og málskotsnefndinni borið að gera fullnægjandi reka að því að kanna sérstaklega fjárhagslegar aðstæður A á því tímamarki þegar beiðni hans var til meðferðar. Bar stjórninni því eftir atvikum að óska eftir frekari gögnum frá A, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, þannig að henni væri fært að staðreyna hvort aðstæður hans, einkum sú staðreynd að hann hafði greinst með sjúkdóm, hefðu leitt til þess að ráðstöfunarfé hans hefði verið skert til muna eða möguleikar hans til að afla tekna, sbr. 6. mgr. 8. gr. sömu laga. Þá hefði stjórninni ennfremur borið að meta hvort veikindi hans og aðstæður að öðru leyti hefðu valdið honum eða fjölskyldu hans verulegum fjárhagsörðugleikum, sbr. síðari málsl. 6. mgr. 8. gr. laganna.

Umboðsmaður tók fram að ekki væri loku fyrir það skotið að stjórn lánasjóðsins væri heimilt að setja sér almennar verklagsreglur við framkvæmd heimildarákvæðis 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 m.a. til að stuðla að samræmi og jafnræði við meðferð einstakra mála. Hann taldi þó að eðli lagareglunnar girti fyrir að slíkar reglur fælu í sér afnám eða verulega takmörkun á því skyldubundna mati sem stjórninni væri ætlað að framkvæma við afgreiðslu á beiðnum um undanþágu frá árlegum endurgreiðslum námslána, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 982/1994 og 2134/1997. Benti umboðsmaður á að beiðni A hefði alfarið verið afgreidd á grundvelli þeirrar hlutlægu og fortakslausu vinnureglu stjórnarinnar að ekki væri veitt undanþága frá endurgreiðslu námslána ef líklegt yrði talið að lánþega myndi reiknast tekjutengd afborgun á næsta ári eftir að breyting sú sem var ástæða beiðni hans átti sér stað. Af rökstuðningi í úrskurði málskotsnefndar og öðrum gögnum málsins yrði ekki annað séð en að stjórn lánasjóðsins og síðar málskotsnefndin hefðu ekki afgreitt beiðni A með þeim hætti sem 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 gerði ráð fyrir.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til málskotsnefndar lánasjóðsins að hún tæki mál A til skoðunar að nýju kæmi fram ósk um það frá honum og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 1. febrúar 2000 leitaði A, til mín vegna úrskurðar málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 19. janúar 2000. Í þeim úrskurði staðfesti málskotsnefndin úrskurð stjórnar lánasjóðsins, dags. 25. nóvember 1999, þar sem beiðni A um undanþágu frá endurgreiðslu námslána var synjað.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 29. maí 2001.

II.

Af gögnum málsins má ráða að A sótti um undanþágu frá endurgreiðslu námslána á eyðublaði Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 14. apríl 1999, sem bar heitið „Beiðni um endurskoðun á afborgun námslána“. Á eyðublaðinu var aðeins merkt sérstaklega við það að „atvinnuleysi [hefði] varað lengur en 4 mánuði“. Samkvæmt móttökustimpli barst beiðnin lánasjóðnum 6. maí 1999.

Hinn 21. maí 1999 ritaði starfsmaður lánasjóðsins A bréf og tilkynnti honum um móttöku erindis hans. Fram kom í bréfinu að til þess að hægt væri að taka það til afgreiðslu yrði A að leggja fram staðfest afrit af skattframtali 1999 vegna tekjuársins 1998. Af því tilefni ritaði A lánasjóðnum bréf, dags. 16. júlí 1999. Í bréfinu kom fram að hann hefði nú fyrst fengið sent afrit af skattframtali sínu frá dönskum skattyfirvöldum. Þá hefði hann rætt við lögmenn lánasjóðsins og fengið frest til 15. september 1999 til að greiða gjaldfallna kröfu sjóðsins og kvaðst hann því vonast til þess að lánasjóðurinn gæti afgreitt beiðni hans um undanþágu fyrir þann tíma. Síðan sagði svo í bréfi A:

„Nú hef ég, fyrir utan atvinnuleysið, fengið sjúkdómsgreininguna MS [Multiple Sclerosis] [...] Þetta er sem kunnt er, lömunarsjúkdómur [...].

Eru einhverjar reglur innan sjóðsins fyrir utan sjúklinga, varðandi tilbaka borganir ??“

Að fengnum þessum upplýsingum synjaði lánasjóðurinn beiðni A með bréfi, dags. 8. ágúst. Í bréfinu var vísað til 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og tekið fram að tekjur A hefðu á árinu 1998 verið 159.494 danskar krónur og myndi honum því reiknast tekjutengd afborgun námslána árið 1999. Erindi hans um undanþágu frá endurgreiðslu námslána árið 1999 væri því synjað. Þá sagði svo í bréfinu:

„Vegna fyrirspurnar þinnar um undanþágu vegna veikinda, er unnt að sækja um slíkt og þarf þá að fylgja með læknisvottorð og skattaframtal. Viðmiðunartekjur eru þær sömu og vegna atvinnuleysis, eða nú kr. 1.150.000.“

Hinn 1. september 1999 ritaði A stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf þar sem beiðst var niðurfellingar afborgana á lánum vegna „sk[y]ndilegra breytinga á tekjum vegna sjúkdóms“. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Eins og þið nú vitið og hafið gögn um, fékk ég sjúkdómsgreininguna MS eða mænu-sigg [...]

Nú er ég búinn að skrifa nokkur bréfin til [starfsmanns LÍN] og nú í dag fékk ég ennþá eitt bréfið frá honum, og er beðin um að skrifa ennþá eitt bréfið, og senda með kvittun á mínum núverandi tekjum/bótum, og er kvittun þess efnis meðfylgjandi.

[...]

Það er von mín að þið talið við lögmennina á meðan þið handlið þetta mál, og lengið frestinn eða heimkallið málið.

Ég er nú á sjúkradagpeningum, (kvittun meðf.).

Það má alveg koma fram að undirritaður ekki á neinar eignir.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er sjóðnum heimilt að veita heimild fyrir að veita undanþágu að hluta eða að öllu leyti eftir atvikum.

Undirritaður biður um niðurfellingu að öllu leyti.

[...]

Það getur hver maður séð að ég féll frá dk. Kr. 18500 á mánuði niður í dagp/sjúkrabætur (1/8 98).”

Í gögnum þeim sem mér bárust frá lánasjóðnum er samkvæmt framangreindu að finna vottorð dansks læknis, dags. 17. ágúst 1999, um að A hafi verið greindur með mænusigg („dissemineret sclerose“).

Stjórn Lánasjóðs íslenska námsmanna „úrskurðaði“ í máli A 25. nóvember 1999 og var erindi hans um „undanþágu frá endurgreiðslu námslána synjað“. Í úrskurðinum sagði meðal annars svo:

„Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er ekki veitt undanþága frá árlegri endurgreiðslu ef lánþega reiknast tekjutengd afborgun. Þó er heimilt skv. 9. gr. reglugerðarinnar að taka tillit til þess ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lántaka milli ára t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins miðar jafnframt við að fjárhagsörðugleikar lánþega hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga.

Tekjur þínar á árunum 1996-1998 voru þær að þér reiknast tekjutengd afborgun árin 1997-1999 og ekki verður annað séð en þér muni reiknast tekjutengd afborgun árið 2000, þ.e. tekjur þínar á árinu 1999 verði yfir kr. 1.150.000.

Samkvæmt framansögðu og þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir sjóðsstjórn er það mat stjórnarinnar að þú uppfyllir ekki þau skilyrði fyrir undanþágu frá afborgun sem upp eru talin í 8. gr. laga nr. 21/1992 og í 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997.“

[...]

Þér er þó boðið að skuldbreyta vanskilum þínum og er þá sjóðurinn tilbúinn að falla að hluta frá dráttarvöxtum.“

Með kæru, dags. 30. nóvember 1999, skaut A úrskurði stjórnar lánasjóðsins til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í úrskurði málskotsnefndarinnar, dags. 19. janúar 2000, eru rakin með eftirfarandi hætti atvik málsins, sjónarmið aðila og niðurstaða nefndarinnar:

„Kærandi, sem býr í Danmörku og er gullsmiður að mennt, sótti um undanþágu frá afborgun námslána vegna breytinga sem urðu á högum hans vegna sjúkdóms. Kærandi kveðst hafa sjúkdóm er nefnist mænusigg, sem orsaki það að hann geti ekki sinnt starfi sínu. Kærandi kveður sjúkdóminn vera lömunarsjúkdóm sem endi með því að viðkomandi verði bundinn í hjólastól. Kærandi kveðst vera á hæstu sjúkrabótum vegna sjúkdómsins, en skattar séu háir í Danmörku og því hafi hann úr litlu að spila.

[...]

Stjórn LÍN vekur athygli á að í ofangreindum ákvæðum laga og reglugerðar [8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997] sé það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu undanþágu að tilteknar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Stjórn LÍN bendir á að kærandi hafi verið í vanskilum með afborganir námslána sinna frá hausti 1997. Samkvæmt innsendum gögnum hafi hann misst atvinnu sína um miðjan ágúst 1998 og hafi verið án atvinnu síðan. Tekjur kæranda hafi verið kr. 2.653.342- fyrir árið 1996, kr. 2.349.015- fyrir árið 1997 og kr. 1.700.844 fyrir árið 1998 miðað við meðalgengi dönsku krónunnar umrædd ár. Stjórn sjóðsins telur að kærandi geti ekki átt rétt á undanþágu vegna gjalddaganna 1. september 1997, 1. mars 1998 og 1. september 1998, þar sem hann hafi ekki misst atvinnu sína fyrr en um miðjan ágúst 1998 og hafi auk þess reiknast tekjutengd afborgun umrædd ár.

Stjórn LÍN hefur túlkað 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997 þannig að litið sé til þess hvort líklegt sé að greiðanda muni reiknast tekjutengd afborgun á næsta ári eftir að skyndilegar breytingar eigi sér stað. Af innsendum gögnum kæranda í máli þessu megi ráða að hann hafi sem svarar til u.þ.b. 1.400.000- ísl. króna í tekjur á ári og því muni honum reiknast tekjutengd afborgun árið 2000. Stjórn LÍN telur því ekki efni til að verða við kröfu kæranda eins og málum er háttað.

Niðurstaða:

Óumdeilt er að 8. gr. laga nr. 21/1992 sbr. lög nr. 67/1997 og 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997, veita stjórn LÍN heimild til að veita undanþágu frá [...] árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum eftir atvikum, ef nánar tilgreindar ástæður eru fyrir hendi. Þær viðmiðunarreglur sem stjórn LÍN hefur komið sér upp varðandi mat á því hvort um niðurfellingu verði að ræða og lýst hefur verið hér að framan, fela að áliti málskotsnefndarinnar ekki í sér brot á framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, enda eru viðmiðunarreglurnar til þess fallnar að tryggja jafnræði með aðilum er sækja um slíkar undanþágur.

Með vísan til þessa er úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. I-77/99 staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Í kvörtun A til mín, sem barst mér eins og áður greinir 1. febrúar 2000, ítrekar hann að verulegar breytingar hafi orðið á högum hans vegna sjúkdóms og að möguleikar hans til að afla tekna séu litlir eða engir. Einu tekjur hans séu í formi sjúkradagpeninga.

III.

Ég ritaði málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf 25. febrúar 2000 þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að málskotsnefndin léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega var þess óskað að málskotsnefndin gerði grein fyrir því hvort og þá hvernig nefndin og eftir atvikum stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefði lagt sjálfstætt mat á aðstæður A með tilliti til undanþáguheimildar 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Samkvæmt gögnum málsins ritaði málskotsnefndin stjórn lánasjóðsins bréf, dags. 8. mars 2000, í tilefni af áðurnefndu fyrirspurnarbréfi mínu, og óskaði þess að stjórnin skýrði sjálf umrædd atriði í bréfi sem yrði sent mér. Samkvæmt þessu bárust mér gögn málsins með bréfi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 21. mars 2000. Í bréfinu vísaði stjórn lánasjóðsins til úrskurðar síns, dags. 25. nóvember 1999 og bréfs stjórnarinnar til málskotsnefndarinnar, dags. 23. desember s.á. Samkvæmt framangreindu hefur málskotsnefndin svarað fyrir sitt leyti þeim atriðum sem komu fram í bréfi mínu til nefndarinnar, 25. febrúar 2000.

IV.

1.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, skal árleg endurgreiðsla námslána ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs. Með 6. mgr. 8. gr. er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu námslána og er ákvæðið svohljóðandi:

„Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.“

Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 skal skuldari sem sækir um undanþágu samkvæmt tilvitnaðri 6. mgr. sömu greinar leggja fyrir sjóðstjórn ítarlegar upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og önnur atriði er stjórnin telur máli skipta.

Ákvæði 8. gr. laga nr. 21/1992 um heimild stjórnar lánasjóðsins til að veita undanþágu frá afborgunum námslána eru samhljóða ákvæðum eldri laga um lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 72/1982. Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því sem varð að síðarnefndu lögunum segir svo:

„Stjórn Lánasjóðs er veitt heimild til þess að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Mjög ríkar ástæður verða að vera fyrir hendi, svo sem alvarleg veikindi eða slys, til þess að veita megi undanþágu frá hlutfallsgreiðslunni. Hins vegar er heimild til undanþágu frá föstu greiðslunni mun rýmri, þótt ófrávíkjanlegt skilyrði sé að tilteknar ástæður valdi „verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans“. Undanþágu má veita að hluta eða öllu leyti, allt eftir atvikum hverju sinni. Sé undanþága veitt frestar það einungis hlutaðeigandi greiðslu en kemur ekki í veg fyrir að lán greiðist að fullu til baka.“ (Alþt. 1981-82, A-deild, bls. 1039.)

Frekari ákvæði um endurgreiðslu námslána eru í 8. gr. reglugerðar nr. 602/1997, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Um undanþágur frá þeim reglum segir svo í 9. og 10. gr. reglugerðarinnar:

„9. gr.

Nú gefur útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum gögnum, er sjóðstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum.

10. gr.

Námsmaður sem hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, getur sótt um undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Skal hann þá leggja fyrir sjóðstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og annað það sem stjórnin telur máli skipta. Stjórninni er þá heimilt að veita undanþágu að hluta eða öllu leyti eftir atvikum. Sjóðstjórn setur nánari almennar reglur um framkvæmd þessa heimildarákvæðis.“

Fjallað er um undanþágur í grein 7.4. í úthlutunarreglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrir námsárin 1998-1999 og 1999-2000. Um undanþágu frá fastri afborgun segir í grein 7.4.1 í síðarnefndu reglunum:

„Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá fastri afborgun námslána ef lánþegi hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki tekjutengd afborgun og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar aðstæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega. Stjórn sjóðsins miðar við að tekjur séu það lágar að lánþega reiknist ekki tekjutengd afborgun greiði hann af námslánum teknum skv. lögum nr. 21/1992 (R-lánum).

Hafi lánþegi haft þær tekjur á fyrra ári að honum reiknist eða muni reiknast tekjutengd afborgun skv. lögum nr. 21/1992, er stjórn sjóðsins þó heimilt að veita undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar námslána gefi útsvarsstofn lánþega vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins miðar að jafnaði við að fjárhagsörðugleikar hafi varað a.m.k. í 4 mánuði fyrir greiðsludag og líkur séu á að fjárhagsörðugleikarnir verði viðvarandi.“

Um undanþágu frá tekjutengdri afborgun vegna breytinga á högum lánþega segir í grein 7.4.2:

„Stjórn sjóðsins er einnig heimilt að veita undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar enda gefi útsvarsstofn lánþega vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins miðar að jafnaði við að fjárhagsörðugleikar hafi varað í a.m.k. 4 mánuði fyrir greiðsludag, líkur séu á að fjárhagsörðugleikarnir verði viðvarandi og telja megi líklegt að lánþega reiknist ekki tekjutengd afborgun á næsta ári.

[...]”

2.

Orðalag 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og tilvitnuð lögskýringargögn gera beinlínis ráð fyrir því að stjórn sjóðsins meti í hverju tilviki fyrir sig hvort félagslegar og fjárhagslegar aðstæður umsækjanda um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána séu þess eðlis að rétt sé að veita honum slíka undanþágu að hluta eða að öllu leyti. Það er meginskilyrði fyrri málsliðar ákvæðisins að skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum skuldara og eru í dæmaskyni nefndar þær aðstæður þegar „hann hefur veikst alvarlega eða orðið fyrir slysi er hafi skert til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna“. Þó kemur fram í síðari málslið ákvæðisins að stjórn sjóðsins sé ennfremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu ef tiltekin atvik valda „verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans“. Þessi aðgreining er skýrð á þá leið í lögskýringargögnum að fyrri málsliðurinn lúti að kröfum til undanþágu frá viðbótarendurgreiðslu námslána sem er tekjutengd. Skilyrði til undanþágu frá hinni föstu ársgreiðslu væru hins vegar rýmri og kæmu skilyrði um hana fram í síðari málslið ákvæðisins. Virðast ákvæði 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 og greinar 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum lánasjóðsins taka að nokkru mið af þessari aðgreiningu.

Af úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 25. nóvember 1999, verður ráðið að synjun á beiðni A um undanþágu frá endurgreiðslu námslána var alfarið á því byggð að honum hafði reiknast tekjutengd afborgun árin 1997 til 1999 og að það hefði verið mat stjórnarinnar að svo yrði einnig um árið 2000. Þessi skilningur er staðfestur í bréfi stjórnar lánasjóðsins til málskotsnefndarinnar, dags. 23. desember 1999. Þar tekur stjórnin fram að hún hafi túlkað 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997 þannig að litið væri til þess hvort líklegt væri að greiðanda myndi reiknast tekjutengd afborgun á næsta ári eftir að skyndilegar og verulegar breytingar ættu sér stað. Samkvæmt úrskurði málskotsnefndarinnar taldi nefndin þetta viðmið stjórnarinnar ekki fela í sér brot á umræddum laga- og reglugerðarákvæðum enda væru slíkar reglur til þess fallnar að tryggja jafnræði með aðilum er sæktu um slíkar undanþágur.

Af þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð fæ ég ekki annað séð en að beiðni A um undanþágu frá endurgreiðslu námslána, sem fyrst var studd við atvinnuleysi hans og síðar, er sjúkdómsgreining hans lá fyrir, við það að hann væri veikur, hafi tekið bæði til vangoldinna krafna sjóðsins á árunum 1997 og 1998 og einnig til fyrirhugaðra greiðslna á árinu 1999. Eins og lagagrundvelli meðferðar slíkra beiðna var háttað samkvæmt framangreindu bar stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, og þá síðar málskotsnefndinni, að gera fullnægjandi reka að því að kanna sérstaklega fjárhagslegar aðstæður A á því tímamarki þegar beiðni hans var til meðferðar. Bar stjórninni þá eftir atvikum að óska eftir frekari gögnum frá honum, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, þannig að henni væri fært að staðreyna hvort aðstæður hans, einkum sú staðreynd að hann hafði greinst með sjúkdóm, hefðu leitt til þess að „ráðstöfunarfé“ hans hefði verið skert til muna eða möguleikar hans til að afla tekna, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Þá bar stjórninni ennfremur að meta hvort veikindi hans og aðstæður að öðru leyti hefðu valdið honum eða fjölskyldu hans verulegum fjárhagsörðugleikum, sbr. síðari málsl. 6. mgr. 8. gr. laganna.

Ég tek fram að ekki er loku fyrir það skotið að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna sé heimilt að setja sér almennar verklagsreglur við framkvæmd heimildarákvæðis 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 meðal annars til þess að stuðla að samræmi og jafnræði við meðferð einstakra mála. Hvað sem því líður tel ég að eðli þeirrar lagareglu sem hér um ræðir girði fyrir að slíkar reglur megi fela í sér afnám eða verulega takmörkun á því skyldubundna mati sem stjórninni er ætlað að framkvæma við afgreiðslu á beiðnum um undanþágu frá árlegum endurgreiðslum námslána, sbr. hér til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 23. febrúar 1996 og 16. október 1997 í málum nr. 982/1994 og 2134/1997.

Beiðni A var eins og áður greinir alfarið afgreidd á grundvelli þeirrar hlutlægu og fortakslausu vinnureglu stjórnar lánasjóðsins að ekki væri veitt undanþága frá endurgreiðslu námslána ef líklegt yrði talið að lánþega myndi reiknast tekjutengd afborgun á næsta ári eftir að breyting sú sem var ástæða beiðni hans átti sér stað. Af rökstuðningi í úrskurði málskotsnefndar lánasjóðsins og öðrum gögnum málsins verður samkvæmt þessu ekki annað séð en að stjórn lánasjóðsins, og síðar málskotsnefndin, hafi ekki afgreitt beiðni A með þeim hætti sem 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 gerði ráð fyrir. Var úrskurður málskotsnefndarinnar því ekki í samræmi við lög.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að afgreiðsla stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna og síðar málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi ekki verið í samræmi við lög. Eru það því tilmæli mín til málskotsnefndar lánasjóðsins að hún taki mál A til skoðunar á ný, ef ósk kemur um það frá honum, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem fram hafa komið í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 26. nóvember 2001, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða málið væri enn til meðferðar. Í svari nefndarinnar, dags. 6. desember 2001, kom meðal annars fram að 12. september 2001 hefði mál A verið endurupptekið hjá nefndinni. Hefði gagnaöflun farið fram en nokkur skortur hefði verið á því að A hefði svarað bréfum nefndarinnar og væri það skýringin á því að úrskurður lægi ekki enn fyrir.

Með símbréfi málskotsnefndarinnar, dags. 27. mars 2002, barst mér afrit af úrskurði nefndarinnar sem kveðinn var upp 14. febrúar s.á. Niðurstaða málskotsnefndarinnar var sú að fella yrði hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir stjórn lánasjóðsins að meta beiðni A að nýju með hliðsjón af aðstæðum hans og í ljósi framkominna gagna.