Fullnustugerðir og skuldaskil. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11430/2021)

Kvartað var yfir nauðungarsölu á fasteign sem seld var árið 2018 og viðkomandi átti ekki.

Engar forsendur voru til að taka kvörtunina til meðferðar. Frestur til að bera hana upp var liðinn, viðkomandi átti ekki aðild að stjórnsýslumálinu auk þess sem athugasemdirnar lutu að lagasetningu Alþingis og þar með utan starfssviðs umboðsmanns.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. desember sl. yfir nauðungarsölu sýslumannsins á Suðurlandi á árinu 2016 á fasteign sem var ekki í eigu yðar.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í samræmi við ákvæði c-liðar 4. mgr. sömu greinar nær starfssvið umboðs­manns aftur á móti ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum laga­fyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Það á við um ágreining sem rís við nauðungarsölu og um gildi hennar, sbr. 4. þátt laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Kvörtun yðar lýtur því að atriðum sem falla utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis.

Þar sem kvörtunin snertir nauðungarsölu á fasteign sem var ekki í eigu yðar og um það bil fimm ár eru liðin frá henni eru ekki heldur uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. eða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Af þessum ákvæðum leiðir að kvörtun verði að beinast að athöfn eða athafnaleysi sem snertir beinlínis hagsmuni þess sem stendur að henni og að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur.

Með vísan til framangreinds brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og lýk ég athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.