Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 11171/2021)

Kvartað var yfir þjónustu og aðbúnaði á sambýli. Beindist erindið einkum að því að tillögum til úrbóta í skýrslu frá 2019 hefði ekki verið fylgt eftir.

Í svörum frá ráðuneyti félags- og barnamála kom fram að málið væri enn til meðferðar og í ferli hjá sveitarfélaginu. Ekki var því nægilegt tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar að svo stöddu. Hafði umboðsmaður þá einni í huga að ráðuneytið upplýsti að í eftirfylgni úttektarinnar hefði komið í ljós að bætt hefði verið úr mörgu í þjónustunni og aðgerðarliðum fækkað úr 23 í 11 sem enn væru í vinnslu. Þá benti umboðsmaður viðkomandi á að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tæki til starfa um áramót sem færi m.a. með eftirlit með þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. 

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar frá 11. júní sl. er lýtur að þjónustu og aðbúnaði dóttur yðar á íbúðasambýli þar sem hún býr. Með erindi yðar fylgdi samantekt þar sem gerðar eru margvíslegar athugasemdir þar að lútandi. Beinist erindið einkum að skorti á að tillögum að úrbótum í skýrslu frá 2019 hafi verið fylgt eftir.

Í tilefni af kvörtun yðar var félags- og barnamálaráðherra ritað bréf 13. ágúst sl. sem þér fenguð sent afrit af með bréfi sama dag. Svör ráðuneytis hans bárust mér með bréfi 15. október sl. og athugasemdir yðar við þau 5. nóvember sl. Þá bárust frekari athugasemdir frá yður og syni yðar 22. sama mánaðar.

Af svörum ráðuneytisins til mín og gögnum málsins verður ráðið að það hafi verið afstaða þess, þ.m.t. gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, í framhaldi af erindinu 15. júní 2020 að á þeim tímapunkti hefði ekki verið talin ástæða til að hefja úttekt á heimilinu í heild eða þjónustu sveitar­félagsins við fatlað fólk. Í svörum ráðneytisins var vísað til þess að skammur tími hefði verið liðinn frá því að niðurstöður eftirfylgniúttektarinnar hefðu verið kynntar og upplýsingar hefðu legið fyrir um að framkvæmd innra eftirlits sveitarfélagsins með þjónustu við fatlaða einstaklinga væri á áætlun hjá því. Þannig hefði verið lagt mat á það hjá gæða- og eftirlitsstofnuninni hvort erindið frá 15. júní 2020 gæfi tilefni til þess að stofnunin brygðist við því.

Með vísan til framangreinds og í ljósi þess að málið er enn til meðferðar og í ferli hjá sveitarfélaginu tel ég, að svo stöddu, ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Hef ég þá einnig í huga að ráðuneytið upplýsti að í eftir­fylgni úttektarinnar hefði komið í ljós að bætt hefði verið úr mörgu í þjónustu við dóttur yðar. Upphaflega hefði aðgerðarlisti í 23 liðum verið birtur en í eftirfylgniskýrslunni hefði nýr aðgerðarlisti verið birtur í 11 liðum sem enn væri í vinnslu.

Að lokum bendi ég yður á að 1. janúar nk. tekur til starfa ný eftirlitsstofnun, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sbr. samnefnd lög nr. 88/2021. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. þeirra laga mun stofnunin fara með eftirlit með gæðum þjónustu sem m.a. er veitt á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í 17. gr. laganna er fjallað um kvartanir notenda þjónustu til stofnunarinnar og í 21. gr. sömu laganna er vísað til stjórnsýslulaga um kæruheimild vegna stjórnvalds­ákvarðana hennar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.