Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11330/2021)

Kvartað var yfir að sveitarfélag hefði ekki veitt upplýsingar um menntun manns sem ráðinn hefði verið í tiltekið starf.

Ekki lá fyrir að leitað hefði verið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og kæruleið þannig tæmd. Þar með voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 1. október sl. Í henni er þess sérstaklega getið að kvörtunin snúi að ráðningu starfsmanns íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ. Af kvörtuninni og gögnum sem hafa síðar borist verður ráðið að hún lúti að því að sveitarfélagið hafi ekki orðið við beiðni um að veita yður upplýsingar um menntun þess sem var ráðinn í starf forstöðumanns íþróttamannvirkja, sbr. t.d. tölvupósta þess 13. júlí og 12. ágúst sl. Sveitarfélagið hefur þó upplýst yður um að starfið krefjist ekki háskólamenntunar eða sérþekkingar, sbr. tölvupóst 16. ágúst sl.

Um rétt almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá stjórnvöldum er fjallað í 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Mál skal borið skriflega undir nefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna.

Af 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, leiðar að úrskurðarnefndinni ber að vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema þær undantekningar sem þar koma fram eiga við. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. sömu greinar getur verið að kæra verði tekin til meðferðar þótt hún hafi borist að liðnum kærufresti ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál liggi fyrir um synjun sveitarfélagsins á að veita yður umbeðnar upplýsingar. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar. Þar sem ekki verður annað ráðið en að fyrrnefndur kærufrestur til nefndarinnar sé liðinn er vakin athygli á að þér getið freistað þess að bera synjun sveitarfélagsins undir hana og kann þá að verða metið hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, svo sem hvaða áhrif það hafi ef sveitarfélagið leiðbeindi yður ekki um kæruheimild til nefndarinnar. Ef þér ákveðið að leita til úrskurðarnefndarinnar er yður fært að leita til mín á ný að fengnum úrskurði hennar ef þér teljið þá ástæðu til þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Að lokum skal þess getið að 2. og 3. nóvember sl. bárust skrifstofu minni tölvupóstar frá yður. Sumir tölvupóstar snertu hvorki framangreint kvörtunarefni né efni kvörtunar yðar sem ég fjallaði um í bréfi 23. nóvember sl. í máli nr. 11376/2021. Hafi ætlun yðar verið að kvarta til umboðsmanns yfir öðrum athöfnum stjórnvalda en hefur verið fjallað um í þessu bréfi eða bréfinu 23. nóvember sl. er þess óskað að það verði sérstaklega tilgreint, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Nánari leiðbeiningar um kvartanir til umboðsmanns Alþingis eru á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.