Félög. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10971/2021)

Kvartað var yfir að umsókn íþróttafélags um aðild að íþróttabandalagi Reykjavíkur hefði ekki verið afgreidd.  

Þótt íþróttafélög og samtök þeirra njóti styrkja frá opinberum aðilum ber stofnun þeirra og starfsemi ekki einkenni stjórnvalda í skilningi stjórnsýsluréttar. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

 

Ég vísa til erindis yðar frá 7. mars sl. þar sem þér kvartið fyrir hönd A íþróttafélags yfir að umsókn A frá ágúst 2019 um aðild að Íþróttabandalagi Reykjavíkur hafi enn ekki verið afgreidd. Í kvörtuninni er gerð grein fyrir samskiptum yðar við bæði Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vegna umsóknarinnar og þar kemur fram meðal annars fram að skriflegum fyrirspurnum yðar um stöðu málsins hafi ekki verið svarað um nokkurt skeið.

Í 2. mgr. 5. gr. íþróttalaga nr. 64/1998 segir að Íþrótta og Ólympíusamband Íslands sé æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og í erlendum samskiptum íþróttahreyfingarinnar. Í 6. gr. sömu laga kemur fram að landið skiptist í íþróttahéruð og að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt Ungmennafélagi Íslands annist skiptingu og breytingu á íþróttahéruðum.

Í samræmi við þetta kemur fram í 2. gr. laga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands að það sé landssamband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérsambanda. Á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru upplýsingar um skiptingu landsins í 25 íþróttahéruð sem ýmist eru mynduð úr staðbundnu héraðssambandi eða íþróttabandalagi. Eitt þeirra er Íþróttabandalag Reykjavíkur. Á heimasíðu þess félags segir að Íþróttabandalag Reykjavíkur séu samtök íþróttafélaganna í Reykjavík.

Þótt íþróttafélög og samtök þeirra njóti styrkja frá opinberum aðilum ber stofnun þeirra og starfsemi ekki einkenni stjórnvalda í skilningi stjórnsýsluréttar. Samningar milli Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur um margþætt samstarf eru því gerðir á einkaréttarlegum grunni.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Hvorki Íþróttabandalag Reykjavíkur né Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands teljast til stjórnvalda í skilningi stjórnsýsluréttar, sbr. umfjöllun hér að framan. Af þeim ástæðum falla þau utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi framangreinds er mér ekki heimilt að taka kvörtun yðar til frekari athugunar og lýk ég því hér með umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður hefur farið með þetta mál sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson