Persónuréttindi. Nauðungarvistun. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. OPCAT-eftirlit.

(Mál nr. 11335/2021)

Kvartað var yfir nauðungarvistun á bráðageðdeild og meðferð og aðbúnaði þar.

Héraðsdómur hafði staðfest nauðungarvistunina og vakti umboðsmaður því athygli á að starfssvið sitt tæki ekki til dómstóla. Hvað meðferð og aðbúnað snerti taldi hann ekki nægar forsendur til að halda málinu áfram. Athugasemdirnar yrðu þó hafðar til hliðsjónar við eftirlit með aðstæðum frelsissviptra. Þá minnti umboðsmaður á að við nauðungarvistun kunni viðkomandi að eiga rétt til bóta úr ríkissjóði en dómstólar leysi úr slíkum réttarágreiningi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. október sl. yfir ákvörðun um að nauðungarvista yður á bráðageðdeild 32c á Landspítala fyrr á þessu ári og meðferð og aðbúnaði þar. Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust upplýsingar frá spítalanum 24. nóvember sl.

Um nauðungarvistun er fjallað í III. kafla lögræðislaga nr. 71/1997. Þar kemur fram að læknir geti ákveðið nauðungarvistun manns á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laganna og frelsisskerðing samkvæmt þeirri málsgrein megi ekki standa lengur en 72 klukkustundir nema til komi samþykki sýslumanns, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í þeirri málsgrein segir að með samþykki sýslumanns megi vista sjálfráða mann gegn vilja sínum í sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkis sýslumanns að tilgreindum skilyrðum uppfylltum.

Um ákvörðun sýslumanns er fjallað nánar í 24. gr. laga nr. 71/1997 og kveðið er á um heimild til að bera hana undir dómstóla í 30. gr. sömu laga. Í 32. gr. laganna er svo mælt fyrir um að dæma skuli bætur úr ríkissjóði vegna nauðungarvistunar sjálfráða manns ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkrar aðgerðar, hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða að henni staðið á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Samkvæmt því sem liggur fyrir ákvað læknir að nauðungarvista yður klukkan 17.30 13. september sl. Síðar sama dag var yður afhent blað með upplýsingum um ástæður nauðungarvistunar og rétt nauðungarvistaðs einstaklings samkvæmt lögræðislögum, þ.á m. til að njóta ráðgjafar og bera ákvörðun um nauðungarvistun og meðferð undir dómstóla. Sýslumaður samþykkti nauðungarvistun og héraðsdómur staðfesti þá ákvörðun 16. og 22. sama mánaðar.

Í ljósi þeirrar málsmeðferðar, sem kveðið er á um í lögræðislögum, er vakin athygli á að starfssvið umboðsmanns tekur hvorki til starfa dómstóla né ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla, sbr. b- og c-liði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar sem fyrir liggur úrskurður héraðsdóms um að skilyrði hafi verið uppfyllt til að nauðungarvista yður eru samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 85/1997 ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að því marki sem hún byggist á því að svo hafi ekki verið.

Eftir að hafa kynnt mér athugasemdir yðar við meðferð og aðbúnað yðar á Landspítala sem og skráðar upplýsingar um dvöl yðar þar tel ég ekki nægar forsendur til að halda áfram meðferð málsins að þessu leyti. Í tilefni af athugasemdum yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, þ.á m. þeirra sem hafa verið nauðungarvistaðir, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmda þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ég hafi ekki forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Þá minni ég á að samkvæmt ákvæðum 32. gr. lögræðislaga er gert ráð fyrir að nauðungarvistaður kunni að eiga rétt til bóta úr ríkissjóði. Til þess að taka afstöðu til bótaskyldu á þessum grundvelli er ljóst að frekari sönnunarfærslu er þörf, svo sem um heilsu og aðbúnað yðar sem og fjárhæð bóta. Það fellur hins vegar að jafnaði ekki að hlutverki umboðsmanns að fjalla um bótaskyldu hins opinbera eða mál þar sem sönnunarfærslu, t.d. aðila- og vitnaskýrslna og matsgerða, er þörf, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þar segir að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Í samræmi við þetta ákvæði tel ég að það verði að vera verkefni dómstóla að fjalla um rétt yðar til bóta ef þér teljið efni til að bera slíka kröfu undir þá, en með þessari ábendingu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort ástæða sé til þess.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.