Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 11443/2021)

Kvartað var yfir að ekki hefði verið greidd desemberuppbót þótt viðkomandi hefði þegið atvinnuleysisbætur þar til í ágústmánuði ársins.  

Þar sem erindinu hafði ekki verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. þessa mánaðar yfir því að hafa ekki fengið greidda desemberuppbót þótt þér hafið þegið atvinnuleysisbætur þar til í ágústmánuði þessa árs.

Um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur hefur verið sett samnefnd reglugerð nr. 1407/2021 með stoð í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar gildir hún um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur í desember 2021. Í reglugerðinni er kveðið á um skilyrði fyrir því að eiga rétt á desemberuppbót, sbr. ákvæði fyrrnefndrar 3. mgr. 33. gr. laga nr. 54/2006. Í 11. gr. þeirra laga er mælt fyrir um að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Ástæða þess að þetta er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af kvörtun yðar verður hvorki ráðið að afstaða Vinnumálastofnunar né úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir til þeirrar afstöðu yðar að þér eigið rétt á desemberuppbót. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér ákveðið að bera ágreiningsefnið undir stjórnvöld getið þér leitað til mín á ný að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála ef þér teljið þá efni til þess.