Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11000/2021)

Kvartað var yfir að settur lögreglustjóri hefði hvorki afhent gögn í ráðningarmáli né svarað tilteknum spurningum. 

Umboðsmaður hafði fjallað um sama mál viku fyrr og taldi þá líkt og nú að ekki væri liðinn slíkur tími frá því að lögreglustjóri hefði verið beðinn um gögn að tilefni væri fyrir sig til að aðhafast. Þá yrði ekki annað ráðið en lögreglustjórinn hefði brugðist við fyrirspurnum viðkomandi. Lét hann því athugun sinni á málinu lokið.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 22. mars sl., sem þér beinið að settum lögreglustjóra í ráðningarmáli þar sem þér voruð meðal umsækjenda og lýtur að því að hann hafi ekki afhent yður umbeðin gögn úr málinu og svari ekki tilteknum spurningum sem þér beinduð til hans.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns með kvörtun vegna beiðna yðar um aðgang að gögnum úr málinu þar sem þér voruð meðal umsækjenda og hlaut það mál númerið 10819/2020 í málaskrá umboðsmanns. Kvörtun yðar þá var afmörkuð með þeim hætti að yður hefðu ekki verið afhent gögn um þá umsækjendur sem voru metnir hæfari en þér og ljóst er að ákvörðun setts lögreglustjóra um að endurskoða fyrri ákvörðun um afhendingu gagna tók mið af því.

Líkt og kemur fram í bréfi mínu til yðar, dags. 15. mars sl., eða fyrir rétt um viku síðan, tel ég rétt að veita settum lögreglustjóra svigrúm til að bregðast við og taka afstöðu til tölvupósts yðar til hans frá 10. mars sl., þar sem þér lýstuð þeirri afstöðu að svör hans fælu í sér að yður hefði verið synjað um afhendingu gagna um tiltekinn umsækjanda. Ég tel að enn sé ekki liðinn slíkur tími frá því að þér senduð tölvupóstinn að tilefni sé fyrir mig til að aðhafast sérstaklega og geng út frá því að settur lögreglustjóri muni bregðast við honum.

Af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum verður ekki annað ráðið en að settur lögreglustjóri hafi brugðist við fyrirspurnum yðar um málefni tveggja nafngreindra starfsmanna á ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann er starfandi, þrátt fyrir að þér séuð ósáttir við efni svaranna og hafið því áréttað fyrirspurnirnar. Af því tilefni minni ég yður á, eins og kom fram í bréfi mínu til yðar, dags. 16. mars sl., í tilefni af kvörtun yðar í máli nr. 10928/2020, að staða einstaklings sem sendir stjórnvaldi almenna fyrirspurn eða erindi er önnur með tilliti til þess hvort hann á rétt á efnislegum svörum en t.d. aðila að stjórnsýslumáli. Til hliðsjónar bendi ég yður á að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem upplýsingalög nr. 140/2012 taka til tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Ég tel því ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til athugunar. 

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Afrit af bréfi þessu er sent settum lögreglustjóra til upplýsingar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson