Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 11433/2021)

Kvartað var yfir að Bílastæðasjóður bryti jafnræðisreglu við álagningu gjalds vegna stöðubrota. Með kvörtuninni fylgdi mynd af bifreiðum sem viðkomandi taldi að lagt hefði verið á sambærilegan hátt og hans án þess að gjald hefði verið lagt á eigendur þeirra.

Umboðsmaður benti á að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins fæli ekki í sér að lögbrot eins yrði réttlætt með því að aðrir hefðu framið sambærilegt brot án þess að vera beittir viðurlögum vegna ónógs eða ófullnægjandi eftirlits af hálfu stjórnvalda. Af þeim sökum væri ekki nægt tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. desember sl. sem beinist að Bílastæðasjóði Reykjavíkur. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að brotið sé í bága við jafnræðisreglu við álagningu gjalds vegna stöðubrota. Kvörtuninni fylgdu afrit af ljósmyndum af bifreiðum sem þér teljið að lagt hafi verið á sambærilegan hátt og bifreið yðar án þess að gjald hafi verið lagt á eigendur þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna er óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þar sem gildissviði stjórnsýslulaga sleppir gildir jafnframt óskráð jafnræðisregla sem stjórnvöldum ber að gæta að í störfum sínum.

Það er grundvallarskilyrði fyrir því að ákvarðanir stjórnvalda verði taldar brjóta í bága við þær jafnræðisreglur sem þeim ber að fylgja að tilvik séu talin sambærileg í lagalegu tilliti. Sé svo er þó ekki um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur kunni að vera á úrlausn mála, ef sá mismunur byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Við mat á því hvort mál teljist sambærileg í lagalegu tilliti, og beri því að hljóta sambærilega úrlausn, njóta stjórnvöld ákveðins svigrúms með tilliti til þess hvaða málefnalegu sjónarmið eru lögð til grundvallar.

Líkt og að framan greinir verður ráðið af kvörtun yðar að þér teljið að Bílastæðasjóður Reykjavíkur hafi ekki gætt jafnræðis með því að leggja gjald vegna stöðubrota á yður en ekki eigendur annarra bifreiða sem þér teljið vera í sambærilegri stöðu. Af þessu tilefni tek ég fram að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins felur það ekki í sér að lögbrot eins verði réttlætt með því að aðrir hafi framið sambærilegt brot án þess að hafa verið beittir viðurlögum vegna ónógs eða ófullnægjandi eftirlits af hálfu stjórnvalda. Af þeim sökum tel ég ekki nægt tilefni til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.