Námslán. Réttur erlends ríkisborgara til námsláns. Samstarfssamningur milli Norðurlanda. Þjóðréttarlegar skuldbindingar. EES-samningurinn. Endurupptaka. Rökstuðningur.

(Mál nr. 3042/2000)

A kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem staðfest var synjun lánasjóðsins um námslán úr sjóðnum. A, sem er finnskur ríkisborgari hafði verið búsett hér á landi frá árinu 1993. Hún sótti um námslán til að stunda dýralæknanám í Noregi en var synjað á þeim grundvelli að réttur hennar til námslána væri takmarkaður við að hún stundaði nám á Íslandi auk þess sem hún hefði ekki starfað á hinu Evrópska efnahagssvæði í fimm ár, sbr. grein 1.2.3. í úthlutunarreglum lánasjóðsins og 13. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í kæru sinni til málskotsnefndar hafði A m.a. vísað í álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1805/1996 sem hún taldi alveg hliðstætt sínu máli.

Umboðsmaður rakti ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna og grein 1.2.3. í úthlutunarreglum sjóðsins en í þeim er fjallað um möguleika erlendra námsmanna á námslánum úr sjóðnum. Þá rakti hann hlutverk og skyldur málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Áréttaði umboðsmaður að málskotsnefndinni bæri að rökstyðja úrskurði sína og vísaði af því tilefni til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 22. gr. sömu laga. Taldi hann að málskotsnefndinni hefði borið að taka málefnalega og rökstudda afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti þau sjónarmið sem rakin voru í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1805/1996 ættu við í máli A. Bar nefndinni þannig að taka fullnægjandi afstöðu til þess hvort og þá hvaða áhrif ákvæði samstarfssamnings milli Norðurlandanna frá 1962, með áorðnum breytingum, hefðu á úrlausn um rétt A til námslána samkvæmt 13. gr. laga nr. 21/1992. Í því efni hefði ekki verið fullnægjandi að segja það eitt að tiltekin ákvæði úthlutunarreglna lánasjóðsins hefðu „að hluta til [verið] settar vegna samkomulags Norðurlandanna um námsaðstoð“. Þá kom það eitt fram í úrskurðinum um réttarstöðu A samkvæmt reglum EES-samningsins um farandlaunþega, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992, að „óumdeilt“ hefði verið að A hefði ekki verið starfandi á hinu Evrópska efnahagssvæði í fimm ár. Tók nefndin þannig ekki til rökstuddrar úrlausnar málsástæður A er lutu að því hvernig hún taldi að skýra ætti nefnda 3. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 með hliðsjón af fyrirmælum EES-samningsins um farandlaunþega. Þessi vinnubrögð málskotsnefndarinnar voru í ósamræmi við lagakröfur um rökstuðning úrskurða á kærustigi, sbr. 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

Var það niðurstaða umboðsmanns að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A til skoðunar að nýju, kæmi fram ósk þess efnis frá henni.

I.

Hinn 18. ágúst 2000 leitaði til A sem stundar dýralæknanám í Noregi, vegna synjunar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um námslán úr sjóðnum.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 18. júní 2001.

II.

Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins sótti A, sem er finnskur ríkisborgari, um námslán til að stunda dýralæknanám í Noregi með umsókn til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 11. ágúst 1999. Hafði hún áður skilað hefðbundinni umsókn 3. ágúst 1999. Fram kom í umsókninni að A hefði verið búsett hér á landi frá árinu 1993 og verið í óvígðri sambúð með Íslendingi frá árinu 1996. Frá því að hún kom til landsins hefði hún starfað hér og stundað nám. Benti hún á í umsókn sinni að ekki væri boðið upp á dýralæknanám á Íslandi og því væri henni nauðsynlegt að sækja skóla erlendis. Taldi hún sig ekki eiga rétt á námsláni frá Finnlandi þar sem þar væri miðað við að námsmaður hefði dvalið í Finnlandi síðustu tvö ár áður en nám hófst en lét þess getið að hún hefði sótt um slíkt lán.

Lánasjóður íslenskra námsmanna synjaði umsókn hennar með bréfi, dags. 20. ágúst 1999, á þeim grundvelli að réttur hennar til námslána væri takmarkaður við það að hún stundaði nám á Íslandi samkvæmt grein 1.2.3. í úthlutunarreglum sjóðsins. A fór fram á úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna með bréfi, dags. 6. janúar 2000. Taldi hún sig eiga rétt á námsaðstoð samkvæmt EES-reglum um farandlaunþega en líta mætti á dýralæknanám hennar sem starfstengt nám þar sem það væri í samræmi við störf hennar og nám hér á landi. Hún hefði unnið tvo vetur við tamningar en auk þess hefði hún útskrifast sem búfræðingur frá hrossaræktunarbraut Hólaskóla 1996. Þá hefði hún stundað líffræðinám við Háskóla Íslands skólaárið 1998-1999, en dýralæknanámið í Noregi hefði hún hafið á haustönn 1999.

Erindi hennar var synjað með úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 28. janúar 2000, með þeim rökum að réttur hennar til námslána samkvæmt grein 1.2.3. í úthlutunarreglum lánasjóðsins takmarkaðist við nám á Íslandi. Tekið var fram að heimilt væri samkvæmt sömu grein að veita farandlaunþega, þ.e. launþega sem starfað hefði á hinu Evrópska efnahagssvæði í a.m.k. fimm ár, aðstoð til starfstengds náms hefði hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár. Þar sem A hefði ekki verið í fullu starfi á vinnumarkaði hér á landi eða annars staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði s.l. fimm ár samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri ekki hægt að fallast á að hún félli undir skilgreiningu hugtaksins farandlaunþegi.

A kærði úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til málskotsnefndar lánasjóðsins með kæru, dags. 26. apríl 2000. Kæru sinni til stuðnings vísaði hún til samstarfssamnings milli Norðurlandanna frá 1962. Eftir breytingu sem gerð var á samningnum 1995 kemur fram í 2. gr. að við setningu laga og annarra réttarreglna á Norðurlöndum skulu ríkisborgarar norrænna landa njóta sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands á því sviði sem samningurinn tekur til. Þá vísaði A í álit umboðsmanns Alþingis frá 20. mars 1997 í máli nr. 1805/1996 sem hún taldi alveg hliðstætt sínu máli. Í málinu lýsti umboðsmaður þeirri skoðun sinni að gildissvið samstarfssamnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, með áorðnum breytingum, tæki til námslána og réttar manna til þeirra. Var það álit umboðsmanns að leitast skyldi við að skýra ákvæði landsréttar í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar og að stjórn lánasjóðsins bæri að túlka og framkvæma lög og reglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna til samræmis við þær skuldbindingar gagnvart norrænum ríkisborgunum sem fælust í 2. gr. umrædds samnings.

Benti A á að hún hefði fengið synjun um námsaðstoð frá Finnlandi á þeim forsendum að dvöl hennar utan Finnlands gæti ekki talist tímabundin. Auk þess benti hún á að ósamræmi væri á milli túlkunar á EES-reglum um farandlaunþega í Finnlandi og á Íslandi. Í því sambandi vakti hún athygli á því að hún hefði unnið við tamningar á Íslandi í alls 14 mánuði. Þá væri hún útskrifuð sem búfræðingur frá hrossaræktunarbraut Bændaskólans á Hólum og hefði stundað nám við líffræðideild Háskóla Íslands í eitt ár. Hélt A því fram að íslenskur ríkisborgari í Finnlandi í sambærilegri stöðu og hún væri í á Íslandi myndi fá námsaðstoð þaðan til náms í Noregi. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, segði að heimilt væri að láta ákvæði greinarinnar taka til einstakra annarra erlendra ríkisborgara nytu íslenskir námsmenn sambærilegra réttinda í heimalandi þeirra.

Með úrskurði, dags. 1. ágúst 2000, staðfesti málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna hinn kærða úrskurð stjórnar lánasjóðsins, meðal annars með vísan til forsendna hans. Í úrskurðinum voru meðal annars raktar eftirfarandi upplýsingar frá stjórn lánasjóðsins um mismunandi framkvæmd stjórnvalda á Norðurlöndum að því er varðar reglur um námsaðstoð:

„Þá er vakin athygli á því að framkvæmd stjórnvalda á Norðurlöndum sé með ólíkum hætti að því er varðar reglur um námsaðstoð. Þannig byggi finnsk stjórnvöld engin námsaðstoðarréttindi á samstarfssamningi Norðurlanda þar sem þau telji það andstætt EB reglum og sama eigi við um Dani, en bæði sænsk og norsk stjórnvöld byggi á norrænum rétti.“

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hljóðaði svo:

„Samkvæmt 1. mgr. greinar 1.2.3. í úthlutunarreglum LÍN njóta þeir námsmenn, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda lánshæft nám hérlendis, námsaðstoðar til jafns við íslenska námsmenn enda hljóti þeir ekki námsaðstoð frá heimalandi sínu. Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að launþegi sem starfað hefur á hinu Evrópska efnahagssvæði í a.m.k. fimm ár á rétt á aðstoð til starfstengds náms hafi hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár.

Óumdeilt er að kærandi uppfyllir hvorki skilyrði úthlutunarreglnanna um nám hérlendis né að hafa verið starfandi á hinu Evrópska efnahagssvæði í fimm ár. Framangreindar úthlutunarreglur eru í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og að hluta til settar vegna samkomulags Norðurlandanna um námsaðstoð.

Með vísan til þessa er úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. L-114/99 staðfestur með vísan til forsendna hans.“

III.

Ég ritaði málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf, dags. 28. ágúst 2000, þar sem þess var óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að málskotsnefndin léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Sérstaklega var þess óskað að málskotsnefndin gerði grein fyrir afstöðu sinni til málsins með tilliti til 2. gr. samstarfssamnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 23. mars 1962, sbr. samkomulag um breytingu á samningnum, sem undirritað var 29. september 1995. Í því sambandi óskaði ég eftir skýringum nefndarinnar með tilliti til álits umboðsmanns Alþingis frá 20. mars 1997 í máli nr. 1805/1996. Loks óskaði ég eftir því að málskotsnefndin veitti mér upplýsingar um grundvöll og gerði grein fyrir viðhorfi sínu til þeirrar skilgreiningar á hugtakinu „farandlaunþegi“ sem fram kæmi í 3. mgr. greinar 1.2.3. í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna en í því ákvæði segði að „farandlaunþegi, þ.e. launþegi sem starfað [hefði] á hinu Evrópska efnahagssvæði í a.m.k. fimm ár [ætti] rétt á aðstoð til starfstengds náms [hefði] hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár.“ Í svarbréfi málsskotsnefndar, dags. 5. október 2000, segir meðal annars svo:

„Að því er varðar þá ósk yðar um að nefndin skýri viðhorf sitt til kvörtunarinnar og geri grein fyrir afstöðu sinni til málsins með tilliti til 2. gr. samstarfssamnings fimm Norðurlanda frá 23. mars 1962, sbr. samkomulag um breytingu á samningnum sem undirritað var 29. september 1995, er þess að geta að í framangreindum úrskurði kemur fram að nefndin telur að skilyrði úthlutunarreglna LÍN fyrir veitingu námsaðstoðar brjóti ekki rétt kæranda skv. áðurnefndum samningi enda mismuni þau ekki námsmönnum í sömu aðstæðum.

Í bréfi yðar er enn fremur óskað eftir að málskotsnefnd veiti upplýsingar um grundvöll og geri grein fyrir viðhorfi sínu til þeirrar skilgreiningar á hugtakinu „farandlaunþegi“ sem fram kemur í 3. mgr. greinar 1.2.3. í úthlutunarreglum LÍN. Í áðurnefndum úrskurði nefndarinnar kemur fram það álit að reglurnar séu í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og því hefur nefndin ekki gert athugasemdir við skýringu þeirra á hugtakinu „farandlaunþegi“.“

IV.

1.

Í máli A lá fyrir málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna að skera úr um hvort A ætti rétt til námslána á grundvelli 13. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Var það niðurstaða nefndarinnar að A uppfyllti hvorki skilyrði 1. mgr. greinar 1.2.3. í úthlutunarreglum lánasjóðsins, um nám hérlendis, né skilyrði 3. mgr. greinarinnar, um að hafa starfað á hinu Evrópska efnahagssvæði í a.m.k. fimm ár. Fram kom í úrskurði nefndarinnar að úthlutunarreglurnar væru í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992 og að hluta til settar vegna samkomulags Norðurlandanna um námsaðstoð.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 er stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna heimilt að ákveða að námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda nám hérlendis, hafi rétt til námslána samkvæmt lögunum með sama hætti og íslenskir námsmenn enda njóti þeir ekki aðstoðar frá heimalandi sínu. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna er heimilt að láta ákvæði þessarar greinar taka til einstakra annarra erlendra ríkisborgara njóti íslenskir námsmenn sambærilegra réttinda í heimalandi þeirra. Þá á ríkisborgari ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, sem starfað hefur sem launþegi á Evrópska efnahagssvæðinu í a.m.k. fimm ár, sbr. lög nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, rétt á aðstoð til starfstengds náms hafi hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna. Í úthlutunarreglum lánasjóðsins eru framangreind ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992 nánar útfærð í grein 1.2.3. Ákvæði 1. og 3. mgr. greinarinnar hljóða svo:

„Námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda lánshæft nám hérlendis, njóta námsaðstoðar til jafns við íslenska námsmenn enda hljóti þeir ekki námsaðstoð frá heimalandi sínu sbr. samkomulag milli Norðurlanda um þessi efni eins og það er á hverjum tíma. Heimilt er að láta þetta ákvæði taka til einstakra annarra erlendra ríkisborgara, njóti íslenskir námsmenn sambærilegra réttinda í heimalandi þeirra.

[...]

Farandlaunþegi, þ.e. launþegi sem starfað hefur á hinu Evrópska efnahagssvæði í a.m.k. fimm ár á rétt á aðstoð til starfstengds náms hafi hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár.

[...]“

3.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sker málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna úr um hvort úrskurðir stjórnar lánasjóðsins séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Getur nefndin staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnarinnar. Skal úrskurður nefndarinnar vera rökstuddur og er hann endanlegur á stjórnsýslustigi. Með lokamálslið ákvæðisins er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra setji nefndinni starfsreglur, sbr. nú reglugerð nr. 79/1998, um starfsreglur málskotsnefndar. Er þannig áréttað í 2. gr. reglugerðarinnar að niðurstöðu nefndarinnar skuli fylgja stuttur rökstuðningur. Þá segir í 7. gr. reglugerðarinnar að málsmeðferð hjá málskotsnefndinni fari að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum.

Í 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um form og efni úrskurða í kærumálum. Um rökstuðning vísar 4. tölul. ákvæðisins til 22. gr. laganna sem geymir þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skal greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Þar sem ástæða er til skal í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 má ráða að rökstuðningur stjórnvaldsákvörðunar skuli að jafnaði vera stuttur en þó það greinargóður að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Meiri kröfur verði þó að gera til rökstuðnings fyrir úrskurðum í kærumálum. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.)

Samkvæmt kvörtun A og gögnum málsins hefur hún frá upphafi haldið því fram að synjun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna og síðar staðfesting málskotsnefndar sjóðsins á þeirri niðurstöðu hafi brotið í bága við 13. gr. laga nr. 21/1992 eins og skýra verði það ákvæði með tilliti til 1. mgr. 2. gr. samstarfssamnings milli norrænu ríkjanna frá 23. mars 1962, sbr. samkomulag um breytingu á samningnum, sem undirritað var 29. september 1995. Til stuðnings þessari staðhæfingu sinni hefur A vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 20. mars 1997 í máli nr. 1805/1996.

Af því tilefni tek ég fram að í ofangreindu áliti umboðsmanns Alþingis voru atvik mjög sambærileg við þau sem til staðar eru í máli A. Um var að ræða kvörtun finnsks ríkisborgara sem hafði verið búsettur hér á landi frá árinu 1978 en honum hafði verið synjað um námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna háskólanáms í Bretlandi. Í áliti sínu vék umboðsmaður að samstarfssamningi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar sem undirritaður var í Helsinki 23. mars 1962. Rakti umboðsmaður að samkvæmt heimild í þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi hinn 11. apríl 1962, var samningur þessi staðfestur af Íslands hálfu og staðfestingarskjalið afhent 29. júní 1962. Hafi samningurinn gengið í gildi 1. júlí 1962 og verið birtur í C-deild Stjórnartíðinda 14. ágúst 1962.

Samkvæmt 1. gr. umrædds samnings skulu samningsaðilar kappkosta að varðveita og efla enn betur samstarfið milli landanna í réttar-, menningar-, félags- og efnahagsmálum, svo og um samgöngur. Samkvæmt 2. gr. samningsins skulu samstarfsaðilar halda áfram að vinna að því að ríkisborgarar Norðurlanda, sem dveljast á Norðurlöndum utan heimalands síns, njóti svo sem framast er unnt sömu réttarstöðu og ríkisborgarar dvalarlandsins.

Umboðsmaður rakti nánar í nefndu áliti sínu að nokkrar breytingar hefðu orðið á samstarfssamningnum á þeim árum sem liðin væru frá gildistöku hans. Að því er snerti úrlausn málsins hefði verið gert samkomulag um breytingu á samningnum, meðal annars 2. gr. hans, 29. september 1995 sem samþykkt hefði verið með ályktun Alþingis 13. desember 1995. Samkomulag þetta hefði verið birt í Stjórnartíðindum hinn 25. janúar 1999 í C-deild 1995, bls. 347. Í 2. gr. samningsins segir:

„Við setningu laga og annarra réttarreglna á Norðurlöndum skulu ríkisborgarar norrænna landa njóta sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands. Þetta gildir á því sviði sem samstarfssamningurinn tekur til.

Undanþágu frá 1. mgr. má þó gera, ef skilyrði um ríkisborgararétt er bundið í stjórnarskrá, nauðsynlegt vegna annarra alþjóðlegra skuldbindinga eða það telst nauðsynlegt af öðrum sérstökum ástæðum.“

Í athugasemdum við framangreinda þingsályktunartillögu sagði svo um þessa breytingu:

„Samkomulagið gerir ráð fyrir að í 1. mgr. 2. gr. samningsins verði tekið almennt ákvæði um að jafnræðis skuli gætt á milli norrænna ríkisborgara við setningu laga og annarra réttarreglna á Norðurlöndum. Frá þessari reglu eru þó undantekningar ef skilyrði um ríkisborgararétt er bundið í stjórnarskrá, er nauðsynlegt vegna annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga eða það telst nauðsynlegt af öðrum ástæðum. Samkvæmt núgildandi ákvæðum samningsins skulu Norðurlönd hins vegar stefna að þessu markmiði.

Forsætisráðherrar Norðurlanda beindu því til samstarfsráðherra á árinu 1993 að kannaðir yrðu möguleikar og gagnsemi þess að fella inn í samstarfssamninginn ákvæði um jafnræðisreglu. Nefndir sérfræðinga hafa efnislega fjallað um málið og niðurstaðan orðið sú sem fram kemur í breytingu á 2. gr. samstarfssamningsins. Hér er um að ræða mikilvæga þjóðréttarlega skuldbindingu sem höfð verður að leiðarljósi við lagasetningu og lagaframkvæmd á Norðurlöndum“. (Alþt. 1995, A-deild, bls. 1669.)

Í úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 1. ágúst 2000, í máli A kemur fram sá skilningur nefndarinnar að réttur A til námslána samkvæmt grein 1.2.3. í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992, sé takmarkaður við það að hún stundi nám á Íslandi. Í þessu sambandi bendi ég á að í ofangreindu áliti vísaði umboðsmaður Alþingis til 1. gr., sbr. 9. gr. áðurnefnds samstarfssamnings milli Norðurlandanna, þar sem sérstaklega er vikið að námsstyrkjum og komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn tæki til námslána og réttar manna til þeirra. Áður en framangreind breyting á 2. gr. samstarfssamningsins hefði verið staðfest hefði ákvæðið falið í sér yfirlýsingu um stefnumörkun. Ljóst væri að breytingu ákvæðisins væri ætlað að tryggja jafnræði milli norrænna ríkisborgara með ákveðnari hætti en áður. Orðalag ákvæðisins og athugasemdir við þingsályktunartillöguna, sem samþykkt hefði verið á Alþingi 13. desember 1995, bæru með sér að breytingin fæli í sér „þjóðréttarlega skuldbindingu, sem [hafa yrði] að leiðarljósi við lagasetningu og lagaframkvæmd á Norðurlöndum“ á því sviði, sem samstarfssamningurinn tæki til.

Samkvæmt þessu taldi umboðsmaður Alþingis að gildissvið samstarfssamningsins milli Norðurlandanna tæki til námslána og réttar manna til þeirra. Jafnframt taldi hann rétt, og í samræmi við viðurkennd sjónarmið um að leitast skyldi við að skýra ákvæði landsréttar í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar, að stjórn lánasjóðsins túlkaði og framkvæmdi lög og reglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna til samræmis við þær skuldbindingar gagnvart norrænum ríkisborgurum sem fælust í 2. gr. umrædds samnings, sbr. samkomulag um breytingu á honum, sem Alþingi hefði samþykkt með þingsályktun 13. desember 1995 og staðfest hefði verið í ríkisráði 31. desember s.á. Taldi umboðsmaður að 13. gr. laga nr. 21/1992, sem fjallar um rétt til framlaga úr opinberum sjóði, girti ekki, þrátt fyrir orðalag sitt, fyrir þann rétt sem einstaklingum væri ætlaður samkvæmt þjóðréttarlegri skuldbindingu sem Alþingi hefði samþykkt.

Ég minni á að í framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis frá 20. mars 1997 var fjallað um kvörtun finnsks ríkisborgara sem hafði verið búsettur hér á landi frá árinu 1978 en honum hafði verið synjað um námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna háskólanáms í Bretlandi. Ég legg áherslu á að A er finnskur ríkisborgari sem hefur verið búsett hér á landi frá árinu 1993 og hefur hún einnig fengið synjun um námslán þar sem nám það sem hún stundar er í Noregi. Vegna þess hve hliðstæð mál þessi eru, og að teknu tilliti til þess að A byggði kæru sína til nefndarinnar beinlínis á sjónarmiðum sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis í nefndu áliti frá 1997, tel ég að málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi borið á grundvelli 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna, að taka málefnalega og rökstudda afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti þau sjónarmið sem rakin höfðu verið í nefndu áliti umboðsmanns ættu við í máli A. Bar nefndinni þannig að taka fullnægjandi afstöðu til þess hvort og þá hvaða áhrif ákvæði umrædds samstarfssamnings milli Norðurlandanna hefðu á úrlausn um rétt A til námslána samkvæmt 13. gr. laga nr. 21/1992. Í því efni var ekki fullnægjandi að segja það eitt að tiltekin ákvæði úthlutunarreglna LÍN hefðu „að hluta til [verið] settar vegna samkomulags Norðurlandanna um námsaðstoð“.

4.

Í kæru sinni til málskotsnefndar lánasjóðsins hélt A því fram að samkvæmt upplýsingum frá Finnlandi ætti hún rétt á námsaðstoð samkvæmt fyrirmælum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um farandlaunþega. Benti hún á að meðal annars þyrfti að taka tillit til hvort viðkomandi hefði „starfað á EES-svæðinu og svo hafið nám á sama sviði og starfið“. Um skilgreininguna „á sama sviði og starfið“ tók hún fram að hún hefði verið upplýst um að „engar fastar reglur [væru til], en að það [væri] metið í hverju tilfelli fyrir sig“. Meðal annars væri farið eftir því að „nám [gæti] komið í stað starfs, enda [væri] hér um námsaðstoð að ræða“.

Í úrskurði málskotsnefndar lánasjóðsins í máli A kom það hins vegar eitt fram um réttarstöðu hennar samkvæmt reglum EES-samningsins um farandlaunþega, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992, að „óumdeilt“ hefði verið að A hefði ekki verið starfandi á hinu Evrópska efnahagssvæði í fimm ár. Tók nefndin þannig ekki til rökstuddrar úrlausnar ofangreindar málsástæður A er lutu að því hvernig hún taldi að skýra ætti nefnda 3. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 með hliðsjón af fyrirmælum EES-samningsins um farandlaunþega. Þessi vinnubrögð málskotsnefndarinnar voru einnig í ósamræmi við lagakröfur um rökstuðnings úrskurða á kærustigi, sbr. 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

Ég tel rétt að taka fram að í niðurlagi umrædds úrskurðar málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna 1. ágúst 2000 var niðurstaða stjórnar lánasjóðsins staðfest „með vísan til forsendna hans“. Í úrskurði stjórnarinnar 28. janúar 2000 var komist að þeirri niðurstöðu að A uppfyllti ekki skilyrði greinar 1.2.3. í úthlutunarreglum lánasjóðsins sökum þess að hún hefði ekki verið í fullu starfi á vinnumarkaði hér á landi eða annarsstaðar á hinu Evrópska efnahagssvæði „s.l. fimm ár“ samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

Vegna þessa vek ég athygli á því að samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 og nefndri grein í umræddum úthlutunarreglum sjóðsins á ríkisborgari ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, sem starfað hefur sem launþegi á EES-svæðinu í „a.m.k. fimm ár“ rétt á aðstoð til starfstengds náms hafi hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár. Samkvæmt þessu var munur að efni til á orðalagi í forsendum í úrskurði stjórnar LÍN, dags. 28. janúar 2000, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans af hálfu málskotsnefndarinnar, og á þeirri lagareglu sem umfjöllun nefndarinnar laut að.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 1. ágúst 2000 í máli A hafi ekki verið í samræmi við lög. Það eru því tilmæli mín til nefndarinnar að hún taki mál A til skoðunar að nýju, komi fram ósk þess efnis frá henni, og hagi þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 26. nóvember 2001, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til málskotsnefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða málið væri enn til meðferðar. Með símbréfi nefndarinnar, dags. 5. desember 2001, barst mér afrit af úrskurði hennar í máli A, dags. 23. nóvember 2001. Niðurstaða málskotsnefndarinnar var sú að fallast á rétt A til námslána til að stunda dýralæknanám í Noregi og felldi nefndin því úrskurð stjórnar lánasjóðsins frá 28. janúar 2000 í máli A úr gildi.