Fullnusta refsinga. Heilbrigðismál. OPCAT-eftirlit.

(Mál nr. 11318/2021)

Kvartað var yfir ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu í fangavist auk annars.

Þar sem ekki lá fyrir að ákvörðunum Fangelsismálastofnunar hefði verið skotið til dómsmálaráðuneytisins og kæruleið þannig tæmd, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að því er þær snerti. Í ljósi svara Fangelsismálastofnunar um heilbrigðisþjónustuna og vistun í öryggisklefa voru ekki heldur nægar forsendur til að halda athugun á þeim áfram.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar frá 23. september sl. sem beinist m.a. að því að þér teljið yður ekki hafa fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í fanga­vistinni vegna meiðsla sem þér urðuð fyrir og hvernig vistun yðar í öryggisklefa tiltekið skipti fór fram, en fram kemur að slökkt hafi verið á bjöllu og þér hafið ekki fengið drykkjarvatn. Einnig vísast til símtala yðar við starfsmann minn 24. september og 4. október sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Fangelsismálastofnun ritað bréf 21. október sl., sem þér fenguð sent afrit af, og þess óskað að stofnunin veitti umboðsmanni upplýsingar um nánar tiltekin atriði. Meðfylgjandi bréfi þessu eru svör stofnunarinnar 4. nóvember sl.

  

II

Í kvörtuninni er farið fram á að yður verði veitt hlé á afplánum eða þér vistaður utan fangelsis. Í svörum Fangelsismálastofnunar til mín er fjallað um beiðnir yðar um að hlé verði gert á afplánun og umsóknir um reynslulausn og afplánun í meðferð. Um það segir nánar í svörunum að þessum erindum hafi ýmist verið synjað eða þau séu enn til meðferðar hjá stofnuninni og hún hafi eftir því sem við eigi leiðbeint yður um kæruheimild til dómsmálaráðuneytisins. Enn fremur er upplýst um að yður hafi verið leiðbeint um að þér gætuð kært ákvörðun um að vista yður í öryggisklefa.

Ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru að jafnaði kæranlegar til ráðuneytisins, líkt og Fangelsismálastofnun hefur samkvæmt framangreindu leiðbeint yður um. Ástæða þess að þetta er áréttað er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið freistað þess að kæra umræddar ákvarðanir til ráðuneytisins og þar með að það hafi úrskurðað um ákvarðanirnar tel ég ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla frekar um þær, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Í áðurnefndum svörum Fangelsismálastofnunar til mín er fjallað um þá heilbrigðisþjónustu sem yður hafi verið veitt og ákvörðun um að vista yður í öryggisklefa 5. september sl. Verður ekki annað ráðið af upplýsingum frá stofnuninni en að það sé afstaða hennar að yður hafi verið veitt heilbrigðisþjónusta eftir þörfum og efni hafi verið til að vista yður í öryggisklefa umrætt sinn. Ekki hafi verið slökkt á bjöllu í klefanum og yður hafi ekki verið synjað um drykkjarvatn. Í ljósi svara stofnunarinnar og að teknu tilliti til þess sem kemur fram í kvörtun yðar hef ég ekki nægar forsendur til að halda áfram athugun minni á henni.

Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ég hafi ekki forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.