Almannatryggingar.

(Mál nr. 11401/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn um heimilisuppbót.  

Þar sem erindið var enn til meðferðar hjá Tryggingastofnun voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til erindis yðar 17. nóvember sl., þar sem þér kvartið yfir afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn yðar um heimilisuppbót. 

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að hann hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um það, eftir atvikum með úrskurði æðra stjórnvalds. Ákvarðanir Tryggingastofnunar eru að jafnaði kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með kvörtun yðar fylgdi afrit af tölvubréfi til yðar frá Tryggingastofnun og gefur efni bréfsins og kvörtunarinnar til kynna að umsókn yðar um heimilisuppbót sé enn til meðferðar hjá stofnuninni. Þar sem gert er ráð fyrir að umboðsmaður fjalli að jafnaði ekki um mál sem enn eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eru ekki skil­yrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni endanlegri niðurstöðu stofnunarinnar, og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála, getið þér hins vegar leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.