Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 10732/2020)

Kvartað var yfir ráðningu Akraneskaupstaðar í starf og gerð var athugasemd við ráðningarferlið og mat á umsækjendum.  

Umboðsmaður taldi að þótt ekki hefði verið tiltekið fyrirfram í hæfniskröfum að umsækjendur hefðu reynslu af tilteknu starfi yrði ekki séð að áhersla á það sjónarmið teldist ómálefnalegt með hliðsjón af upplýsingum um starfið. Í ljósi atvika málsins taldi hann ekki bersýnilega óforsvaranlegt að Akraneskaupstaður hefði að lokum lagt áherslu á tiltekna fagreynslu með þeim hætti sem gert hefði verið. Ekki væru forsendur til að gera athugasemdir við endanlegt mat og ákvörðun um ráðninguna. Hið sama gilti um tafir á ráðningarferlinu og upplýsingar þar að lútandi. 

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

 

   

I

Ég vísa til erindis yðar, sem barst umboðsmanni Alþingis 28. september sl., þar sem þér kvartið yfir ákvörðun Akraneskaupstaðar frá 30. júlí sl. um ráðningu B í starf [...]. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við ráðningarferlið og mat á umsækjendum, sér í lagi að með vísan til starfsreynslu yðar og menntunar hafi verið gengið fram yður við ráðninguna og hæfasti umsækjandinn ekki ráðinn. 

Með bréfi til Akraneskaupstaðar, dags. 5. nóvember sl., sem þér fenguð afrit af var óskað eftir afriti af gögnum málsins ásamt nánari upplýsingum og skýringum á þar tilgreindum atriðum. Svör og gögn bárust með bréfi Akraneskaupstaðar, dags. 13. janúar sl. og var yður með bréfi dags. 28. janúar sl. veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svörin innan frests sem tiltekinn var til 18. febrúar sl. Athugasemdir yðar bárust 4. mars sl.

  

II

1

Kvörtun yðar lýtur einkum að efnislegu mati á því hver var talinn hæfastur til að gegna auglýstu starfi. Af því tilefni tek ég fram að við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í opinbert starf þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða slík sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að þau verði að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar ákvörðuninni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Ég legg á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvern á að ráða í opinbert starf. Þannig leiðir af eðli þess eftirlits sem umboðsmaður hefur með höndum að það er ekki verkefni mitt að endurmeta sjálfstætt hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur að leggja mat á hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög. Þar undir fellur t.d. athugun á því hvort stjórnvald hafi fylgt réttum málsmeðferðarreglum og byggt mat sitt á umsækjendum á fullnægjandi upplýsingum. Þá tekur athugunin jafnframt til atriða á borð við hvort stjórnvald hafi lagt málefnaleg og lögmæt sjónarmið til grundvallar ákvörðun og mati sínu og að ályktanir þess hafi ekki verið bersýnilega óforsvaranlegar miðað við fyrirliggjandi gögn málsins.

Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun um ráðningu í starf byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra hefur um árabil verið lagt til grundvallar í störfum umboðsmanns sem dómstóla að stjórnvald njóti þá töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfinu.

  

2

Samkvæmt gögnum málsins auglýsti Akraneskaupstaður eftir [...] í maí sl. þar sem tilgreindar voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur: Starfsleyfi sem [...], þekking og reynsla af starfi með fötluðu fólki, reynsla af teymisvinnu æskileg, samstarfs- og skipulagshæfileikar, jákvæðni, þolinmæði og hæfni í mannlegum samskiptum, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.

Umsækjendur voru í upphafi sex en eftir að Akranesbær upplýsti um breyttar forsendur drógu þrír þeirra umsóknir sínar til baka. Í rökstuðningi fyrir ákvörðun Akraneskaupstaðar í málinu kemur fram að tekin hafi verið viðtöl þá þrjá umsækjendur sem eftir stóðu og að þeim loknum hafi verið samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að tveir umsækjendur, B ásamt yður, uppfylltu best auglýstar hæfniskröfur. Gögn um heildarstig vegna svara í viðtölum eru í samræmi við þetta mat. Í skýringum Akraneskaupstaðar til umboðsmanns, sbr. bréf dags. 13. janúar sl., kemur fram að við samanburð yðar og B hafi ráðið úrslitum að hún „hafði meiri fagreynslu sem [...]“ og var í því sambandi tiltekið að stór hluti starfsins fælist í ráðgjöf innan grunnskólanna.

Þótt ekki hafi verið tiltekið fyrir fram, sbr. hæfniskröfur auglýsingar, að umsækjendur hefðu reynslu af störfum [...] í grunnskóla verður ekki séð að áhersla á það sjónarmið teljist ómálefnaleg með hliðsjón af þeim upplýsingum að ráðgjöf innan grunnskóla sé stór hluti starfsins enda samræmist hún og er að vissu leyti nánari útfærsla á kröfunni um þekkingu og reynslu af starfi með fötluðu fólki. Í þessu sambandi tek ég fram að þegar starfsreynsla er metin, verður stjórnvald að leggja mat á hvernig líklegt sé að fyrirliggjandi reynsla umsækjenda, þar á meðal sá tími og þau viðfangsefni sem umsækjandi hefur fengist við í fyrri störfum, muni nýtast í hinu nýja starfi. Þar kemur áðurnefnt svigrúm stjórnvalds til sögunnar og er því almennt ekki hægt að gera kröfu um að slíkt mat byggist alfarið á starfsheitum og lengd starfstíma.

Í því ljósi tel ég að ekki hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt af Akraneskaupstað að leggja að lokum áherslu á „fagreynslu“ innan grunnskóla með þeim hætti sem gert var. Niðurstaðan sem af þeirri áherslu leiddi samrýmist enn fremur stigagjöf þeirra sem mátu svör við spurningum í viðtali þar eð þeim bar saman um að hafa metið B með flest stig að meðaltali. Að öllu framangreindu virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við endanlegt mat og ákvörðun Akraneskaupstaðar.

  

3

Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við ráðningarferlið hafi dregist frá því sem upphaflega var ráðgert og skort á upplýsingum þar að lútandi. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber viðkomandi stjórnvaldi, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í kvörtuninni kemur fram að þegar þér spurðust fyrir um málið er nokkuð var liðið á júní hafið þér verið upplýstar um að töf yrði vegna sumarleyfa. Í skýringum Akranesbæjar, sbr. 3. tölul. í bréfinu frá 13. janúar sl., kemur fram að forsendur ráðningarinnar hafi breyst frá því sem ætlað var þegar auglýsingin birtist og segir að af þeim sökum hafi verið ákveðið að hringja í umsækjendur og upplýsa þá um stöðu mála. Þar kemur ekki fram hvort sumarleyfi hafi skipt einhverju máli í þessu samhengi.

Í ljósi framangreinds tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að málsmeðferð Akraneskaupstaður hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög og að þar með sé ekki ástæða til að ég taki þetta atriði til frekari skoðunar. 

      

III

Með vísan til þess sem að framan greinir og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.

Undirritaður hefur farið með þetta mál sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson