Skattar og gjöld. Tollafgreiðsla.

(Mál nr. 10882/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun tollyfirvalda að stöðva tollafgreiðslu rafknúinna hlaupahjóla og umsögn Vinnueftirlitsins um að hjólin uppfylltu ekki skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að ákvörðun tollyfirvalda hefði verið kærð til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og erindinu þannig skotið til æðra stjórnvalds. Kæruleið hafði því ekki verið tæmd og þar með voru ekki skilyrði að lögum til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari meðferðar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 29. desember sl., þar sem þér kvartið yfir ákvörðun tollyfirvalda um að stöðva tollafgreiðslu rafknúinna hlaupahjóla frá Kína, framleiddum af fyrirtækin KIXIN&HX. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að umsögn Vinnueftirlits ríkisins um að innflutt vara yðar uppfylli ekki skilyrði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem að í meðfylgjandi samræmislýsingu komi ekki fram hvaða aðili, með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, hafi heimild til að taka saman tækniskjöl fyrir hjólin, sem var grundvöllur ákvörðunar tollyfirvalda.

Vegna kvörtunarinnar hafði starfsmaður skrifstofu umboðsmanns tvívegis samband við yður símleiðis 29. desember sl., þar sem óskað var eftir frekari gögnum og upplýsingum. Kom fram í símtali við yður að þau gögn sem þér byggjuð yfir hefðu fylgt kvörtuninni til umboðsmanns en að öðru leyti hefðu samskipti yðar við vinnueftirlitið og tollyfirvöld farið fram símleiðis.

Í tilefni af kvörtun yðar var vinnueftirlitinu því ritað bréf, dags. 9. febrúar sl., sem yður var kynnt með bréfi, dags. sama dag. Í bréfinu var óskað eftir upplýsingum um hvort mál yðar væri til meðferðar hjá stofnuninni og þá eftir atvikum hver staða þess væri, þ.á m. hvort fyrir lægi ákvörðun eða ákvarðanir í málinu. Jafnframt var óskað eftir að vinnueftirlitið sendi mér afrit af öllum gögnum málsins, m.a. sem stofnunin kynni að hafa skráð um samskipti við yður. Svar vinnueftirlitsins, auk afrits umbeðinna gagna, barst með bréfi, dags. 26. febrúar sl., sem fylgir hjálagt í ljósriti.

    

II

Í XVII. kafla tollalaga nr. 88/2005 er fjallað um stöðvun tollafgreiðslu. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laganna er kveðið á um að tollyfirvöld skuli stöðva tollafgreiðslu sendingar ef innflutningur vöru sem sending inniheldur er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem er ekki sýnt fram á að hafi verið fullnægt. Sama gildir ef innflutningur er háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað. Byggist ákvæðið á því að í eftirlitshlutverki tollyfirvalda felist að stöðva beri inn- og útflutning sem ekki fullnægir settum reglum. (Alþt. 2004-2005, A-deild, bls. 3607). Í 2. mgr. ákvæðisins er svo kveðið á um heimild til að kæra ákvörðun um stöðvun tollafgreiðslu til ráðuneytis tollamála, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem nú er fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Í 48. gr. laga nr. 46/1980 segir að óheimilt sé að setja á markað eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem fullnægja ekki reglum um öryggi og formskilyrðum, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar eða prófunarskýrslur, sem sett eru samkvæmt lögunum, sérreglum sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndum stöðlum er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er í 48. gr. a laganna kveðið á um að vinnueftirlitinu sé heimilt að banna markaðssetningu og notkun á þeim tegundum véla, tækja eða annars búnaðar sem fullnægja ekki ákvæðum laganna, annarra sérreglna sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Á grundvelli 2. mgr. 48. gr. laga nr. 46/1980 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað, sbr. tilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/42/EB, um vélarbúnað, um kröfur sem tegund véla, tækja eða annars búnaðar verður að uppfylla til að teljast örugg og þær aðferðir sem framleiðandinn getur beitt til að sýna fram á samræmi tegundar við settar reglur.

Í bréfi vinnueftirlitsins til mín frá 26. febrúar sl. kemur fram að í því skyni að tryggja reglubundið og skilvirkt markaðseftirlit með innflutningi á vörum sem þurfa CE-merkingar samkvæmt lögum nr. 46/1980 og reglugerðum settum með stoð í þeim hafi, á síðari hluta árs 2019, verið komið á samstarfi tollyfirvalda og vinnueftirlitsins. Í því felst að stöðva tollafgreiðslu vöru þegar innflutningur hennar er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt, sbr. fyrrnefnt ákvæði 130. gr. tollalaga. Er því umsögn vinnueftirlitsins liður í efnismeðferð tollyfirvalda til að upplýsa málið af hálfu þess og draga þannig fram þau málefnalegu sjónarmið sem skipta máli við úrlausn málsins, þ.e. hvort hin innflutta vara fullnægi skilyrðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla, í samræmi við hlutverk sitt samkvæmt 130. gr. tollalaga.

Enn fremur segir í bréfi vinnueftirlitsins að afstaða stofnunarinnar, sem Skatturinn var upplýstur um í aðdraganda ákvörðunar um stöðvun tollafgreiðslu á vöru yðar, væri sú að samræmisyfirlýsing sem fylgdi vörunum uppfyllti ekki skilyrði framangreindrar reglugerðar. Í bréfinu sagði eftirfarandi: 

„Starfsmaður Vinnueftirlitsins fór yfir umrædda samræmisyfirlýsingu og komst að þeirri niðurstöðu að hún uppfyllti ekki skilyrði 2. tölul. A liðar 1. hluta II. viðauka reglugerðar nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað, þar sem ekki kom fram nafn og heimilisfang þess einstaklings sem hefur heimild til að taka saman tækniskjölin en samkvæmt umræddu ákvæði þarf sá hinn sami að hafa staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Vinnueftirlitið upplýsti Skattinn um þá afstöðu sína sama dag og erindi þeirra barst Vinnueftirlitinu.“

Verður því ekki annað ráðið en að tollyfirvöld hafi í kjölfar umsagnar vinnueftirlitsins tekið ákvörðun um að stöðva tollafgreiðslu vöru yðar á grundvelli framangreindrar umsagnar vinnueftirlitsins, þ.e. að samræmisyfirlýsing vöru yðar uppfylli ekki skilyrði 2. tölul. A liðar 1. hluta II. viðauka reglugerðar nr. 1005/2009, þar sem ekki komi fram nafn og heimilisfang þess einstaklings sem hefur heimild til að taka saman tækniskjölin og hefur staðfestu innan Evrópska Efnahagssvæðisins. Hvað sem afstöðu vinnueftirlitsins líður var efnisleg meðferð málsins í höndum tollyfirvalda, sem tók ákvörðun á grundvelli 130. gr. tollalaga í samræmi við eftirlitshlutverk sitt, en umsögn vinnueftirlitsins var liður í meðferð þess.

  

III

Ástæða þess að ég rek framangreint er að kveðið er á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í 3. mgr. 6. gr. kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr hugsanlegum ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að ákvörðun tollyfirvalda hafi verið kærð til fjármála- og efnahagsráðuneytis í samræmi við framangreint ákvæði 2. mgr. 130. gr. tollalaga. Með vísan til framangreinds eru því ekki skilyrði að lögum til þess að mér sé unnt að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Fari svo að þér kærið ákvörðun tollyfirvalda, og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, er yður að sjálfssögðu heimilt að leita til mín að nýju með sérstaka kvörtun þess efnis. Ég tek þó fram að með framangreindri umfjöllun hef ég enga afstöðu tekið til efnis kvörtunar yðar.

  

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson