Skattar og gjöld.

(Mál nr. 10973/2021)

Kvartað var yfir að Reykjavíkurborg hefði hafnað beiðni um að greiða viðkomandi 250.000 kr. vegna ónæðis sem hann hefði orðið fyrir vegna stöðubrotsgjalds sem borgin hafði endurgreitt.

Umboðsmaður benti á að almennt væri ekki gert ráð fyrir því að hann tæki ekki afstöðu til bótaskyldu eða fjárhæðar bóta. Af hálfu hans hefði því almennt verið farin sú leið að ljúka málum þar sem uppi væru álitamál um skaðabótaskyldu stjórnvalda með vísan til þess að þar sé um að ræða ágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr. Það ætti við í þessu máli.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 8. mars sl., sem lýtur að því að Reykjavíkurborg hafi hafnað að greiða yður 250.000 kr. vegna þess ónæðis sem þér urðuð fyrir vegna stöðubrotagjalds sem var lagt á yður en síðar endurgreitt þar sem gjaldskrá á grundvelli umferðarlaga nr. 77/2019 hafði ekki verið auglýst. 

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns Alþings með kvörtun í tengslum við álagningu gjaldsins (mál nr. 10679/2020 í málaskrá umboðsmanns) en ég lauk athugun á þeirri kvörtun með bréfi til yðar, dags. 23. febrúar sl. Í bréfinu kom m.a. fram að ég teldi ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins í ljósi þess að þér hefðuð fengið gjaldið endurgreitt.

Kvörtun yðar nú lýtur að því að borgin hafi hafnað að greiða yður „fégjald“ vegna málsins. Af þeim sökum tek ég fram að í íslenskum rétti hefur verið talið að aðili stjórnsýslumáls verði sjálfur að bera þann kostnað sem hann hefur haft af rekstri máls fyrir stjórnvöldum. Aðili málsins eigi því aðeins lögvarða kröfu til að fá slíkan kostnað endurgreiddan frá stjórn­völdum, í heild eða að hluta, að sérstök lagaheimild standi til þess eða greiðsluskyldan verði byggð á öðrum lagagrundvelli, svo sem skaða­bótareglum.

Að því marki sem krafa yður um greiðslu fégjalds byggist á reglum skaðabótaréttar bendi ég yður á að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er almennt ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki afstöðu til bótaskyldu eða fjárhæðar bóta. Kemur þar meðal annars til að við úrlausn um bótaskyldu og fjárhæð skaðabóta getur skipt máli að taka og leggja mat á sönnunargildi skýrslna sem aðilar og þeir sem komu að máli fyrir hönd stjórnvalds gefa. Þá geta önnur sönnunargögn og mat á sönnunargildi þeirra einnig skipt máli. Ef bótaréttur verður talinn vera fyrir hendi kann einnig að reyna á öflun og vandasamt mat sönnunargagna um tjón og fjárhæð þess.

Aðstaða umboðsmanns Alþingis og dómstóla til að taka slíkar skýrslur og framkvæma umrætt sönnunarmat er ólík. Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur því almennt verið farin sú leið að ljúka málum þar sem uppi eru álitamál um skaðabótaskyldu stjórnvalda með vísan til þess að þar sé um að ræða ágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með vísan til þessa tel ég að það álitamál hvort þér eigið rétt á skaðabótum úr hendi Reykjavíkurborgar sé þess eðlis að úr því verði að leysa fyrir dómstólum. Með þessu hef ég þó að sjálfsögðu ekki tekið neina afstöðu til þess hvort slík málssókn væri líkleg til árangurs.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.   

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson