Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Málefni fatlaðs fólks. Húsnæðismál.

(Mál nr. 11328/2021)

Kvartað var yfir þjónustu Reykjavíkurborgar, þ. á m. að syni viðkomandi hefði ekki verið úthlutað búsetuúrræði þrátt fyrir að hann hefði verið á biðlista frá árinu 2016. Lutu athugasemdirnar einnig að því hvaða áhrif ófullnægjandi þjónusta hefði haft á heilsu viðkomandi. 

Af þeim gögnum sem lágu fyrir  varð ráðið að þjónusta Reykjavíkurborgar við soninn hefði á undanförnum árum verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum sem hefðu eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga á þessu sviði. Hefðu þau stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að þjónusta Reykjavíkurborgar við soninn hefði ekki verið í samræmi við lög. Í ljósi þess, öðrum viðbrögðum stjórnvalda og úrræðum sem þau hefðu og með hliðsjón af hlutverki umboðsmanns taldi hann ekki forsendur til að halda athugun sinni á málinu áfram að svo stöddu. Eins og málið lægi fyrir á þessu stigi yrði að reyna á hvernig Reykjavíkurborg brygðist við bréfi Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Að síðustu minnti umboðsmaður á að á nýju ári væri hægt að freista þess að leita til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem tæki til starfa um áramót. Hún hefði, ólíkt þeirri fyrrnefndu, úrræði til að beita þá viðurlögum sem eftirlit hennar beindist að og ákvarðanir hennar kæranlegar.  

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

   

I

Vísað er til erindis yðar 27. september sl. og síðari samskipta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum beinast athugasemdir yðar að þjónustu Reykjavíkurborgar við son yðar, þ.á m. að hann hafi ekki enn fengið úthlutað búsetuúrræði þótt hann hafi verið á biðlista eftir húsnæði í þjónustuflokki II frá árinu 2016. Í þessu samhengi lúta athugasemdir yðar einnig að því hvaða áhrif það hafi haft á heilsu yðar að þjónusta Reykjavíkurborgar hafi að þessu leyti verið ófullnægjandi.

Upphaflega lutu athugasemdir yðar enn fremur að því að sveitarfélagið hefði ekki getað orðið við beiðni yðar um afhendingu gagna í tengslum við fund yðar og starfsmanns þess um búsetuúrræði fyrir fötluð ungmenni sökum þess að upplýsingar um fundinn hefðu ekki verið skráðar og varðveittar. Athugun umboðsmanns Alþingis á þessum þætti málsins lauk 18. október sl. af ástæðum sem tilgreindar voru í bréfi mínu sama dag.

Í framhaldi hefur athugun umboðsmanns verið afmörkuð við þjónustu Reykjavíkurborgar við son yðar. Í samræmi við það voru velferðarsviði sveitarfélagsins og úrskurðarnefnd velferðarmála rituð bréf 18. október sl. sem þér fenguð send afrit af með bréfi sama dag. Umbeðnar upplýsingar bárust frá báðum stjórnvöldum með bréfum 1. nóvember sl.

Erindi yðar frá 24. nóvember sl., sem lýtur að því að yður var synjað um styrk, hefur fengið málsnúmerið 11412/2021 í málskrá umboðsmanns Alþingis. Í þessu bréfi er því hvorki fjallað um það erindi eða þau gögn sem þér hafið síðar sent embættinu og tengjast því.

  

II

1

Í áðurnefndu bréfi Reykjavíkurborgar kom fram að sótt hefði verið um húsnæði fyrir fatlað fólk vegna sonar yðar með umsókn 28. september 2016. Hann væri á biðlista eftir húsnæði í þjónustuflokki II fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir. Langir biðlistar hefðu myndast eftir húsnæði fyrir fatlað fólk hjá sveitarfélaginu og því hefði ekki verið unnt að útvega öllum umsækjendum húsnæði. Þann 24. ágúst 2017 hefði borgarráð samþykkt uppbyggingaráætlun fyrir sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlaða einstaklinga til ársins 2030. Áætluninni væri ætlað að koma til móts við þá sem nú væru á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk og kæmu til með að þurfa á slíku húsnæði að halda. Áætlunin væri áfangaskipt og sett fram í þremur áföngum frá árinu 2018 til 2030. Við gerð hennar hefði verið byggt á biðlistum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar ásamt áætluðu nýgengi og brottfalli. Með henni væri markvisst stefnt að því að fjölga húsnæði fyrir fatlað fólk.

Í bréfi sveitarfélagsins sagði einnig að í samræmi við áætlunina væri gert ráð fyrir að húsnæði fyrir fatlað fólk fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir í þjónustuflokki II fjölgaði um þrjá íbúðakjarna á árinu 2022 og um einn á árinu 2023. Með áætluninni væri því gert ráð fyrir að fram til ársins 2023 yrði fjölgun um 25 íbúðir fyrir einstaklinga sem væru á bið eftir húsnæði fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir í téðum flokki.

Þá sagði að velferðarsvið sveitarfélagsins gæti ekki, að svo stöddu, sagt nákvæmlega til um hvenær umsækjandi fengi úthlutað húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem það ylti á því hvenær íbúðir í hans þjónustuflokki stæðu til boða eða hvenær byggingu nýs íbúðarkjarna yrði lokið. Að lokum upplýsti sveitarfélagið um að hann fengi stuðning á biðtíma eftir húsnæði fyrir fatlað fólk sem væru 30 klukkustundir í stuðningsþjónustu og 14 sólarhringir á mánuði í skammtímadvöl.

  

2

Af þeim gögnum sem liggja fyrir verður ráðið að þjónusta Reykjavíkurborgar við son yðar hafi á undanförnum árum verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum sem hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu málefnasviði.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 15. október 2020 í máli nr. 274/2020 fjallaði nefndin um kæru frá 3. júní þess árs á þeim drætti sem hefði orðið á að sveitarfélagið úthlutaði syni yðar húsnæði. Í úrskurðinum sagði m.a.:

„Úrskurðarnefnd getur fallist á að skortur á viðeigandi húsnæði fyrir kæranda valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans og skyldur. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og að gerðar séu ráðstafanir til að hann fái viðeigandi búsetuúrræði eins fljótt og unnt er, sbr. nú lög nr. 38/2018 og reglugerð nr. 1035/2018.“

Þá var það niðurstaða nefndarinnar samkvæmt úrskurðarorði að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli sonar yðar hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið væri.

Í framhaldi kvörtuðuð þér til samgöngu- og sveitar­stjórnarráðuneytisins yfir því að Reykjavíkurborg hefði ekki framfylgt fyrrnefndum úrskurði. Af því tilefni ritaði starfsmaður ráðuneytisins tölvubréf 17. ágúst sl. til Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, sem er sérstök ráðuneytisstofnun á vegum félagsmálaráðuneytisins, þar sem kom fram að þér hefðuð verið upplýstar af sveitarfélaginu að frekari tafir yrðu á úthlutun húsnæðis til sonar yðar. Var þess óskað að kvörtun yðar yrði sett í viðeigandi farveg innan félagsmálaráðuneytisins, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið yrði upplýst um hvort félagsmálaráðuneytið teldi tilefni til að litið yrði til úrræða samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 við úrlausn málsins.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar óskaði í kjölfarið eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg í síðastliðnum októbermánuði. Yður var tilkynnt um niðurstöðu stofnunarinnar með tölvupósti 29. nóvember sl. Samkvæmt því sem þar greinir fylgdi tölvupóstinum viðhengt bréf stofnunarinnar, en það er ekki meðal þeirra gagna sem umboðsmanni Alþingis hafa borist. Í tölvupóstinum var efni bréfsins þó rakið. Í því kæmi fram að stofnunin tæki undir niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt fyrrgreindum úrskurði nefndarinnar. Þá skyldi sveitarfélagið tryggja reglubundið samráð við umsækjanda á biðtíma, upplýsa um stöðu á biðlista, áætlaða lengd biðtíma og þau úrræði sem stæðu honum til boða á biðtímanum. Auk þess væri Reykjavíkurborg hvött til þess að endurmeta stuðningsþarfir sonar yðar og taka sérstakt tillit til ákvæða í lögum nr. 38/2018 þar sem segði að stuðningsþarfir væru einstaklingsbundnar en gætu einnig tekið mið af þörfum fjölskyldu viðkomandi.

Mér er ekki kunnugt um hvort og þá hvernig Reykjavíkurborg hefur brugðist við bréfi stofnunarinnar.

  

3

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að hlutverk hans sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur.

Meðal skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar er að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds þarf það að hafa fellt úrskurð sinn í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. sömu laga. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra, eins og umboðsmanns Alþingis. Þá er í 10. gr. laganna fjallað um lyktir þeirra mála sem umboðsmanni berast. Þar kemur fram að hann geti látið í ljósi álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða umræddum siðareglum, sbr. b-lið 2. mgr. sömu greinar. Í c-lið hennar kemur fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt sé að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að hafi æðri stjórnvöld fjallað um sama málefni og kvörtun til umboðsmanns snertir og komist að niðurstöðu um að lægra sett stjórnvald hafi brotið í bága við lög eða að öðru leyti brugðist við athugasemdum málsaðila er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann Alþingis að taka stjórnsýslu þess til sérstakrar athugunar. Í því efni hefur þýðingu að umboðsmaður hefur ekki réttarskipandi vald, heldur getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög, líkt og áður greinir.

  

4

Svo sem atvik þessa máls bera með sér hafa stjórnvöld, sem hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga og málefnum fatlaðra, komist að niðurstöðu um að þjónusta Reykjavíkurborgar við son yðar hafi ekki verið í samræmi við lög, sbr. áðurnefndan úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá hafa bæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og síðar Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar talið ástæðu til að bregðast við athugasemdum yðar, síðast 29. nóvember sl. Umrætt ráðuneyti hefur ákveðin úrræði til að bregðast við ef það telur stjórnsýslu sveitarfélags ófullnægjandi, eftir atvikum að fenginni ábendingu um það frá fagráðuneyti, svo sem félagsmálaráðuneytinu, sbr. XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Einnig er athygli yðar vakin á því að 1. janúar nk. taka gildi lög nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Með ákvæðum þeirra laga er sett á fót ný ríkisstofnun sem tekur við verkefnum Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Í 17. gr. laganna er fjallað um heimild notenda þjónustu, sem lýtur eftirliti stofnunarinnar, til að kvarta yfir gæðum þjónustunnar til hennar. Ólíkt því sem á við um Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar mun hin nýja ríkisstofnun hafa úrræði til að beita þá viðurlögum sem eftirlit hennar beinist að. Þá verða stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar kæranlegar, sbr. 21. gr. laganna.

Í ljósi þess hvernig stjórnvöld hafa samkvæmt framangreindu brugðist við athugasemdum yðar við þjónustu Reykjavíkurborgar við son yðar og hlutverks umboðsmanns Alþingis tel ég ekki forsendur til að halda áfram athugun minni á máli yðar að svo stöddu. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi verður því að reyna á hvernig Reykjavíkurborg mun bregðast við bréfi Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar frá 29. nóvember sl. og hvernig sveitarfélaginu takist til með að fylgja þeirri áætlun um uppbyggingu sértæks húsnæðisúrræðis fyrir fatlað fólk sem það lýsti í áðurnefndu bréfi til umboðsmanns 1. sama mánaðar.

Að síðustu minni ég á að á nýju ári getið þér freistað þess að leita til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á grundvelli laga nr. 88/2021 með kvörtun yfir þjónustu Reykjavíkurborgar við son yðar ef þér teljið þá ástæðu til þess. Einnig vek ég athygli á að annmarkar á málsmeðferð stjórnvalda geta haft í för með sér skaðabótaskyldu þeirra. Í samræmi við fyrrnefnt ákvæði c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 fellur það hins vegar almennt ekki að hlutverki umboðsmanns að taka afstöðu til bótaskyldu hins opinbera, heldur verður það að vera hlutverk dómstóla að leysa úr ágreiningi um hana. Með þessum ábendingum hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að leita til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála eða dómstóla.

  

III

Með vísan til alls framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.