Menntamál. Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 10461/2020)

Kvartað var yfir mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Menntamálastofnun vegna umsóknar fatlaðs nemanda um skólavist á starfsbraut í framhaldsskóla. Meðal annars að þegar auglýst hefði verið að almenn innritun væri opin, hefði ekki verið mögulegt að innrita fatlaða nemendur á starfsbrautir á innritunarsíðu Menntmálastofnunar.  

Eftir að málið kom til kasta umboðsmanns upplýsti viðkomandi að nemandinn hefði fengið skólavist á starfsbraut framhaldsskóla og hafið nám að hausti. Ekki var því tilefni til að umboðsmaður aðhefðist frekar hvað það snerti. Aftur á móti greindi hann frá því að hann hyggðist meta hvort tilefni væri til að taka innritun fatlaðra nemenda á starfsbrautir framhaldsskóla til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til fyrri bréfaskipta í tilefni af kvörtun yðar frá 17. mars 2020, fyrir hönd A, sem beindist að mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Menntamálastofnun og varðaði umsókn hans um skólavist á starfsbraut í framhaldsskóla. Í kvörtuninni gerðuð þér athugasemdir við að fatlaðir nemendur sætu ekki við sama borð og ófatlaðir nemendur þegar kæmi að innritun í framhaldsskóla. Tókuð þér meðal annars fram að í nóvember 2019, þegar auglýst var að almenn innritun í framhaldsskóla væri opin, hefði komið í ljós að ekki var mögulegt að innrita fatlaða nemendur á starfsbrautir á innritunarsíðu Menntamálstofnunar.

Í kvörtuninni var meðal annars byggt á því að innritun á starfsbraut fyrir fatlaða nemendur í framhaldsskóla væru einungis einu sinni á ári og þá aðeins á haustönn en ekki á vorönn. Fatlaðir nemendur gætu því ekki sótt um nám með sama hætti og aðrir nemendur og ekki væri tekin afstaða til umsókna þeirra sem óska eftir að hefja nám á vorönn.

Í tilefni af kvörtuninni var óskað eftir upplýsingum og skýringum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar sem þér hafið fengið afrit af framangreindum bréfaskiptum tel ég óþarft að rekja efni þeirra. Þá gafst yður færi á að leggja fram athugasemdir vegna bréfs ráðuneytisins fyrir 12. janúar sl. Athugasemdir bárust ekki.

Hinn 5. febrúar sl. upplýstuð þér í símtali við starfsmann skrifstofu umboðsmanns að A hefði fengið skólavist sl. haust til tveggja ára. Jafnframt kom fram að þér hygðust senda frekari gögn vegna málsins. Í samtali við sama starfsmann 26. febrúar sl. upplýstuð þér að umrædd gögn yrðu send á næstu dögum. Frekari gögn bárust ekki.

  

II

Í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framansögðu er að þér hafið upplýst að umsókn A um skólavist á starfsbraut í framhaldaskóla hafi verið samþykkt og hann hafið nám sl. haust. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar að því er varðar umsókn hans um námsvist í framhaldsskóla.

Að því leyti sem kvörtunin felur í sér ábendingar um fyrirkomulag við innritun fatlaðra nemenda á starfsbrautir í framhaldskóla hafa þær nú verið skráðar með það fyrir augum að unnt sé að meta hvort tilefni sé til að umboðsmaður taki þau atriði til athugunar á grundvelli þeirrar heimildar sem umboðsmanni er fengin í 5. gr. laga nr. 85/1997 til þess að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu.

Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur yrði tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is. Í því sambandi tel ég jafnframt rétt að upplýsa að umboðsmaður hefur átt bréfaskipti við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna málefna fatlaðra barna sem synjað var um skólavist í framhaldsskóla. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort komi til formlegrar athugunar vegna þessa á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Þótt í þeim tilvikum séu ekki uppi sömu aðstæður og fram koma í ábendingum yðar þá verður þeim engu að síður haldið til haga við almennt eftirlit með framkvæmd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Menntamálastofnunar á skráningu fatlaðra nemenda í framhaldsskóla.

  

III

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður  settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson