Lögheimili. Fasteignaskráning og fasteignamat. Endurskoðun upplýsinga í fasteignaskrá.

(Mál nr. 10643/2020)

Kvartað var yfir Þjóðskrá Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Reykjavíkurborg, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Í fyrsta lagi yfir breyttri skráningu á nafni og hnitasetningu fasteignar í Þjóðskrá Íslands. Í öðru lagi hafi sýslumaður ekki svarað fyrirspurn og í þriðja lagi að lögbýlisréttur jarðarinnar hefði verið felldur niður.  

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að beiðni um leiðréttingu á staðfangi umræddrar fasteignar heyrði undir Reykjavíkurborg. Því væri rétt að leita formlega til borgarinnar eftir leiðréttingu á því. Þá ákvörðun mætti svo kæra til ráðuneytisins ef til kæmi. Í kjölfar úrskurðar þess væri fært að leita aftur til umboðsmanns með þetta.  

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns til dómsmálaráðuneytis fengust þær upplýsingar  að erindið hefði verið afgreitt, sýslumaður svarað og hlutaðeigandi verið beðinn afsökunar á töfum. Umboðsmaður fékk ekki annað séð en bæði skýringar og leiðbeiningar hefðu verið veittar. Ekki væri því tilefni til að gera athugasemdir við svör sýslumannsins eða afgreiðslu fyrirspurnarinnar að öðru leyti.  

Að því marki sem kvörtunin laut að úrlausnum sýslumannsins um þinglýsingu skjala benti umboðsmaður á að starfssvið sitt tæki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum væri ætlast til að fólk leitaði leiðréttingar hjá dómstólum. Þannig væri í pottinn búið hvað þessa þinglýsingu snerti og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þennan þátt kvörtunarinnar.  

Að lokum hvað laut að niðurfellingu lögbýlisréttar jarðarinnar benti umboðsmaður á að viðkomandi teldi að það hefði verið gert á árunum 2002-2009. Það félli því utan þess ársfrests sem áskilinn væri að lögum frá því að stjórnsýslugerningur var til lykta leiddur þar til kvartað væri til umboðsmanns.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

 

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 28. júlí sl., sem þér beinið að Þjóðskrá Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Reykjavíkurborg, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dómsmála­ráðuneytinu og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar í fyrsta lagi að breyttri skráningu á nafni og hnitasetningu fasteignar yðar í Þjóðskrá Íslands, en með umræddri breytingu var nafni fasteignarinnar breytt úr [...] í [...]. Þá breytingu kærðuð þér til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem taldi kæru yðar ekki tæka til meðferðar þar sem ákvarðanir um heiti fasteigna heyrðu undir hlutaðeigandi sveitarfélag. Þjóðskrá Íslands væri einungis skráningaraðili og því væri leiðrétting á umræddri breytingu eingöngu á færi Reykjavíkurborgar.  

Í öðru lagi hafi sýslumaður ekki svarað fyrirspurn yðar um skýringar á árituninni „Misræmi [...]“ á blaðsíðu nánar tilgreindrar fasteignar í þinglýsingabók og athugasemdum yðar um meint mistök við þinglýsingu skjals nr. [...], sem varðar eignarheimild Reykjavíkurborgar að afmarkaðri lóð í nágrenni [...].

Í þriðja lagi fæ ég jafnframt ráðið að þér séuð ósáttir við að lögbýlisréttur jarðarinnar hafi verið felldur niður og að ekki sé fyrir að fara þinglýsingu um þá niðurfellingu og hver hafi staðið að baki henni. Í þeim gögnum sem fylgdu með kvörtun yðar er nokkuð á reiki hvenær sú niðurfelling á að hafa farið fram, en af þeim fæ ég þó ráðið að þér teljið það hafa verið gert á tímabilinu 2002-2009 af hálfu landbúnaðarráðherra.

  

II

1

Líkt og að ofan greinir gerið þér athugasemdir við breytingu á staðfangi fasteignar yðar og ákvörðun ráðuneytisins um að taka ekki kæru yðar til efnislegrar meðferðar á þeim grundvelli að heiti fasteigna heyri undir hlutaðeigandi sveitarfélag. Samkvæmt því sem fram kemur í umsögn Þjóðskrár Íslands vegna kæru yðar til ráðuneytisins má rekja breytingarnar til undirbúningsvinnu Þjóðskrár Íslands vegna gildistöku laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur. Er þar vísað til þess að í 3. mgr. 1. gr. laganna sé mælt fyrir um að lögheimili einstaklinga skuli vera í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða dreifbýli, sem sé skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang. Svo að unnt sé að skrá lögheimili í íbúð í skilningi ákvæðisins hafi verið nauðsynlegt að leysa úr misræmi milli heimilisfanga í þjóðskrá og skráningar fasteignar í fasteignaskrá. Það sé fasteignaskrá sem geymi hið rétta heiti fasteignar en ekki húsaskrá, enda eigi húsaskrá einungis að innihalda upplýsingar um fasteignir í fasteignaskrá sem heimilt sé að skrá lögheimili einstaklinga í samkvæmt lögum nr. 80/2018.

Í umsögninni er jafnframt rakið að Þjóðskrá Íslands hafi sent öllum sveitarfélögum landsins bréf þar sem upplýst hafi verið um hið fyrirhugaða verkefni ásamt lista yfir þær fasteignir sem taka þyrfti afstöðu til í hverju sveitarfélagi. Óskað hafi verið eftir því að sveitarfélagið tæki ákvörðun um rétta skráningu þeirra fasteigna sem voru á listanum og að lokum hafi allt misræmi verið lagað þannig að skráning heimilisfangs væri í samræmi við skráningu fasteignarinnar í fasteignaskrá. Í kjölfar þessa hafi bæði þinglýstum eigendum og íbúum viðkomandi fasteigna verið sent bréf til upplýsingar um breytingarnar en vegna kerfisvillu hafi yður ekki borist slíkt upplýsingabréf.

Í kvörtun yðar kemur fram að í kjölfar úrskurðarins hafi bróðir yðar verið í samskiptum við Reykjavíkurborg vegna umræddra breytinga. Með tölvupósti Reykjavíkurborgar, dags. 10. nóvember sl., hafi hann fengið þau skilaboð að ekki væri séð að breytingar hefðu átt sér stað af hálfu borgarinnar en hins vegar þyrfti að skoða það nánar þar sem það lyti að staðfangi fasteignarinnar og heiti þess.

  

2

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að taka fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Í samræmi við framangreint og með hliðsjón af því sem þér teljið misvísandi upplýsingar af hálfu annars vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og hins vegar Reykjavíkurborgar hefur athugun mín á þessum þætti kvörtunar yðar verið afmörkuð við tildrög umræddra breytinga og könnun á þeim leiðum sem yður eru færar til að fá þær leiðréttar.

Af því tilefni var Reykjavíkurborg ritað bréf, dags. 25. nóvember sl., þar sem óskað var eftir því að Reykjavíkurborg upplýsti mig um hvort breytingar á heiti og hnitasetningu fasteignarinnar hefðu verið gerðar af hálfu borgarinnar og þá hvenær það var gert, hver hefði verið ástæða þess, og hvort yður hefði verið tilkynnt um að þær hafi verið fyrirhugaðar. Þá var jafnframt óskað eftir upplýsingum um hvort yður væri kleift að leita til borgarinnar og fá breytingarnar leiðréttar.

Mér hefur nú borist svar Reykjavíkurborgar, dags. 25. janúar sl., þar sem fram kemur að ekki verði séð að beiðni um breytingu hafi verið gerð af hálfu Reykjavíkurborgar. Það megi sjá af skráningu undanfarinna áratuga að fasteignaskráning og kerfin sem hýsa þá skráningu, ásamt lögum og reglugerðum sem hafa krafist þeirra breytinga, hafi breyst og mögulega hafi umrædd breyting fallið inn í breytingar varðandi staðföng lóða og staðföng á lóð. [...] standi ekki á sér afmarkaðri lóð heldur sé mhl 47 á heildarlóðinni [...] og sé skráð þannig í dag.

Þá kemur jafnframt fram að þér getið annaðhvort fengið afmarkaða lóð umhverfis mannvirkið eða fengið skráð staðfang á mannvirkið innan lóðar þannig að sérheitið [...] verði heiti hússins. Leggja þurfi inn umsókn í báðum tilvikum. Þar sem ekki virðist vera til þinglýst eignarheimild fyrir lóðinni og þá afmörkun á sérstakri lóð umhverfis [...] þurfi að sækja um leyfi til að stofna nýja lóð hjá skipulagsfulltrúa áður en erindið er lagt fyrir byggingarfulltrúa. Ef um staðfang sé að ræða fari það beint fyrir fund byggingarfulltrúa.

  

3

Um staðföng fasteigna er fjallað í 12. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, eins og því ákvæði var breytt með 11. gr. laga nr. 22/2015, um örnefni. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. skal hver fasteign tengjast minnst einu staðfangi samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Þá ræðst heiti fasteignar af þeim staðföngum sem eigninni tengjast. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn, númer og hnit. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. skal ráðherra setja reglugerð um skráningu staðfanga að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í slíkri reglugerð skal m.a. kveðið á um verklagsreglur sveitarfélaga við skráningu þeirra.

Í athugasemdum við 11. gr. í frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 22/2015 kemur eftirfarandi fram:

„Þá er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um skráningu staðfanga. Í slíkri reglugerð er lagt til að kveðið verði m.a. á um skýrar verklagsreglur sveitarfélaga við skráningu þeirra. Samkvæmt þessu munu sveitarstjórnir koma beint að þessum málum og bera ábyrgð á nafngiftum og skráningu staðfanga í sínu umdæmi eins og hefur tíðkast um skráningu fasteignaheita fram til þessa. Staðföng eru samkvæmt núverandi framkvæmd skráð í miðlægan gagnagrunn á vegum Þjóðskrár Íslands.” (Þskj. 586 – 360. mál. 128. löggjafarþingi 2014-2015.)

Með stoð í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2001 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 577/2017, um skráningu staðfanga. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar annast sveitarfélög nafngiftir, hafa umsjón með og bera ábyrgð á skráningu staðfanga innan staðarmarka sveitarfélaga. Þá ber sveitarstjórn ábyrgð á því að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um staðföng í sveitarfélaginu, sbr. 3. mgr. 3. gr.

Um hlutverk Þjóðskrár Íslands er fjallað í 4. gr. en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. heldur Þjóðskrá Íslands staðfangaskrá og fer með viðhald gagnagrunns, gerð hugbúnaðar til skráningar, miðlun staðfanga til notenda og annað sem viðkemur uppbyggingu staðfangaskrár. Í 2. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um að Þjóðskrá Íslands geti, hvenær sem hún telji þörf á, látið endurskoða upplýsingar sem fyrir liggja um einstök staðföng. Slík endurskoðun skuli gerð ef sýnt er fram á að upplýsingar gefi ekki rétta lýsingu á því staðfangi sem um ræðir. Samkvæmt 8. gr. getur eigandi fasteignar, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta í skráningu staðfangs, krafist endurskoðunar sveitarfélags á fyrirliggjandi upplýsingum.

Samkvæmt framangreindu fellur það í hlut sveitarstjórnar að taka ákvarðanir um nafngiftir og skráningu staðfanga og þá ber eiganda fasteignar að beina kröfu um endurskoðun staðfangs að hlutaðeigandi sveitarfélagi. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að beiðni yðar um leiðréttingu á staðfangi fasteignar yðar heyri undir Reykjavíkurborg. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og að fengnum skýringum Reykjavíkurborgar tel ég því rétt að þér berið erindi yðar undir Reykjavíkurborg og leitið þar formlega eftir leiðréttingu á ofangreindri breytingu. Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar er svo kæranleg til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Kjósið þér að leita til framangreindra stjórnvalda og teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni úrlausn þeirra, er yður fært að leita til mín á nýjan leik í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þá bendi ég yður á fari svo að þér teljið um óhóflegan drátt á slíku erindi að ræða er yður jafnframt fært að leita til mín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

  

II

1

Við meðferð kvörtunar yðar komuð þér jafnframt að athugasemdum sem beinast að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dómsmálaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Af þeim athugasemdum fæ ég ráðið að þær lúti að því að sýslumaður hafi ekki svarað fyrirspurn yðar um skýringar á árituninni „Misræmi [...]“ á blaðsíðu nánar tilgreindrar fasteignar í þinglýsingabók og þeirri athugasemd yðar að þér teljið að mistök hafi verið gerð við þinglýsingu skjals nr. [...], sem varðar eignarheimild Reykjavíkurborgar að afmarkaðri lóð, og að yðar mati varðar hagsmuni eigenda jarðarinnar [...]. Í kjölfarið hafið þér beint erindi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 27. júní sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf, dags. 25. nóvember sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið upplýsti mig um hvort erindi yðar væri enn til meðferðar og ef svo væri hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Mér barst svar frá ráðuneytinu, dags. 10. desember sl., þar sem fram kemur að erindi yðar hafi verið afgreitt og sýslumaður veitt yður svör með tölvupósti, dags. 8. desember sl. Þá hafið þér verið beðinn afsökunar á þeim töfum sem urðu á afgreiðslu málsins.

Í kjölfar svara sýslumanns komuð þér á framfæri frekari athugasemdum með tölvupósti, dags. 8. desember sl. Af þeim fæ ég ráðið að þér séuð ósáttir við skýringar sýslumanns og að þér teljið þær ekki eiga við rök að styðjast. Í því sambandi tel ég vert að nefna að í stjórnsýslurétti gildir sú óskráða regla að skriflegum erindum til stjórnvalda ber að svara skriflega, nema svars sé ekki vænst eða ljóst sé að borgarinn sættir sig við munnleg svör.

Í reglunni felst þó ekki að sá sem ber upp erindi við stjórnvald eigi rétt á tiltekinni úrlausn mála sinna eða þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir. Það ræðst af eðli erindis, því málefnasviði sem það tilheyrir og málsatvikum að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum, skráðum og óskráðum, og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórnvöld veita vegna slíkra erinda borgaranna. Þá leiðir af 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðri leiðbeiningarreglu að stjórnvöldum er skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð  og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra.

Af svari sýslumanns fæ ég ekki annað séð en að yður hafi verið veittar skýringar á árituninni „Misræmi [...]“. Þá hafi yðar, vegna athugasemda yðar um meint mistök við þinglýsingu, verið leiðbeint um heimild 2. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en þar er mælt fyrir um að staðhæfi maður, að færsla í fasteignabók sé efnislega röng og horfi sér til réttarspjalla, sé honum þá kostur að fá þinglýstri kröfu sinni um leiðréttingu, ef hann færir veigamikil rök fyrir staðhæfingu sinni, að mati þinglýsingarstjóra, eða setur tryggingu eftir því, sem þinglýsingarstjóri kveður á um.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við svör sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu eða afgreiðslu fyrirspurnar yðar að öðru leyti.

  

2

Að því marki sem kvörtun yðar kann að lúta að úrlausnum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um þinglýsingu skjala tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla.

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að samkvæmt 1. gr. þinglýsingalaga eru sýslumenn þinglýsingarstjórar, hver í sínu umdæmi. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. laganna að bera megi úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.

Af ákvæði 3. gr. þinglýsingalaga verður ekki annað ráðið en að löggjafinn ætlist til þess að leitað sé úrskurðar dómstóla þegar ágreiningur er uppi um úrlausnir þinglýsingarstjóra. Með hliðsjón af þessu eru ekki skilyrði til að ég fjalli efnislega um úrlausnir sýslumanns að þessu leyti.

  

3

Að því er varðar þann þátt kvörtunar yðar sem lítur að niðurfellingu lögbýlisréttar jarðarinnar Hólms, sem þér teljið að hafi verið gert á árunum 2002-2009, bendi ég yður á að í 6. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að ákvörðun landbúnaðarráðherra á árunum 2002 til 2009. Ég tel því ljóst að kvörtunin barst ekki innan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þegar af þeirri ástæður brestur lagaskilyrði til að ég fjalli um þennan þátt kvörtunar yðar.

  

III

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar. Kvörtunin hefur þó orðið mér tilefni til að rita hjálagt bréf til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem ég kem á framfæri tiltekinni ábendingu vegna athugunar minnar á málinu.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson