Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 10934/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni um endurupptöku máls er laut að synjun umsókna um atvinnuleysisbætur.  

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en Vinnumálastofnun hefði veitt viðkomandi tilhlýðilegar leiðbeiningar vegna upplýsinga sem vantaði til að unnt væri að afgreiða umsókn hans. Þau hefðu ekki borist og því hefði henni verið hafnað. Beiðni um endurupptöku hefði borist eftir að meira en ár var liðið frá ákvörðuninni og hafnaði Vinnumálastofnun því þeirri beiðni og úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti þá niðurstöðu. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 3. febrúar sl. vegna úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála frá 19. janúar sl. í máli nefndarinnar nr. 353/2020 þar sem staðfestar voru ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að synja beiðni yðar um endurupptöku máls er laut að synjun umsóknar yðar um atvinnuleysisbætur frá 26. febrúar 2019 og um að synja umsókn yðar um atvinnuleysisbætur frá 18. nóvember 2020. Fyrir liggur að upphaflega var úrskurðað í málinu 15. desember sl. en nefndin mun hafa endurupptekið málið eftir að beiðni yðar frá 31. desember sl. þar um barst henni.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér gerið athugasemdir við þá afstöðu Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndarinnar að miða gildistíma umsóknar yðar við árið 2020 en ekki árið 2018. Eftir því sem fram kemur í kvörtun yðar, og komið hefur fram í samskiptum yðar við skrifstofu umboðsmanns, bæði í tengslum við þá kvörtun yðar sem er hér til umfjöllunar og fyrri kvartana yðar sem hlutu málsnúmerin 10851/2020 og 10876/2020 í málaskrá umboðsmanns, teljið þér að þá afstöðu ofangreindra stjórnvalda megi rekja til þess að við afgreiðslu umsóknar yðar um atvinnuleysisbætur frá árinu 2019 hafi verið byggt á því að þér hefðuð verið sjálfstætt starfandi en ekki launamaður á vinnumarkaði. Þar sem réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta miðast almennt við þann dag sem Vinnumálastofnun tekur við umsókn um atvinnuleysisbætur laut umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um þennan þátt málsins að því hvort Vinnumálastofnun hefði átt að endurupptaka eldra mál yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefndinni ritað bréf, dags. 11. febrúar sl., þar sem óskað var eftir því að nefndin afhenti umboðsmanni afrit af öllum gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust umboðsmanni 19. febrúar sl.

  

II

Í III. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er mælt fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Á meðal þeirra skilyrða er að umsækjandi hafi verið launamaður á ávinnslutímabili, þ.e. síðustu 12 mánuðum áður en sótt er um atvinnuleysisbætur, sbr. e-liður 1. mgr. 13. gr. og 15. gr. laganna. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. skal launamaður sem sækir um atvinnuleysisbætur m.a. tilgreina starfstíma sinn hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili sem og starfshlutfall. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 16. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma í umsókn um atvinnuleysisbætur.

Í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. febrúar 2019, sem tilkynnt var yður með bréfi, dags. 26. sama mánaðar, kemur fram að umsókn yðar hafi verið hafnað sökum þess að þau gögn sem Vinnumálastofnun óskaði eftir að þér afhentuð vegna umsóknarinnar bárust stofnuninni ekki. Hafi stofnuninni því verið ófært að meta hvort umsókn yðar uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga, þ.m.t. ofangreind skilyrði um ávinnslu réttinda. Líkt og að ofan greinir synjaði Vinnumálastofnun beiðni yðar um að endurupptaka málið að þessu leyti með ákvörðun sinni frá 18. nóvember sl., sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda væri meira en ár liðið frá því að ákvörðunin lá fyrir og að þér hefðuð ekki sýnt fram á að aðstæður væru með þeim hætti að endurupptaka ætti málið. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar var líkt og að ofan greinir sú ákvörðun staðfest.

24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að þessu leyti kemur eftirfarandi fram: 

„Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. febrúar 2019, var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist. Beiðni kæranda um endurupptöku þeirrar ákvörðunar barst 17. júlí 2020 og því ljóst að meira en ár var liðið frá því að kæranda var tilkynnt um framangreinda synjun. Kemur því til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar varðandi gagnaskil vegna umsóknar um atvinnuleysisbætur á árinu 2018. Fyrir liggur að kæranda var í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. febrúar 2019 leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í sömu ákvörðun var kæranda einnig leiðbeint um að hann gæti óskað eftir endurupptöku málsins ef ákvörðun væri byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Ljóst er að kærandi hvorki kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar né óskaði eftir endurupptöku hjá Vinnumálastofnun á þeim tíma. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæla með endurupptöku ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 26. febrúar 2019.“

Á meðal þeirra gagna sem umboðsmanni hafa borist vegna málsins eru afrit af samskiptum Vinnumálastofnunar við yður í aðdraganda þess að ákvörðun um rétt yðar til atvinnuleysisbóta frá 26. febrúar 2019 var tekin. Af þeim verður ekki annað ráðið en að yður hafi verið leiðbeint um þau gögn sem vantaði, þ.e. staðfestingu vinnuveitanda á starfstímabili, og að stofnunin hafi bæði óskað eftir gögnunum frá vinnuveitanda yðar og leiðbeint yður um þær leiðir sem þér gætuð farið til þess að fá gögnin frá vinnuveitandanum ef hann yrði ekki við beiðnum yðar eða stofnunarinnar þar um. Þá verður ekki ráðið af ákvörðun stofnunarinnar eða samskiptum hennar við yður að við töku ákvörðunarinnar hafi verið gengið út frá því að þér hefðuð verið sjálfstætt starfandi áður en þér komuð umsókn yðar á framfæri. Í því sambandi tek ég fram að færsla í samskiptaskrá um að þér hafið verið verktaki hjá X ehf. árin 2017 og 2018 er frá 27. febrúar 2019 eða eftir að ákvörðun var tekin um að synja umsókn yðar. Þá liggur einnig fyrir, líkt og fram kemur í úrskurði nefndarinnar að í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. febrúar 2019 var yður leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar svo og möguleika yðar til þess að fá málið endurupptekið.

Að þessu gættu, svo og að virtum rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar varðandi ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurupptöku málsins, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við úrskurð nefndarinnar að þessu leyti. Þá tel ég einnig, með hliðsjón af því hvernig kvörtun yðar var sett fram og að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna málsins um störf yðar fyrir Y ehf., ekki ástæðu til að taka til nánari athugunar niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála þar að lútandi.

  

III

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson