Skaðabætur. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11452/2021)

Kvartað var yfir bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, Öryrkjabandalagi Íslands, tilgreindum saksóknurum og lögmannsstofu.

Ekki voru skilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar þar sem hún laut ýmist að athöfnum einkaaðila sem falla utan starfssviðs umboðsmanns eða atvikum sem áttu sér stað fyrir meira en ári síðan.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. desember sl. sem lýtur m.a. að bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, Öryrkjabandalagi Íslands, tilgreindum saksóknurum og lögmannsstofu.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Þá segir í 2. mgr. 6. gr. laganna að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur.

Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti ýmist að athöfnum einkaaðila, sem falla utan starfssviðs umboðsmanns, eða atvikum sem áttu sér stað fyrir meira en ári síðan.

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar. Lýk ég því athugun minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.