Foreldrar og börn. Forsjársvipting. Langtímafóstur. Málsmeðferð barnaverndarnefndar og barnaverndarráðs.

(Mál nr. 770/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. júlí 1993.

I.

A leitaði til mín og beindist kvörtun hans að meðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, barnaverndarráðs og fleiri aðila á máli stjúpsonar hans, B.

Ég ritaði barnaverndarráði bréf 22. febrúar 1993 og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu látin í té gögn málsins. Þau bárust með bréfi ráðsins 23. febrúar 1993. Þá ritaði ég barnaverndarráði aftur bréf 29. mars 1993 og óskaði þá sérstaklega eftir því að mér yrðu látnar í té fundargerðir funda barnaverndarráðs, þar sem fjallað hefði verið um mál B. Þá óskaði ég eftir því, að mér yrðu látnar í té nánari upplýsingar um það, hvað fram hefði komið á fundum ráðsins 7. og 22. október 1992, að svo miklu leyti sem það kæmi ekki fram í fundargerðunum.

II.

Í bréfi mínu til A, dags. 19. júlí 1993, greindi ég A frá því, að samkvæmt þeim gögnum, sem mér hefðu borist vegna þessa máls, hefðu samskipti barnaverndaryfirvalda og fjölskyldu A, vegna B, í aðalatriðum verið þessi:

"Mál B barst Félagsmálastofnun Reykjavíkur fyrst frá Þ-skóla í febrúar 1989, en drengurinn var þá í 6 ára bekk þar. Samvinna skólans, barnaverndarnefndar og foreldra til að finna lausn á vanda B bar ekki árangur.

Fyrir tilstuðlan barnaverndarnefndar og með samþykki yðar og móður drengsins var B komið fyrir á bænum Ö vorið 1989. Í skýrslu E sálfræðings, dags. 26. júlí 1989, var drengurinn talinn erfiður í fyrstu, en hann jafnframt talinn hafa tekið miklum framförum meðan á dvölinni á bænum Ö stóð. Það var niðurstaða sálfræðingsins að draga mætti í efa að heppilegt væri að B færi aftur á heimili yðar og móður sinnar.

Mál B var aftur tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 4. september 1989. Var starfsmönnum nefndarinnar falið að ræða við yður og móður drengsins um fóstur fyrir hann. Því var hafnað af ykkar hálfu.

Aftur var mál B tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 13. nóvember 1989. Þá var gerð svofelld bókun:

"Barnaverndarnefnd telur brýnt, að uppeldisaðstæður B breytist. Drengurinn virðist niðurlægður á heimili sínu og fær ekki að njóta sín.

B var vistaður í sveit í sumar og leið honum vel þar. Hins vegar sýna upplýsingar frá skólasálfræðingi, að drengurinn sé farinn að sýna taugaveiklunareinkenni í skóla og athvarfi.

Stjúpfaðir hefur ekki breytt hegðun sinni eða viðhorfi gagnvart drengnum og telur Barnaverndarnefnd hann ekki hæfan til að fara með umönnun drengsins a.m.k. við óbreyttar aðstæður.

Barnaverndarnefnd vísar til síðustu bókunar nefndarinnar, þann 4. september 1989, og felur starfsmanni að leita eftir þeim úrræðum, sem best gætu hentað drengnum með því markmiði, að hann njóti þeirrar hlýju, örvunar og viðurkenningar, sem barni á hans aldri er nauðsynleg."

Í desember 1989 fór B til til X-lands til afa síns og ömmu. Í janúar 1990 átti hann að snúa heim aftur til Íslands, en afi hans og amma neituðu að láta hann af hendi. Óskuðu móðir hans og þér eftir liðsinni Félagsmálastofnunar Reykjavíkur í því sambandi. Í janúar 1991 kom B aftur til Íslands og byrjaði í S-skóla. Stuttu áður höfðuð þér haft samband við barnaverndarnefnd og lýst áhyggjum yðar vegna væntanlegrar komu B til Íslands, þar sem hann hefði fengið illa meðferð í X-landi.

Hinn 8. febrúar 1991 var B komið í vist á vistheimili barna að Æ í samráði við móður hans. Var ákveðið að hann skyldi dvelja á Æ um einhvern tíma til frekari rannsóknar á líðan hans og aðstæðum. B dvaldist að Æ til 19. apríl 1991, er hann sneri aftur til heimilis yðar. Á meðan dvöl hans á Æ stóð fóru fram athuganir á honum. Var talið að hegðun hans hefði breyst til hins betra eftir því sem leið á dvölina, sbr. greinargerð vistheimilis frá 15. apríl 1991.

Þegar B sneri aftur heim 19. apríl 1991, var gert samkomulag við yður og móður drengsins um meðferð og stuðning við fjölskylduna. Áform þessi náðu ekki fram að ganga.

Í janúar 1992 höfðuð þér samband við starfsmenn barnaverndarnefndar og óskuðuð aðstoðar, þar sem þér og móðir drengsins ættuð í miklum erfiðleikum með B. Niðurstaðan af athugunum á aðstæðum B og hegðun hans í skóla leiddi til þeirrar niðurstöðu, að ákveðið var á fundi barnaverndarnefndar 19. febrúar 1992, að B skyldi vistaður á vistheimili barna að Y-götu í Reykjavík. Fór hann þangað til dvalar 25. þess mánaðar. Vegna áforma yðar og móður drengsins um að taka drenginn þaðan var hann kyrrsettur þar með bráðabirgðaúrskurði formanns barnaverndarnefndar 16. maí 1992. Bráðabirgðaúrskurðurinn var staðfestur á fundi barnaverndarnefndar 20. maí 1992. Byggðist úrskurðurinn meðal annars á skýrslum sérfræðinga, sem töldu brýnt að B dveldi áfram á vistheimilinu til meðferðar.

Í framhaldi af úrskurði barnaverndarnefndar frá 20. maí leitaði nefndin eftir því, að þér og móðir drengsins féllust á að hann færi í fóstur. Það gerðuð þér að lokum, sbr. bréf lögmanns dags. 30. júní 1992. Af hálfu nefndarinnar var talið, að vægari úrræði en langtímafóstur kæmu ekki að haldi fyrir B. Þar sem ekki var unnt að ná samkomulagi við yður og móður drengsins um þá skipan, sem talin var nauðsynleg hans vegna, voruð þér og móðir hans svipt forsjá með úrskurði barnaverndarnefndar 8. júlí 1992.

Úrskurður barnaverndarnefndar frá 8. júlí 1992 var staðfestur með úrskurði barnaverndarráðs frá 4. nóvember 1992."

III.

Í bréfi mínu til A, dags. 19. júlí 1993, gerði ég honum svohljóðandi grein fyrir niðurstöðum mínum í málinu:

"Þegar mál þetta var rekið fyrir barnaverndarnefnd og barnaverndarráði, giltu lög nr. 53/1966 um vernd barna og ungmenna. Núgildandi lög um vernd barna og ungmenna eru nr. 58/1992 og tóku þau gildi 1. janúar 1993, sbr. 68. gr. þeirra laga. Um meðferð máls þessa bar því að fara að lögum nr. 53/1966.

Samkvæmt lögum nr. 53/1966 um vernd barna og ungmenna eru ráðstafanir barnaverndarnefnda og afskipti af einstökum börnum tvenns konar. Í fyrsta lagi aðgerðir, sem unnt er að grípa til í samvinnu við og með samþykki foreldra eða annarra forráðamanna (minniháttar ráðstafanir), og í öðru lagi beinar þvingunarráðstafanir, sem unnt er að neyta gegn vilja foreldra, ef því er að skipta, sé það talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins og þarfa (meiriháttar ráðstafanir). Í fyrrnefnda flokkinn falla t.d. ýmsar ráðstafanir, sem mælt er fyrir um í 23. gr., 24. gr., 26. gr., 28. gr. og 1. mgr. 32. gr. laga nr. 53/1966. Þar er til dæmis mælt fyrir um aðstoð við foreldra, sem vegna fjárhagsörðugleika eða af öðrum ástæðum eiga erfitt með að sjá fyrir barni, leiðbeiningar við meðferð barna, sem vegna sjúkdóma eða afbrigðilegrar hegðunar þurfa sérstaka meðferð, töku barns af heimili og vistun þess á stofnun eða á fósturheimili í samráði við foreldra o.fl. Þessar ráðstafanir eiga það sameiginlegt, að til þeirra er ekki gripið, nema í samráði við foreldra eða aðra forráðamenn barns. Í síðari flokkinn falla beinar þvingunarráðstafanir, sem gripið er til í andstöðu við vilja foreldra eða annarra forráðamanna, ef talið er nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Í þennan flokk fellur t.d. taka barns af heimili, sbr. 26. og 28. gr., og svipting forsjár, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 53/1966.

Hvort sem ráðstöfun barnaverndarnefndar er minniháttar eða meiriháttar, ber barnaverndarnefnd að fylgja ákveðnum reglum við meðferð máls, sem nánar er kveðið á um í lögum nr. 53/1966, einkum IV. kafla. Þá ber að gæta ákveðinna sérreglna, þegar um er að ræða ráðstafanir, sem falla í síðari flokkinn, sbr. einkum 13., 16. og 20. gr.

Ég tel, að ráðstafanir og afskipti barnaverndarnefndar af máli fjölskyldu yðar og B frá upphafi fram til 16. maí 1992 falli í fyrrnefnda flokkinn. Ákvarðanir nefndarinnar á því tímabili eru teknar í samráði við yður eða móður drengsins, og ekki gripið til annarra ráðstafana en þeirra, sem þér eða móðirin höfðuð fallist á. Ég tel, eftir að hafa athugað rækilega gögn málsins frá þessu tímabili, að barnaverndarnefnd hafi farið að lögum og að meðferð nefndarinnar á málinu gefi ekki tilefni til sérstakra athugasemda af minni hálfu.

Hinn 16. maí 1992 kvað formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur upp bráðabirgðaúrskurð um kyrrsetningu B á vistheimili barna við Y-götu í Reykjavík, eins og fyrr segir. Í úrskurði formanns er vísað til 15., sbr. 26. gr. laga nr. 53/1966 um vernd barna og ungmenna. Úrskurðurinn var staðfestur á fundi nefndarinnar nokkrum dögum síðar, eða hinn 20. maí. Ég hef sérstaklega athugað meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, áður en úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp 20. maí 1992. Þar kemur fram, að þér og eiginkona yðar, móðir drengsins, mættuð á fund nefndarinnar þann dag, sem úrskurður um kyrrsetningu B á vistheimilinu við Y-götu var kveðinn upp. Í úrskurði barnaverndarnefndar frá 8. júlí 1992 er sjónarmiðum yðar og móður drengsins til kyrrsetningarúrskurðarins lýst. Athugun mín á gögnum um úrskurðinn 20. maí 1992 gefur ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við meðferð þessa þáttar málsins. Þá verður ekki séð, að úrskurður nefndarinnar byggi á ólögmætum sjónarmiðum.

Tilraunir til að ná samkomulagi við yður og móður drengsins um að koma honum í fóstur mistókust og var kveðinn upp úrskurður um sviptingu forsjár hinn 8. júlí 1992, eins og fram hefur komið. Ég hef athugað sérstaklega gögn, sem að þessum þætti málsins lúta. Þar kemur m.a. fram, að þér og eiginkona yðar nutuð aðstoðar lögmanns og fyrir nefndinni lágu greinargerð lögmanns yðar, dags. 23. júní, og bréf, dags. 27. maí og 30. júní 1992. Þá kemur fram, að móðir drengsins kom á fund nefndarinnar 10. júní 1992, auk þess sem þið höfðuð bæði komið á fund nefndarinnar 20. maí 1992. Túlkur aðstoðaði móður drengsins, auk þess sem skjölin voru þýdd... Sérfræðingar barnaverndarnefndar ræddu við B og könnuðu hug hans til málsins og lágu greinargerðir þeirra frammi í málinu. Niðurstaða mín af athugun á gögnum málsins er sú, að ekki sé tilefni til athugasemda af minni hálfu við meðferð málsins, áður en úrskurður var kveðinn upp þann 8. júlí. Þá tel ég, að úrskurðurinn sé að öðru leyti byggður á lögmætum sjónarmiðum."

IV.

Að lokum tók ég eftirfarandi fram um meðferð málsins fyrir barnaverndarráði og úrskurð barnaverndarráðs:

"Hinn 28. ágúst 1992 var úrskurðum barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. maí og 8. júlí 1992 skotið til barnaverndarráðs og þess krafist að þeir yrðu felldir úr gildi.

Málið var fyrst tekið fyrir á fundi ráðsins 23. september 1992, en síðan aftur þann 7. október 1992 og 22. október 1992 og loks 4. nóvember 1992, er úrskurður barnaverndarnefndar var staðfestur.

Á fundi barnaverndarráðs 23. september er ákveðið að boða yður og móður drengsins á næsta fund. Komuð þér, ásamt eiginkonu yðar og lögmanni á fundinn 7. október. Hinn 22. október 1992 komu móðir drengsins og lögmaður á fund. Túlkur var í fylgd með konu yðar. Samkvæmt bókun voru þau á fundi frá 17.30-18.45. Þá kom F, talsmaður barnsins á fundinn.

Meðferð málsins fyrir barnaverndarráði er lýst í úrskurði ráðsins, auk þess sem mér hafa borist fundargerðir barnaverndarráðs í málinu með bréfi barnaverndarráðs, dags. 5. apríl 1993. Athugun mín á þessum gögnum leiðir eftirfarandi í ljós.

1. Fram kemur að þér og eiginkona yðar, móðir B, voruð boðuð á fundi ráðsins í samræmi við 1. mgr. 16. og 20. gr. laga nr. 53/1966 í því skyni að gefa ykkur kost á að lýsa viðhorfum ykkar til málsins. Samkvæmt fundargerðunum komuð þér ásamt móður drengsins á fundi ráðsins 7. október. Þá kom móðir drengsins ásamt lögmanni og túlki á fundinn 22. október 1992. Þá sótti F einnig síðari fundinn en hún hafði verið skipuð talsmaður B. Í úrskurði barnaverndarráðs frá 4. nóvember 1992 er sérstaklega tekið fram, að hann sé m.a. byggður á komum yðar og móður drengsins á fund ráðsins, auk komu talsmanns barnsins. Þótt úrskurður ráðsins byggi þannig á komum yðar og móður drengsins á fundi þess, er ekkert bókað í fundargerðir um þau sjónarmið, sem fram komu af ykkar hálfu. Þá er ekkert bókað um það, sem fram kom í máli talsmanns barnsins á fundi þann 22. október. Sjónarmið talsmannsins eru hins vegar rakin í bréfi barnaverndarráðs til mín 5. apríl 1993. Ég bendi einnig á, að fyrir lágu í málinu ítarlegar greinargerðir lögmanns yðar, þar sem sjónarmiðum yðar er lýst.

Þótt bókanir á fundum ráðsins hafi að þessu leyti verið ófullkomnar, einkum þegar haft er í huga að fram kemur í úrskurðinum að hann er að hluta til byggður á komum yðar og talsmanns barnsins á fundi ráðsins, tel ég að það gefi ekki eftir atvikum tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu.

2. Í málskoti til barnaverndarráðs kemur skýrt fram, að það tekur bæði til úrskurð-ar barnaverndarnefndar frá 20. maí 1992, þar sem staðfestur er bráðabirgðaúrskurð-ur formanns barnaverndarnefndar um kyrrsetningu drengsins á Y-götu, og úrskurðar-ins 8. júlí 1992, um sviptingu forsjár. Í úrskurði barnaverndarráðs er hins vegar ekki sérstaklega fjallað um úrskurð nefndarinnar frá 20. maí, heldur aðeins úrskurðinn frá 8. júlí.

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 8. júlí gengur lengra en úrskurður nefndarinnar um kyrrsetningu frá 20. maí 1992. Því varð að líta svo á að úrskurðurinn frá 20. maí 1992 hefði ekki lengur sjálfstæða þýðingu, eftir að barnaverndarráð hafði staðfest síðari úrskurðinn frá 8. júlí. Að hálfu barnaverndarráðs var því ekki þörf á að fjalla um þann úrskurð efnislega í úrskurði ráðsins frá 4. nóvember 1992. Eðlilegt hefði þó verið að athugasemd þessa efnis hefði komið fram í úrskurðinum.

Athugun mín á úrskurði barnaverndarráðs og meðferð máls þessa fyrir barnaverndarráði gefur að öðru leyti ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu."