Skattar og gjöld.

(Mál nr. 10980/2021)

Kvartað var yfir úrskurði yfirskattanefndar vegna ágreinings um rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu sem innt var af hendi árið 1994.  

Í niðurlagi úrskurðar yfirskattanefndar kom fram að skýringar kæranda hefðu ekki sýnt fram á að afsakanlegar ástæður hefðu legið að baki síðbúinni beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts þannig að ríkisskattstjóra hefði verið rétt að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar. Kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra hafi í kjölfarið verið hafnað sem og kröfu um að félaginu yrði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði. Umboðsmaður benti á að sex ára frestur til að leggja fram beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts hefði verið liðinn. Út frá þessu og öðrum gögnum málsins væru ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til mín f.h A ehf., dags. 12. mars sl., þar sem þér kvartið yfir úrskurði yfirskattanefndar nr. [...] frá 27. janúar sl.

Af gögnum málsins má ráða að umbjóðandi yðar hafi óskað eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts með beiðni, dags. 5. desember 2014, á grundvelli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Þeirri beiðni hafi verið synjað með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 12. janúar 2015, á þeim grundvelli að óheimilt væri samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 449/1990 að verða við beiðni félagsins. Fyrirsvarsmaður félagsins hafi í kjölfarið óskað endurupptöku með bréfi, dags. 25. janúar 2015, og ríkisskattstjóri komist að þeirri niðurstöðu að framkomnar skýringar á ástæðum þess að beiðni um endurgreiðslu hefði ekki borist fyrr væru ófullnægjandi og að ekki væri unnt að afgreiða umsókn félagsins um endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Tilkynnt var um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 13. febrúar 2015.

Félagið hafi aftur óskað eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sömu atvika hinn 16. desember 2016 með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri hafi farið með þá beiðni sem beiðni um endurupptöku og synjað henni með bréfi, dags. 31. janúar 2017. Félagið hafi í kjölfarið lagt fram aðra beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts hinn 14. ágúst 2019 vegna sömu atvika og ríkisskattstjóri leyst úr þeirri beiðni á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hinn 17. janúar 2020. Beiðninni hafi verið vísað frá á þeim grundvelli að skilyrði endurupptöku samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt. Sú ákvörðun hafi verið kærð til yfirskattanefndar.

Í úrskurði yfirskattanefndar er það rakið að ágreiningur málsins lúti að rétti kæranda til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu verktaka sem innt hafi verið af hendi á árinu 1994 við húsbyggingu á vegum kæranda. Fyrir liggi að verktakinn hafi ekki gefið út sölureikning vegna þjónustu sinnar. Að virtum ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, þar sem fram komi að endurgreiðsla skuli vera á grundvelli framlagðra reikninga, sbr. og ákvæði 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 449/1990, megi ljóst vera að kærandi hafi ekki haft undir höndum tilskilin gögn til að félagið fengi endurgreiddan virðisaukaskatt. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 9. apríl 1997 í máli nr. E-1173/1996 hafi verktakanum aftur á móti verið gert að gefa út reikning vegna verkefna fyrir kæranda og sá dómur því falið í sér staðfestingu þess að umrædd verkefni hafi verið innt af hendi. Með dóminum hafi verið komnar fram forsendur til þess að kærandi leitaði eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts. Endurgreiðslubeiðni hafi aftur á móti ekki borist ríkisskattstjóra fyrr en 5. desember 2014.

Þá segir í úrskurði yfirskattanefndar að sex ára frestur samkvæmt 1. mgr. 43. gr. A. laga nr. 50/1988, sem í tilviki kæranda reiknist frá gildistöku laga nr. 64/2002, hafi þá verið löngu liðinn. Upplýsingar frá kæranda um afhendingu bókhaldsgagna til skattrannsóknarstjóra ríkisins á árunum 2000 til 2005 hafi að mati nefndarinnar ekki falið í sér fullnægjandi skýringu á hinni síðbúnu beiðni. Í þeim efnum er meðal annars vísað til þess að endurgreiðslubeiðnin hafi ekki verið byggð á þeim bókhaldsgögnum kæranda sem skattrannsóknarstjóri hafði í vörslum sínum um árabil. Kærandi hafi auk þess getað nálgast þau gögn á grundvelli 19. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Þá hafi viðbára kæranda um vankunnáttu ekki þótt geta leitt til þess að litið yrði fram hjá fresti samkvæmt 43. gr. A. í lögum nr. 50/1988.

Í niðurlagi úrskurðar yfirskattanefndar kemur fram að með vísan til framangreinds þyki kærandi með fram komnum skýringum ekki hafa sýnt fram á að „afsakanlegar ástæður hafi legið að baki síðbúinni beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts þannig að ríkisskattstjóra hafi verið rétt að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar, sbr. til hliðsjónar ákvæði um afleiðingar þess að kæra til æðra stjórnvalds berst að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“ Kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra hafi í kjölfarið verið hafnað sem og kröfu um að félaginu yrði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

  

II

Um endurgreiðslu virðisaukaskatts fer samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem og reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 segir meðal annars að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 449/1990, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 561/2002, fellur réttur til endurgreiðslu niður ef umsókn um endurgreiðslu berst viðkomandi skattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

Með lögum nr. 64/2002, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, sem tóku gildi 1. júlí 2002 var ákvæði 43. gr. A. bætt inn í XIII. kafla laga nr. 50/1988. Í ákvæðinu segir að réttur til endurgreiðslna samkvæmt XIII. kafla og ákvæðum til bráðabirgða í lögunum falli niður ef umsókn um endurgreiðslu berst viðkomandi stjórnvaldi eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist. Í frumvarpi því er varð að lögunum segir að réttur til endurgreiðslu stofnist þegar sölureikningur vegna kaupa á viðkomandi vöru eða þjónustu er gefinn út að uppfylltum skilyrðum 13. gr. laganna. Hafi deilur orðið á milli kaupanda og seljanda um viðkomandi viðskipti og málið farið fyrir dómstóla beri að miða upphaf fyrningarfrests við dómsuppsögu, fremur en við dagsetningu reiknings, þar sem þá sé komin endanleg niðurstaða um réttindi og skyldur endurgreiðslubeiðanda. (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 1681.)

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er ríkisskattstjóra heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex ár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Um er að ræða heimild til að endurákvarða áður álögð opinber gjöld. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. A. í lögum nr. 50/1988 en þar segir að ríkisskattstjóra sé heimilt að taka til greina beiðni aðila um breytingu á ákvörðun um virðisaukaskatt, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Ákvæðið lýtur að breytingu á áður ákvörðuðum virðisaukaskatti. Framangreind ákvæði lúta að svokölluðum skattákvörðunum, þ.e. þar sem ákveðið er hvað skattaðili á að greiða mikið í skatt á hverju tímabili. Um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna af byggingarstað gilda aftur á móti áðurnefnd ákvæði XIII. kafla laga nr. 50/1988.

Sex ára frestur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 449/1990 sem og 43. gr. A. laga nr. 50/1988, miðað við gildistöku laganna, var liðinn þegar félagið lagði fram beiðni sína um endurgreiðslu virðisaukaskatts 5. desember 2014 sé miðað við að réttur til endurgreiðslu stofnaðist við dóm Héraðsdóms Reykjaness en ekki er gert ráð fyrir undantekningum á frestinum í lögum eða reglum sem um endurgreiðslur gilda að þessu leyti. Í ljósi framangreinds tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu yfirskattanefndar.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég mig ekki heldur hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við synjun yfirskattanefndar um að félaginu yrði úrskurðaður málskostnaður úr ríkisjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Hef ég hér hliðsjón af því að samkvæmt ákvæðinu er það meginskilyrði að úrskurður hafi fallið skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, sem ekki á við í máli þessu.

  

III

Í ljósi þess sem að framan er rakið er umfjöllun minni um mál umbjóðanda yðar hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég hef hins vegar ákveðið að rita yfirskattanefnd bréf það sem hjálagt er í ljósriti þar sem ég kem tilteknum ábendingum á framfæri.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson