Menningarmál. Aðild.

(Mál nr. 10951/2021)

Kvartað var ákvörðun Kópavogsbæjar um málefni Listasafns Kópavogsbæjar-Gerðarsafns og háttsemi starfsmanns hjá sveitarfélaginu.

Ekki voru uppfyllt skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um málið.

 

Settu umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, sem barst 18. febrúar sl., yfir ákvörðunum Kópavogsbæjar um málefni Listasafns Kópavogsbæjar-Gerðarsafns og háttsemi [...] hjá sveitar­félaginu. Af kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu verður ráðið að athugasemdir yðar beinist öðru fremur að því hvernig sveitarfélagið hefur staðið að rekstri safnsins, þar á meðal í samskiptum við yður sem [...].

Í ljósi þeirra atriða sem þér nefnið í kvörtun yðar bendi ég á að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um hlutverk hans og starfssvið sem hefur þýðingu þegar metið er hvort og með hvaða hætti hann getur tekið mál til skoðunar. Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Í samræmi við þetta er starfssvið umboðsmanns almennt afmarkað við að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga.

Þá er í sömu lögum mælt fyrir um að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. Í athugasemdum við þetta ákvæði í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 segir að stjórnvöld geti ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnum annarra stjórnvalda. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329.)

Af framangreindu leiðir að ekki er gert ráð fyrir að stjórnvöld, svo sem sveitarfélög eða einstakar stofnanir þeirra, geti leitað beint til umboðsmanns þegar um er að ræða innbyrðis ágreining milli þeirra og ágreiningsefnið varðar þá opinberu hagsmuni sem viðkomandi aðila er falið að sinna samkvæmt lögum. Ég tek þó fram að umboðsmaður hefur lagt til grundvallar að örðugleikar í samskiptum stofnana innan stjórnsýslukerfisins kunni að hafa þýðingu gagnvart þeim einstaklingum sem tengjast þeim þannig að þeir hafi nægjanlegra hagsmuna að gæta til að geta kvartað til umboðsmanns Alþingis, sbr. til hliðsjónar álit umboðs­manns frá 31. júlí 2013 í máli nr. 6211/2010, sem er birt á vefsíðu umboðs­manns. Ástæða þess að ég nefni framangreint er að ekki verður annað ráðið af kvörtuninni en að aðkoma yðar að málinu sé komin til vegna starfs yðar hjá safninu, sem er í eigu Kópavogsbæjar, og að þau atriði sem hún beinist að varði einkum þá opinberu hagsmuni sem tengjast hlutverki safnsins.

Ég bendi jafnframt á að samkvæmt 6. gr. safnalaga nr. 141/2011 fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin ná til. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir áður en kvartað sé til aðila sem stendur utan stjórnkerfis þeirra.

Í ljósi þess að hvaða atriðum kvörtun yðar beinist, og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, tel ég ekki rétt að umboðsmaður Alþingis taki kvörtun yðar til frekari athugunar fyrr en þér hafið freistað þess að bera athugasemdir yðar undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þess skal þó getið að ef þér leitið til ráðuneytisins með málið en verðið ósátt við afstöðu þess getið þér leitað til mín á ný og verður þá metið hvort skilyrði fyrir því að taka mál yðar til meðferðar séu uppfyllt, þar á meðal fyrrnefnt skilyrði samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson