Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 10679/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun um álagningu stöðubrotsgjalds

Samkvæmt svörum frá Reykjavíkurborg hafði gjaldið verið endurgreitt og lét því umboðsmaður athugun sinni lokið.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 25. ágúst 2020, sem lýtur að ákvörðun um álagningu stöðubrotsgjalds, dags. 21. ágúst 2020, vegna bifreiðarinnar [...] sem þér lögðuð í merkt stæði við Vatnsstíg. Í því sambandi tek ég fram að að virtum þeim atvikum sem liggja til grundvallar kvörtun yðar og þeim hagsmunum sem þér hafið af úrlausn málsins hefur athugun mín ekki beinst að heimild Reykjavíkurborgar til að loka Vatnsstíg tímabundið fyrir umferð.

Í tilefni af kvörtun yðar var borgarlögmanni ritað bréf, dags. 11. september 2020, þar sem óskað var eftir, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að öll gögn málsins yrðu send og að veittar yrðu upplýsingar um og skýringar á nánar tilteknum atriðum. Gögn málsins og svör bárust 20. október 2020. Bárust athugasemdir yðar með bréfi, dags. 2. nóvember 2020.

Frekari skýringa var óskað af hálfu Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 22. janúar sl. Með vísan til fréttaumfjöllunar fjölmiðla í janúar sl. um að til stæði að Bílastæðasjóður endurgreiddi stöðubrotagjöld sem lögð voru á frá 1. janúar til 24. september 2020 í ljósi þess að gjaldskrá á grundvelli umferðarlaga nr. 77/2019 hafði ekki verið auglýst var meðal annars óskað eftir upplýsingum um hvort gjaldið sem þér greidduð hefði verið fellt niður og það endurgreitt með dráttarvöxtum. Samkvæmt svörum borgarinnar sem bárust með bréfi, dags. 10. febrúar sl., var yður endurgreitt gjaldið þann 22. desember 2020.  

Í ljósi þess að yður hefur verið endurgreidd umrædd sekt tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins og læt athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson