Menntamál.

(Mál nr. 10986/2021)

Kvartað var yfir synjun Menntamálastofnunar á beiðni um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu í samræmi við ákvæði reglugerðar um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi. 

Ekki varð ráðið að viðkomandi hefði átt í frekari samskiptum við Menntamálastofnun eftir synjunina eða að leitað hefði verið endurskoðunar vegna ákvörðunarinnar s.s. með stjórnsýslukæru. Þar sem meira en ár var liðið frá því að stjórnsýslugerningurinn var til lykta leiddur brast skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til frekari meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 17. mars sl. og lýtur að þeirri ákvörðun Menntamálastofnunar að synja beiðni yðar um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 585/2011, um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi. Af kvörtuninni verður ráðið að þér hafið óskað eftir mati á menntun yðar og starfsreynslu í matreiðslu sem þér munuð hafa aflað yður erlendis frá.

Með kvörtuninni fylgdu afrit af bréfi Menntamálastofnunar til yðar frá 16. apríl 2019 þar sem yður var tilkynnt um að beiðni yðar hefði verið synjað. Þar kemur fram að í tilefni af beiðni yðar hafi stofnunin aflað umsagnar Iðunnar fræðsluseturs. Hafi sú umsögn verið á þá leið þér uppfylltuð ekki skilyrði reglugerðar nr. 585/2011.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið átt í frekari samskiptum við Menntamálastofnun vegna málsins eða að þér hafið leitað endurskoðunar vegna ákvörðunar stofnunarinnar, s.s. með stjórnsýslukæru til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um það skilyrði þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar að hún hafi verið borin fram innan árs frá því að stjórnsýslgerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

Eins og að ofan greinir var yður tilkynnt um synjun Menntamálastofnunar vegna beiðni yðar með bréfi 16. apríl 2019. Er því ljóst að málið fellur utan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég taki kvörtun yðar til frekari umfjöllunar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson