Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 10827/2020)

Kvartað var yfir velferðarsviði Reykjavíkurborgar og þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða vegna synjana á umsóknum um félagsþjónustu. 

Í svörum borgarinnar kom fram að bæði hefði ákvörðun hennar verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem væri nú með málið til meðferðar og viðkomandi hefði lagt fram nýja umsókn um félagslegt húsnæði. Þar sem þetta var til meðferðar hjá stjórnvöldum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um þessa þætti að svo stöddu. Sama gilti um umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning þar sem fram kom að umsókn um hann hefði verið samþykkt greiðsla innt af hendi. Hvað umsókn um styrk vegna húsbúnaðar snerti hafði engin slík verið lögð fram formlega.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 24. nóvember 2020, sem beindist að velferðarsviði Reykjavíkurborgar og þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Ég legg þann skilning í kvörtun yðar að þér séuð ósáttir við að umsóknum yðar um félagsþjónustu, nánar tiltekið félagslegt leiguhúsnæði, sérstakan húsnæðisstuðning og húsgagnastyrk, hafi verið synjað. Af kvörtuninni var ekki að fullu ljóst hvort úrskurðarnefnd velferðarmála hefði úrskurðað í málinu vegna umsóknar yðar um sérstakan húsnæðisstuðning og einnig hvort þér hefðuð borið synjun um félagslegt húsnæði undir úrskurðarnefnd velferðarmála.

Í tilefni af framangreindu var yður sendur tölvupóstur, dags. 25. nóvember 2020, þar sem óskað var frekari upplýsinga og gagna. Enn fremur var Reykjavíkurborg ritað bréf, dags. 30. desember 2020, þar sem óskað var eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að borgin veitti upplýsingar og gögn um þær umsóknir og beiðnir sem þér hafið lagt fram um fjárhagsaðstoð og félagslegt húsnæði. Bárust svör frá borginni 19. janúar sl. 

  

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að af gögnum málsins og svörum Reykjavíkurborgar til mín má ráða að umsókn yðar um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið synjað 16. október 2020 og að sú synjun hafi verið staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 4. nóvember s.á. Hafið þér í kjölfarið kært synjunina til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi málið enn til meðferðar. Þá er einnig tekið fram í svörum borgarinnar að þér hafið lagt fram nýja umsókn um félagslegt leiguhúsnæði, dags. 21. desember 2020, sem sé óundirrituð og bíði meðferðar. Í ljósi þessa og þess að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, gera ekki ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eru ekki skilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Rétt er að taka fram að þér getið að fenginni endanlegri niðurstöðu stjórnvalda leitað til mín á ný ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.  

Hvað varðar kvörtun yðar yfir því að umsókn yðar um sérstakan húsnæðisstuðning hafi verið synjað er rétt að taka fram að meðal gagna sem fylgdu kvörtuninni var afrit af samþykkt þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða á umsókn yðar um sérstakan húsnæðisstuðning, dags. 22. október 2020. Þá kom jafnframt fram í svörum Reykjavíkurborgar til mín að fallist hefði verið á beiðni yðar um að greiðsla húsnæðisstuðnings myndi miða við umsóknardag fyrstu umsóknar yðar um stuðninginn, nánar tiltekið 12. desember 2019. Var sú greiðsla innt af hendi 9. desember 2020 samkvæmt upplýsingum frá borginni. Í ljósi þess að umsókn yðar um sérstakan húsnæðisstuðning hefur verið samþykkt tel ég ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þann þátt kvörtunarinnar.

  

2

Að síðustu er rétt að taka fram í tilefni af athugasemd yðar um að yður hafi verið neitað um styrk vegna húsbúnaðar að af gögnum málsins og svörum borgarinnar til mín má ráða að þér hafið sent kvittanir frá [...] til þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða með tölvupósti, dags. 23. nóvember 2020. Með vísan til 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar, með síðari breytingum, voruð þér upplýstir um að þér ættuð ekki rétt á styrknum í ljósi þess að þér uppfyllið ekki skilyrði reglnanna. Samkvæmt því sem fram kemur í svörum Reykjavíkurborgar óskaði starfsmaður borgarinnar eftir frekari upplýsingum frá yður á hvaða grundvelli þér væruð að óska eftir styrknum svo hægt væri að leiðbeina yður nánar. Engin frekari svör bárust frá yður og í ljósi þess að formleg umsókn hafði ekki verið undirrituð hafi málið fallið niður.   

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að í 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, með síðari breytingum, er kveðið á um þau skilyrði sem aðili þarf að uppfylla til að fá styrk til kaupa á húsbúnaði. Þar segir meðal annars að fjárhagsaðstoð sé heimil til einstaklings sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum sem sé eignalaus og sé að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun, sbr. a-lið 1. mgr. 19. gr. reglnanna.

Þá segir í b- og c-liðum 1. mgr. reglnanna að styrkur vegna húsbúnaðar sé greiddur til einstaklinga á aldrinum 18 til 24 sem séu að stofna heimili í fyrsta sinn og að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum sem og þegar rýma þurfi íbúð af heilbrigðisástæðum. Að síðustu er kveðið á um í d-lið 1. mgr. 19. gr. reglnanna að einstaklingur sem á í félagslegum erfiðleikum og þarf aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum geti hlotið styrk til kaupa á slíku svo lengi sem hann hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum síðastliðna 3 mánuði.

Ef þér teljið að þér eigið rétt á styrk vegna húsbúnaðar á grundvelli framangreindra reglna getið þér freistað þess að leggja fram formlega umsókn hjá þjónustumiðstöð yðar eða með rafrænum hætti á vefsíðu Reykjavíkurborgar, sbr. 8. gr. reglnanna.

Í tilefni af framangreindu tel ég einnig rétt að benda yður á að í 1. mgr. 34. gr. reglnanna segir að starfsmenn þjónustumiðstöðva taki ákvarðanir samkvæmt reglunum en í 2. mgr. 34. gr. kemur hins vegar fram að áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi heimild til að veita undanþágu frá þeim að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.e. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og umsækjandi fer fram á það með sérstakri beiðni og greinargerð frá þjónustumiðstöð liggur fyrir. Í 35. gr. er kveðið á um að starfsmenn þjónustumiðstöðva sem hafi umboð til að taka ákvarðanir um fjárhagsaðstoð skuli kynna umsækjanda rétt hans til að fara fram á að velferðarráð Reykjavíkurborgar fjalli um umsóknina. Umsækjandi hefur fjögurra vikna frest til að vísa máli til velferðarráðs, eftir að honum berst vitneskja um ákvörðun. Samkvæmt 36. gr. getur umsækjandi skotið ákvörðun velferðarráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að honum barst vitneskja um ákvörðun velferðarráðs.

Að fenginni endanlegri niðurstöðu stjórnvalda getið leitað til mín á ný ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.  

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson