Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 10955/2021)

Kvartað var yfir barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar. Meðal annars vegna beiðni um upplýsingar í barnaverndarmáli er varðaði dóttur viðkomandi.  

Samkvæmt upplýsingum sem viðkomandi veitti umboðsmanni hafði honum verið tjáð af starfsmanni barnaverndarnefndarinnar að beiðnin væri í vinnslu og hann yrði í framhaldinu boðaður á fund. Með hliðsjón af því og atvikum máls taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunarinnar. Hvað beiðni um aðrar upplýsingar snerti benti umboðsmaður á að þótt frestur til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar til úrskurðarnefndar upplýsingamála væri liðinn mætti freista þess að gera slíkt. Kæru skuli vísa frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt sé talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með að hún verði tekin til meðferðar

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

 

I

Ég vísa til erindis yðar, dags. 21. febrúar sl., sem beinist að barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti annars vegar að beiðni yðar um upplýsingar í barnaverndarmáli er varða dóttur yðar, sem nú er uppkomin, og hins vegar dvöl fyrrverandi eiginkonu yðar, sem nú er látin, í Arnarholti. Nánar tiltekið á hvaða forsendum hún hafi verið send í Arnarholt og hve lengi hún dvaldist á stofnuninni.

Á fundi með starfsmanni skrifstofu umboðsmanns 25. febrúar sl. lögðuð þér fram bréf velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dags. 8. desember sl. Þar kemur fram að ekki sé unnt að veita yður upplýsingar um dvöl fyrrverandi eiginkonu yðar í Arnarholti þar sem þér teljist ekki aðili máls samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í símtali við starfsmann skrifstofu umboðsmanns 11. mars sl. upplýstuð þér jafnframt að starfsmaður hjá barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hefði tjáð yður að beiðni yðar um gögn væri í vinnslu og þér yrðuð í framhaldinu boðaður á fund.

  

II

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Af ákvæðinu leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar. Á grundvelli þessa hef ég litið svo á að ekki sé heimilt að taka mál til meðferðar vegna kvörtunar þegar fyrir liggur að sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að hann hafi nýtt sér þá heimild.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að um aðgang almennings að fyrirliggjandi gögnum hjá stjórnvöldum gilda ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd upplýsingamála sem úrskurðar um ágreininginn. Kærufrestur er 30 dagar frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.

Þar sem mér er ljóst að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er liðinn bendi ég á 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem fjallað er um réttaráhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Samkvæmt 1. mgr. skal kæru vísað frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. Í skýringum að baki ákvæðinu eru sem dæmi nefnd tilvik þegar lægra sett stjórnvald hefur vanrækt að leiðbeina um kæruheimild samkvæmt 20. gr. laganna. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hver ættu að vera viðbrögð nefndarinnar við slíkri beiðni.

  

III

Af því leyti sem kvörtunin beinist að beiðni yðar um gögn í barnaverndarmáli vegna dóttur yðar, sem nú er uppkomin, þá verður ekki annað ráðið en að kvörtunin lúti að sama álitaefni og umboðsmaður Alþingis hefur áður fjallað um, sbr. til dæmis erindi yðar frá 9. nóvember 2009 sem hlaut málsnúmerið 5829/2009 í málaskrá skrifstofu umboðsmanns. Lauk umboðsmaður athugun sinni á erindinu með bréfi, dags. 12. maí 2010. Þar kom meðal annars fram að þér hefðuð fengið afrit af öllum gögnum er varðar dóttur yðar í málum sem þér áttu aðild að, sbr. bréf Barnaverndarstofu til yðar, dags. 24. júní 2009. Í því máli taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu Barnaverndarstofu.

Auk þess vísa ég til bréfs umboðsmanns Alþingis frá 28. september 2011 í máli sem hlaut málsnúmer 6473/2011 í málaskrá skrifstofu umboðsmanns. Í því máli taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við afstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að um væri að ræða gögn um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt fari, sbr. áður 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, nú 9. gr. laga nr. 140/2012.

Einnig hafið þér upplýst í símtali við starfsmann skrifstofu umboðsmanns að yður hafi verið tilkynnt af starfsmanni barnaverndarnefndar að unnið væri að því að afla gagna vegna beiðni yðar. Í framhaldinu yrðuð þér boðaður til fundar hjá nefndinni. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar þennan þátt kvörtunarinnar.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson