Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11440/2021)

Kvartað var yfir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið greiddi ekki sérstaklega fyrir störf í verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa.

Þar sem erindið var enn til meðferðar hjá ráðuneytinu var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 14. desember sl. sem lýtur að þeirri afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að greiða yður ekki sérstaklega fyrir störf í verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, en þér voruð skipaðir í hana af ráðherra 16. nóvember sl.

Sama dag senduð þér ráðuneytinu tölvubréf þar sem rökstutt var að þessi skipan mála væri andstæð lögum. Í framhaldi hafið þér ítrekað erindi yðar, síðast 13. þessa mánaðar, en það hafði upplýst 25. nóvember sl. að því yrði svarað sama dag. Þótt þær áætlanir hafi ekki gengið eftir verður þó ráðið af viðbrögðunum að erindi yðar sé til meðferðar hjá ráðuneytinu og það hyggist svara því.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ákvæði laganna bera með sér að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður fjalli um mál ef afstaða stjórnvalda til þess liggur ekki fyrir, sbr. m.a. þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laganna. Ef óhæfilegur dráttur verður á að stjórnvald bregðist við erindi sem til þess er beint er þó eftir atvikum óskað upplýsinga frá því um hvað líði meðferð og afgreiðslu þess.

Í ljósi þess að erindi yðar er enn til meðferðar hjá ráðuneytinu og það var síðast ítrekað 13. desember sl. verður samkvæmt framangreindum sjónarmiðum ekki talið að nægt tilefni sé til að það verði tekið til frekari athugunar hjá umboðsmanni að svo stöddu. Lýk ég því hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þér getið leitað til mín að nýju að fenginni afstöðu ráðuneytisins til erindis yðar eða ef óhæfilegar tafir verða á meðferð þess og verður þá metið hvort skilyrði séu uppfyllt til að hún verði tekin til athugunar.