Samningar. Almannavarnir. Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11321/2021)

Kvartað var yfir sveitarfélaginu Múlaþingi og m.a. samskiptum í tengslum við samningagerð. Sveitarfélagið hafi brotið gegn stjórnsýslureglum, einkum upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu.

Varði kvörtun ágreining um gildi samninga og fjárhæð greiðslna sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu þar að lútandi sem og hann gerði. Hvað snerti athugasemdir við að lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum fælu í sér ólögmæta mismunun benti umboðsmaður á að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A frá 23. september sl. sem beinist að sveitarfélaginu Múlaþingi og lýtur m.a. að samskiptum þess við A í tengslum við kaupsamningsgerð vegna kaupa á fasteign hennar að [...] á Seyðisfirði í júní sl.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni telur A að sveitarfélagið hafi brotið gegn stjórnsýslureglum við meðferð málsins, einkum upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu. A telur sig hafa samþykkt of lágt kaupverð fyrir fasteignina ásamt því að hún hafi við samningsgerðina ekki verið upplýst um niðurstöðu ráðgjafanefndar um færslu húsa á Seyðisfirði hvað húseign hennar snertir.

  

II

1

Í tilefni af því sem að framan greinir er rétt að taka fram að um þá ákvörðun sveitarfélagsins að kaupa fasteign á grundvelli laga nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, gilda reglur stjórnsýsluréttar. Hins vegar gilda almennar reglur um fasteignakaup, eftir því sem við getur átt, um þann kaupsamning sem gerður er á grundvelli laganna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 407/1999.

Í lögum nr. 49/1997 er kveðið á um að sveitarstjórn geti gert tillögu til ofanflóðanefndar um kaup eða flutning á húseignum í stað þess að reisa varnarvirki eða beita öðrum varnaraðgerðum ef slíkt er talið hagkvæmara til að tryggja öryggi fólks gagnvart ofanflóðum, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Samkvæmt 2. og 4. mgr. sömu greinar skal sveitarstjórn sjá um að kaupa eignir eða flytja þær en náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi. Í 1. mgr. 14. gr. laganna er kveðið á um að ef ofanflóðasjóður tekur þátt í hluta af kostnaði við kaup á eignum skuli greiðsla miðast að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða.

Samkvæmt gögnum málsins gerði sveitarstjórn tilboð um kaup á fasteign A á grundvelli matsgerðar og var kaupsamningur undirritaður 8. júní sl. að loknum samskiptum hennar við sveitarstjóra þar sem fallist var á að greiða hærra verð en téð matsgerð kvað á um. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við matið, m.a. að það sé ekki í samræmi við lögin að miða aðeins við sambærilegar eignir á Seyðisfirði enda sé sveitarfélagið Múlaþing talsvert stærra en sá eini bær. Aðrar athugasemdir í kvörtuninni byggja á því að sveitarstjórnin hafi leynt upplýsingum sem hefðu haft áhrif á samningsgerðina og þar af leiðandi hafi samningurinn verið gerður á röngum forsendum.

Umrædd atriði lúta annars vegar að gildi þess kaupsamnings sem undirritaður var síðastliðið sumar og hins vegar ágreiningi um fjárhæð kaupsamningsgreiðslna, þ.á m. hvaða húseignir teljist „sambærilegar“ í skilningi fyrrnefnds lagaákvæðis. Í tilefni af framangreindu er því rétt að taka fram að í ákvæði c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu þar um. Þetta lagaákvæði er m.a. reist á því sjónarmiði að dómstólar kunni í ákveðnum tilvikum að vera betur í stakk búnir en umboðsmaður til að skera úr réttarágreiningi. Hefur ákvæðið verið skýrt á þann hátt að ágreiningur um gildi samnings, þar sem m.a. reynir á almennar reglur samningaréttarins um ógildingu löggerninga, og fjárhæð greiðslna falli þar undir enda er þá yfirleitt nauðsyn á frekari sönnunarfærslu.

Tel ég því ekki, með vísan til framangreinds, tilefni til að fjalla frekar um kvörtun yðar hvað snertir samskipti A við sveitarfélagið Múlaþing í tengslum við samningsgerðina eða þau atriði í kvörtun yðar er snúa að mati á ákvörðun um fjárhæð greiðslna vegna fasteignar hennar, heldur verður það að vera verkefni dómstóla, kjósi A að bera málið undir þá. Áréttað er að með þessari ábendingu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort efni séu til að leggja málið í þann farveg.

  

2

Í kvörtuninni eru einnig gerðar athugasemdir við að lög nr. 49/1997 feli í sér ólögmæta mismunum með því að miða við staðgreiðsluverðmæti eignar í ljósi þess að eigendur þeirra eigna sem eyðilögðust í sömu skriðu fái bætur samkvæmt brunabótamati, sbr. lög nr. 55/1992, um Náttúrhamfaratryggingu Íslands. Óskað er eftir afstöðu umboðsmanns til þess hvort þörf sé á að breyta lögum nr. 49/1997 til að gæta samræmis.

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kemur m.a. fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvalds­fyrirmælum í störfum sínum.

Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 27. febrúar 2003 í máli nr. 381/2002 og að öðru leyti að virtum ákvæðum laga nr. 49/1997 tel ég ekki nægt tilefni til að fjalla frekar um athugasemdir yðar um að lögin feli í sér ólögmæta mismununin á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997. Með tilliti til þess hvernig málum er háttað að öðru leyti tel ég heldur ekki tilefni til að fjalla frekar um aðrar athugasemdir sem fram koma í kvörtuninni.

  

III

Með vísa til alls þess sem að framan greinir og 1. mgr. og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.