Skattar og gjöld. Tvísköttun.

(Mál nr. 10974/2021)

Kvartað var yfir álagningu opinberra gjalda vegna vaxtatekna af hlutdeildarskírteinum. Viðkomandi hefði verið búin að greiða erfðafjárskatt af verðmæti skírteinanna miðað við dánardag föður og þannig verið tvísköttuð.

Með hliðsjón af rökstuðningi yfirskattanefndar og með vísan hennar til þess að niðurstaðan samrýmdist langri skatt- og úrskurðarframkvæmd um skattalega meðferð hagnarð af sölu eigna sem seljandi hafi eignast við arftöku fékk umboðsmaður ekki séð að tilefni væri til að gera athugasemdir. Hvað endurkröfu stjórnvalda snerti benti umboðsmaður á að viðkomandi kynni að vera fært að sækja um að þær yrðu felldar niður eða semja um greiðsludreifingu vegna fjárhagslegra eða félagslegra aðstæðna sinna.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 9. mars sl. fyrir hönd A yfir álagningu opinberra gjalda árið 2020 vegna vaxtatekna af hlutdeildarskírteinum frá því að faðir hennar keypti þau þar til hún innleysti þau á árinu 2019. Í kvörtuninni er rökstutt að þar sem hún hafi þegar verið búin að greiða erfðafjárskatt af verðmæti skírteinanna miðað við dánardag föður hennar á árinu 2018 þegar hún erfði þau hafi hún verið tvísköttuð. Telur A að hún hafi aðeins átt að greiða tekjuskatt vegna vaxtatekna af skírteinunum sem féllu til frá því að hún erfði þau þar til hún innleysti skírteinin, enda hafi hún aðeins haft tekjur af þeim vöxtum af skírteinunum en ekki þeim sem hafi fallið til áður en hún eignaðist þau.

Samkvæmt gögnum málsins kærði A álagninguna til yfirskattanefndar sem kvað upp úrskurð í málinu 10. febrúar sl. Áður en lengra er haldið tel ég rétt að láta þess getið að samkvæmt lögum nr. 85/1997 er hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. mgr. 6. gr. sömu laga er mælt fyrir um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu.

Af þessum ákvæðum leiðir að þegar unnt er að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds beinist athugun umboðsmanns Alþingis einkum að úrskurði þess og þá hvort það hafi leyst réttilega úr málinu, þar með talið í ljósi þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við meðferð málsins á lægri stigum stjórnsýslunnar. Samkvæmt þessu lýtur athugun mín í tilefni af kvörtun A að fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar. Með úrskurðinum hafnaði yfirskattanefnd kröfum A í málinu á grundvelli þess rökstuðnings sem þar kemur fram.

Um erfðafjárskatt er fjallað í samnefndum lögum nr. 14/2004. Eins og ráðið verður af lögunum og athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim er almennt gengið út frá því að erfðafjárskattur sé skattur sem komi til viðbótar tekjuskatti. (Sjá til dæmis Alþt. 2003-2004, A-deild, bls. 2526.) Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna skal greiða skatt í ríkissjóð eftir lögunum af öllum fjárverðmætum er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er mælt fyrir um að skattstofn erfðafjárskatts sé heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr.

Í 1. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að eignaauki vegna arftöku teljist ekki til tekna í skilningi laganna, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur. Samkvæmt þessu ákvæði greiddi A ekki bæði erfðafjárskatt og tekjuskatt þegar henni hlotnuðust tekjur er hún erfði föður sinn.

Á hinn bóginn liggur fyrir að hún innleysti umrædd hlutdeildarskírteini á árinu 2019 og var því skylt samkvæmt lögum nr. 90/2003 að greiða skatt af þeim vaxtatekjum sem henni hlotnuðust af því tilefni. Í úrskurði yfirskattanefndar er rökstutt að skattleggja beri vaxtatekjurnar að öllu leyti hjá A enda hafi vextirnir fyrst orðið greiðslukræfir þegar hún innleysti hlutdeildarskírteinin 4. desember 2019. Í úrskurðinum er jafnframt rakið að þessi niðurstaða samrýmist langri skatt- og úrskurðarframkvæmd um skattalega meðferð hagnaðar af sölu eigna sem seljandi hafi eignast fyrir arftöku. Ég fæ ekki séð að tilefni sé til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu eins og hún er rökstudd í úrskurði nefndarinnar og þeim úrskurðum sem hún vísar til.

Í kvörtuninni er fjallað um áhrif þess að umræddar vaxtatekjur hafi verið skattlagðar sem tekjur A á greiðslur stjórnvalda til hennar. Í tilefni af þeirri umfjöllun tel ég rétt að benda á að A getur freistað þess að leita endurskoðunar á ákvörðunum þessara stjórnvalda, eins og henni var leiðbeint um í bréfum þeirra til hennar, dags. 22. maí og 22. júní sl. Enn fremur bendi ég á að A kann að vera fært að sækja um að þessar endurkröfur stjórnvalda verði felldar niður eða semja um greiðsludreifingu vegna fjárhagslegra eða félagslegra aðstæðna sinna. Ég tek fram að með framangreindu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort A eigi í ljósi aðstæðna sinna rétt á að endurkröfur verði felldar niður eða að samið verði um greiðsludreifingu þeirra.

Með vísan til þess sem er rakið að framan tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við úrskurð yfirskattanefndar í máli A frá 10. febrúar sl. Ég læt því athugun minni á kvörtuninni lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson