Atvinnuleysistryggingar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11419/2021)

Kvartað var yfir mismunun vegna námsvals meðan á atvinnuleysi stendur.

Þar sem athugasemdirnar lutu að ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina þar sem starfssvið hans tekur ekki til starfa Alþingis.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. nóvember sl. yfir mismunun vegna  námsvals meðan á atvinnuleysi stendur. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að leyfilegt sé að stunda nám við háskólabrú og ýmislegt sem leiði til starfsréttinda en ekki megi taka nema 12 einingar til stúdentsprófs. Flest námskeið séu fimm einingar en bótaréttur sé skertur um 50% taki bótaþegi 15 einingar í fjarnámi sem sé hægt að stunda að öllu leyti utan venjulegs vinnutíma.

Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, kemur fram að hver sá sem stundar nám teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2.-4. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir m.a. að þrátt fyrir 1. mgr. sé hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum á námsönn. Í 3. mgr. sömu greinar kemur m.a. fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna. Þá er í 4. mgr. 52. gr. laganna kveðið á um að hinum tryggða sé heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Einnig er í gildi vinnumarkaðsúrræðið Nám er tækifæri, sbr. ákvæði XVII. til bráðabirgða við lögin. 

Í ljósi framangreinds verður kvörtun yðar skilin þannig að athugasemdir yðar snerti ákvæði laga nr. 54/2006. Af því tilefni er vakin athygli á að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, sbr. þó 11. gr. laga nr. 85/1997. Samkvæmt því ákvæði er umboðsmanni veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður í störfum sínum var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið fellur kvörtun yðar því utan starfssviðs umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Þess skal þó einnig getið að af kvörtun yðar verður ekki ráðið hvort fyrir liggi ákvörðun Vinnumálastofnunar í tilefni af kvörtunarefni yðar. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 er heimilt að skjóta ákvörðunum stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála sem kveður upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Ef þér ákveðið að freista þess að fá úrlausn stjórnvalda um ágreiningsefnið getið þér, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, leitað til mín að nýju ef þér teljið þá ástæðu til þess, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni um mál yðar.