Lífeyrismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Stjórnvaldsákvörðun.

(Mál nr. 10999/2021)

Kvartað var yfir að Lífeyrissjóður ríkisins (LSR) hefði synjað beiðni viðkomandi um að flytja lífeyrisréttindi sín í sjóðinn úr öðrum lífeyrissjóði.  

Með vísan til dóma Hæstaréttar taldi umboðsmaður að starfsemi LSR teldist almennt ekki til stjórnsýslu sem félli undir starfssvið sitt. Ákvörðun sjóðsins yrði ekki talin til stjórnvaldsákvörðunar sem sjóðunum hefði verið falið að taka í skjóli opinbers valds. Ekki væri því lagaskilyrði til að fjalla um málið á grundvelli kvörtunarinnar.  

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

 

Ég vísa til kvörtunar yðar 22. mars sl. yfir því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi 11. maí sl. synjað beiðni yðar frá 15. október 2019 um að flytja lífeyrisréttindi yðar í sjóðinn úr Lífeyrissjóði verkfræðinga, nú Lífsverk lífeyrissjóði.

Í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um hlutverk og starfssvið umboðsmanns. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá leiðir af 3. gr. laganna að starfssvið umboðsmanns tekur almennt aðeins til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sem og starfsemi einkaaðila að því marki sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort lögaðili sem kvörtun beinist að hafi með höndum „stjórnsýslu“ í skilningi laga um umboðsmann Alþingis og falli þar með undir starfssvið hans hefur að jafnaði verið litið til þess hvort sú starfsemi sem lögaðili hefur með höndum sé lögmælt svo og hvort sama aðila hafi verið komið á fót með lögum. Einnig hefur verið horft til þess hvort starfsemin sé rekin fyrir fjármuni sem greiddir eru úr ríkissjóði samkvæmt fjárveitingu í fjárlögum. Mat á því hvort lögaðili fari með „stjórnsýslu“ í þessum skilningi hefur að miklu leyti samstöðu með því hvort lögaðili telst stjórnvald í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ef lögaðili telst stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga telst sami aðili almennt jafnframt hafa með höndum stjórnsýslu samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis.

Um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins gilda samnefnd lög nr. 1/1997. Það hefur um árabil verið afstaða stjórnar lífeyrissjóðsins að sjóðurinn falli ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþings. Af hálfu umboðsmanns var framan af ekki fallist á þessa afstöðu, sbr. til dæmis álit hans frá 17. nóvember 1999 í máli nr. 2411/1998 þar sem meðal annars var litið til þess að honum hefði verið komið á fót með lögum og að réttindi sjóðsfélaga réðust af sérstökum ákvæðum í lögum nr. 1/1997 og samþykktum settum af stjórn sjóðsins.

Hæstiréttur Íslands hefur hins vegar lagt til grundvallar að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um ákvarðanir stjórnar lífeyrissjóðsins, sbr. dóm réttarins frá 31. janúar 2012 í máli nr. 3562/2012. Jafnframt hefur Hæstiréttur komist að niðurstöðu um að hvorki Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda né Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar séu stjórnvöld í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. dóma réttarins frá 29. október 2015 í máli nr. 115/2015 og 17. janúar 2008 í máli nr. 286/2007.

Með vísan til þess sem er rakið hér að framan tel ég að starfsemi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins teljist almennt ekki til „stjórnsýslu“ sem falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997. Þá verður ekki ráðið að sú ákvörðun sjóðsins sem kvörtun yðar beinist að sé „stjórnvaldsákvörðun“ sem lífeyrissjóðnum hafi verið falið að taka í skjóli opinbers valds.

Eins og atvikum er háttað í máli yðar og með vísan til þess sem er rakið hér að framan er því niðurstaða mín að ákvörðun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um að synja beiðni yðar falli utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997. Samkvæmt framansögðu brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað um málið á grundvelli kvörtunar yðar og lýk því athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson