Almannatryggingar.

(Mál nr. 11414/2021)

Kvartað var yfir Sjúkratryggingum Íslands og margvíslegar athugasemdir gerðar við stjórnsýslu stofnunarinnar í tilefni af dómi Hæstaréttar og í tengslum við meðferð málsins.

Af erindinu mátti ráða að það væri fyrst og fremst ábending um starfshætti stjórnsýslunnar sem viðkomandi taldi að taka þyrfti til almennrar athugunar og var afgreitt sem slíkt.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar 24. nóvember sl. sem þér beinið að Sjúkratryggingum Íslands. Í erindinu eru gerðar margvíslegar athugasemdir við stjórnsýslu stofnunarinnar í tilefni af dómi Hæstaréttar 3. júní sl. í máli nr. 5/2021 og í tengslum við meðferð þess máls. Þótt erindið sé sett fram í formi kvörtunar og snerti að hluta samskipti yðar við stofnunina verður ráðið að því sé fyrst og fremst beint til embættis umboðsmanns sem ábendingu um starfshætti í stjórnsýslunni sem þér teljið ástæðu til að teknir séu til almennrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sbr. niðurlag í rökstuðningi kvörtunarinnar. Af þeim sökum fjalla ég ekki frekar um erindi yðar sem kvörtun, heldur ábendingu um frumkvæðismál.

     Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu er verklag þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á umræddum atriðum almennt ekki tilkynnt um það sérstaklega heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

     Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með athugun minni á erindi yðar frá 24. nóvember sl. sem kvörtun, en árétta að í framhaldinu verður metið hvort tilefni sé til að hefja athugun á grundvelli 5. gr. sömu laga.