Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 10983/2021)

Kvartað var yfir að Vegagerðin hefði ekki svarað beiðni um rökstuðning fyrir ráðningu í starf.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að Vegagerðin hafði svarað erindinu. Lauk umfjöllun umboðsmanns þar með. 

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 14. mars sl., þar sem þér kvartið yfir að Vegagerðin hafi ekki svarað beiðni yðar um rökstuðning fyrir ákvörðun um ráðningu í starf [...], sem auglýst var í desember sl. og þér sóttuð um.

Samkvæmt afritum tölvupósta sem fylgdu kvörtun yðar óskuðuð þér eftir rökstuðningnum með tölvupósti til mannauðsstjóra Vegagerðarinnar 19. febrúar sl. Í tölvupósti mannauðsstjórans til yðar 4. mars sl. var yður gerð grein fyrir að sökum mikilla anna verði „ekki hægt að senda umbeðnar upplýsingar fyrr en í lok næstu viku“. Í símtali sem starfsmaður minn átti við áðurnefndan mannauðsstjóra 24. mars sl. upplýsti hann að búið væri að afgreiða erindi yðar og hafi umbeðinn rökstuðningur verið sendur yður með tölvupósti 19. mars sl.

Með vísan til framangreindra upplýsinga um að Vegagerðin hafi nú svarað erindi yðar lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson