Fullnustugerðir og skuldaskil. Gjaldþrotaskipti. Stjórnsýslulög. Stjórnsýslukæra. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10813/2020)

Kvartað var yfir úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem synjaði kröfu um að felld yrði úr gildi sú ákvörðun Skattsins að synja beiðni um að afturkalla kröfu um að bú yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  

Þótt fjármála- og efnahagsráðuneytið fari með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart Skattinum og geti á þeim grundvelli fjallað um stjórnsýslu stjórnvaldsins fékk umboðsmaður ekki séð að ráðuneytið hefði haft heimild til að fjalla um málið á grundvelli stjórnsýslukæru. Ágreining um kröfu um gjaldþrotaskipti verði að leysa fyrir dómstólum. Það falli ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um hvort stjórnvöld hafi haft forsendur fyrir því að setja fram kröfu um gjaldþrotaskipti.

Kvörtunin gaf umboðsmanni tilefni til að rita ráðuneytinu bréf með ábendingu um að gæta framvegis að því að úrskurðir þess uppfylli þær form- og efniskröfur sem gerðar séu til úrskurða æðri stjórnvalda.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. mars 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar 17. nóvember sl. fyrir hönd A ehf. yfir úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sama dag. Með úrskurðinum synjaði ráðuneytið kröfu um að felld yrði úr gildi sú ákvörðun Skattsins að synja beiðni um að afturkalla kröfu um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Nú liggur fyrir að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 2. desember sl. Aftur á móti hafið þér lagt fram umboð skiptastjóra þrotabúsins, dags. 13. janúar sl., og fyrrum hluthafa félagsins, dags. sama dag, yður til handa til að fylgja eftir kvörtuninni.

Í tilefni af henni hafa ráðuneytinu verið rituð bréf 9. og 26. febrúar sl., sem það hefur svarað með bréfum 19. sama mánaðar og 5. mars sl. Í síðarnefnda bréfi ráðuneytisins kemur fram að stjórnsýslukæra A ehf. hafi verið tekin til meðferðar af þess hálfu á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Þá segir að kærunni hafi ekki verið vísað frá samkvæmt 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga þar sem ráðuneytið hafi talið málið varða slíka hagsmuni að brýnt hafi verið að taka það til meðferðar. Málið hafi enda varðað ákvörðun um hvort falla ætti frá kröfu um gjaldþrotaskipti og um jafnræði og verklagsreglur þar um.

Um kröfu um gjaldþrotaskipti og afturköllun hennar er fjallað í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. XI. kafla þeirra. Í 4. mgr. 70. gr. laganna er mælt fyrir um að ef skuldari sækir þing og mótmælir kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta skuli farið með hana eftir ákvæðum 168. gr. laganna. Í 1. mgr. þess ákvæðis er kveðið á um að ef mótmæli komi fram á dómþingi af hálfu skuldara við kröfu lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 4. mgr. 70. gr., skuli héraðsdómari þegar í stað þingfesta mál án undangenginna tilkynninga, þar sem leyst verði úr ágreiningnum.

Í ljósi framangreinds féll fyrrnefnd ákvörðun ríkisskattstjóra ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda gilda lögin ekki um gjaldþrotaskipti, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Af þeim sökum fæ ég ekki séð að heimilt hafi verið að kæra ákvörðunina til fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 26. gr. laganna eða 5. gr. laga nr. 150/2019. Um síðarnefnda ákvæðið bendi ég á að í því felst aðeins árétting á kæruheimild stjórnsýslulaga, eins og orðalag þess ber með sér og leiðir af athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 150/2019. (Sjá þskj. 355 á 150. löggj.þ. 2019-2020, bls. 23.) Þótt fjármála- og efnahagsráðuneytið fari með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart Skattinum og geti á þeim grundvelli fjallað um stjórnsýslu stjórnvaldsins, sbr. IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, fæ ég ekki séð að ráðuneytið hafi haft heimild til að fjalla um málið á grundvelli stjórnsýslukæru, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 24. september 2009 í máli nr. 24/2009.

Sem fyrr greinir er gert ráð fyrir að um ágreining um kröfu um gjaldþrotaskipti fari eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 og að úr honum verði leyst fyrir dómstólum. Af því tilefni bendi ég á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla, sbr. c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Það fellur því ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um hvort stjórnvöld hafi haft forsendur fyrir því að setja fram kröfu um gjaldþrotaskipti.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég vek þó athygli á að kvörtun yðar hefur orðið mér tilefni til að rita fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf það sem hér fylgir í ljósriti. Þær athugasemdir sem þar koma fram eru þó ekki þess eðlis að þær breyti niðurstöðu minni.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

 

 


   

Bréf umboðsmanns til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 19. mars 2021, hljóðar svo:

  

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar B lögmanns fyrir hönd A ehf. yfir úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins 17. nóvember sl. Með úrskurðinum synjaði ráðuneytið kröfu um að felld yrði úr gildi sú ákvörðun Skattsins að synja beiðni um að afturkalla kröfu um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Eins og kemur fram í bréfi mínu til B, sem fylgir hér í ljósriti, hef ég ákveðið að fjalla ekki frekar um kvörtun hans, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri og þá með það í huga að hún verði framvegis höfð í huga við meðferð mála hjá ráðuneytinu.

Svo sem kemur fram í bréfi mínu til B fæ ég ekki séð að ráðuneytinu hafi verið heimilt að fjalla um málið á grundvelli stjórnsýslukæru. Samt sem áður liggur fyrir að ráðuneytið fjallaði um málið og kvað upp úrskurð 17. nóvember sl.

Það hefur einnig vakið athygli mína að ekki verður séð að úrskurðurinn samræmist fyllilega þeim kröfum sem eru gerðar um form og efni úrskurða í kærumáli, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga. Meðal þess sem hér má nefna er að í 4. tölul. ákvæðisins er kveðið á um að rökstuðningur fyrir niðurstöðu máls samkvæmt 22. gr. sömu laga skuli koma fram á stuttan og glöggan hátt í úrskurði æðra stjórnvalds.

Í athugasemdum við 31. gr. í greinargerð með frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum segir meðal annars að gengið sé út frá því að gerðar verði meiri kröfur til þess að rökstuðningur í kærumálum verði skýrari og ítarlegri en í málum á fyrsta stjórnsýslustigi. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3310.)

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og í ljósi þess hvernig úrskurðurinn í þessu máli var úr garði gerður tel ég ástæðu til að beina því til ráðuneytisins að gæta þess framvegis að úrskurðir þess uppfylli þær form- og efniskröfur sem gerðar eru til úrskurða æðri stjórnvalda.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson