Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 10960/2021)

Kvartað var yfir að dómsmálaráðuneytið hefði ekki svarað erindi. 

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns greindi ráðuneytið frá því að erindi viðkomandi hefði borist og yrði svarað innan sama mánaðar. Í ljósi þess lauk umboðsmaður meðferð sinni á málinu.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 23. febrúar sl., þar sem þér kvartið yfir því að dómsmálaráðuneytið hafi ekki svarað erindi yðar, dags. 30. mars. 2020, sem snéri að ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að synja beiðni yðar um leiðréttingu á skráningu um skilorðsrof.

Í tilefni kvörtunar yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf, dags. 1. mars sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið upplýsti mig um hvort erindi yðar hefði borist og ef svo væri hvað liði þá meðferð og afgreiðslu þess. Nú hefur borist bréf frá ráðuneytinu þar sem kemur fram að erindi yðar hafi borist og að því muni vera svarað eigi síðar en 31. mars nk.

Í ljósi þess að kvörtun yðar laut að því að erindi yðar hefði ekki verið svarað, og þar sem til stendur hjá dómsmálaráðuneytinu að svara erindi yðar eigi síðar en 31. mars nk., tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að gangi fyrirætlanir dómsmálaráðuneytis ekki eftir getið þér leitað til mín á ný, að liðnum hæfilegum tíma, með sérstaka kvörtun þess efnis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson