Börn.

(Mál nr. 11398/2021)

Í kvörtun var gerð grein fyrir að barn hefði verið aðskilið frá samnemendum sínum og lokað inni í tómu rými í skóla sem það sótti á árunum 2017 – 2019.

Þar sem umrædd atvik áttu sér stað utan þess ársfrests sem áskilinn er til að kvörtun verði tekin fyrir voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Erindinu var aftur á móti tekið sem ábendingu um starfshætti í stjórnsýslunni og haft til hliðsjónar við athugun á aðbúnaði í grunnskólum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar frá 16. nóvember sl. þar sem þér gerið m.a. grein fyrir því að sonur yðar hafi ítrekað verið aðskilinn frá samnemendum sínum og lokaður inni í tómu rými í þeim skóla sem hann sótti á árunum 2017 til 2019.

Um hlutverk umboðsmanns Alþingis og skilyrði fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar er fjallað í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Af kvörtun yðar verður ráðið að þau atvik sem snerti son yðar séu utan þessa frests. Eru því ekki uppfyllt skilyrði að lögum til þess að erindi yðar verði tekið til frekari meðferðar sem kvörtun.

Aftur á móti er litið svo á að í erindi yðar felist einnig ábending til umboðsmanns um starfshætti í stjórnsýslunni, sem beinist að aðstæðum sonar yðar og samstarfsfélaga yðar, og þér teljið ástæðu til að verði skoðaðir nánar og þakka ég þér fyrir hana. Í þessu samhengi vek ég athygli á að samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Hann getur jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórn­valds til almennrar athugunar.

Þau atvik sem þér hafið greint frá hafa verið höfð til hliðsjónar við almenna athugun mína á máli sem er nr. F94/2020 í málaskrá umboðsmanns og snertir aðbúnað barna í grunnskólum. Nýverið sendi ég mennta- og barnamálaráðherra bréf þar sem ég kom tilteknum ábendingum á framfæri við hann og fór þess jafnframt á leit við ráðuneyti hans að það veitti mér upplýsingar um hvort það hygðist bregðast við þeim og þá með hvaða hætti. Þetta bréf, sem er frá 8. þessa mánaðar, er aðgengilegt á vefsíðu minni, www.umbodsmadur.is, í frétt með fyrirsögninni Einveruherbergi – óskað eftir viðbrögðum ráðherra í kjölfar heimsókna í grunnskóla.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.