Tolleftirlit.

(Mál nr. 10859/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun tollyfirvalda um að stöðva tollafgreiðslu vörusendingar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti. Ástæða stöðvunarinnar var að CE-merkingar skorti.

Með hliðsjón af því sem lá fyrir taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka niðurstöðu stjórnvalda til nánari athugunar. Við athugun sína staðnæmdist hann þó við nokkur atriði í tengslum við stjórnsýslu og málsmeðferð tollyfirvalda vegna málsins en að gættum þeim umbótum sem gerðar höfðu verið á verklagi taldi hann ekki tilefni til að fjalla nánar um þau.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar sem þér hafið komið á framfæri f.h. A, og lýtur að ákvörðun tollyfir­valda frá 5. maí 2020 um stöðvun á tollafgreiðslu vörusendingar, sem A hafði í hyggju að flytja til landsins, á grundvelli 1. mgr. 130. gr. tollalaga nr. 88/2005. Með úrskurði sínum frá 23. nóvember 2020 staðfesti fjármála- og efnahagsráðuneytið þá ákvörðun toll­yfirvalda.

Ástæða þess að tollafgreiðsla sendingarinnar var stöðvuð var sú að vörurnar skorti CE-merkingar en í henni voru rafknúnir leikfangabílar ásamt fjarstýringum. Auk þess verður ráðið af úrskurði ráðuneytisins og öðrum gögnum málsins að litið hafi verið svo á að leikföngin uppfylltu ekki þær kröfur um öryggi sem leiddar verða af ákvæðum III. kafla reglugerðar nr. 944/2014, um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu, en að því leyti liggur fyrir umsögn Neytenda­stofu, sbr. nánar síðar. Af gögnum málsins verður ráðið að tollyfirvöld hafi synjað endanlega um tollafgreiðslu sendingarinnar 5. maí 2020., eins og fram kemur í tölvupósti lögfræðings á skrifstofu tollgæslustjóra hjá Skattinum frá þeim degi til yðar.

Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við ofangreinda ákvörðun toll­yfirvalda og úrskurð ráðuneytisins, málsmeðferð Neytendastofu og samskipti stofnunarinnar við yður og forsvarsmenn A og úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála vegna málsins, sbr. nánar síðar. Lúta þær athugasemdir einkum að því að tollyfirvöld og Neytendastofa hafi ekki veitt fullnægjandi leiðbeiningar og upplýsingar í tengslum við mögulegar úrbætur, svo sem með framlagningu gagna um búnað leik­fanga­bílanna, sem A gæti gert í því skyni að greiða fyrir tollafgreiðslu sendingarinnar. Auk þess verður ráðið að þér teljið ákvörðun tollyfirvalda um að stöðva tollafgreiðslu sendingarinnar hafa brotið í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í tilefni af kvörtuninni var fjármála- og efnahagsráðuneytinu ritað bréf, dags. 7. janúar sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið afhenti afrit af öllum gögnum málsins auk þess sem veittar yrðu upp­lýsingar um verklag tollyfirvalda við þær aðstæður þegar grunur vaknar um að vörusending fullnægi ekki skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórn­valds­fyrirmælum og til greina kemur að stöðva tollafgreiðslu hennar á grund­velli 1. mgr. 130. gr. tollalaga. Umbeðin gögn bárust með bréfi, dags. 21. janúar sl.

  

II

1

Líkt og að ofan greinir eru í kvörtuninni gerðar athugasemdir við málmeðferð Neytendastofu í tengslum við ofangreinda umsögn stofnunar­innar svo og úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála þar að lútandi. Af kvörtuninni verður helst ráðið að þær athugasemdir lúti að leiðbeiningum og upplýsingagjöf Neytendastofu í kjölfar þess að umsögn hennar var komið á framfæri við tollyfirvöld.

Af gögnum málsins verður ráðið að í upphafi ársins 2019 hafi toll­yfirvöld óskað eftir afstöðu Neytendastofu til hvort leik­fanga­bílarnir sem A hafði flutt til landsins fullnægðu við­eigandi kröfum sem gerðar væru til slíkra leikfanga. Í umsögn Neytenda­stofu frá 10. janúar 2019 kom fram að leikföngin væru ekki CE-merkt og að ekki hefðu borist fullnægjandi gögn til að sýna fram á samræmi bílanna við viðeigandi kröfur. Í kjölfarið munu tollyfirvöld hafa stöðvað toll­afgreiðslu sendingarinnar. Eftir það áttu sér stað ýmis samskipti á milli yðar, f.h. A, tollyfirvalda og Neytendastofu vegna málsins.

Með tölvupósti, dags. 16. september 2019, var yður leiðbeint af hálfu tollyfirvalda um unnt væri að kæra afstöðu Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem þér munuð hafa gert f.h. sjóðsins. Með úrskurði nefndarinnar í máli hennar nr. 8/2019 var kærunni vísað frá. Byggðist sú niðurstaða nefndarinnar á því að umsögn Neytendastofu hefði ekki falið í sér töku bindandi stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem unnt væri að kæra til nefndar­innar, s.s. leitt yrði af 19. gr. a. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Ákvörðun tollyfirvalda hafi ekki lotið að leyfis­skyldu vegna leikfangabílanna heldur falið í sér stöðvun á tollaf­greiðslu sendingarinnar. Ákvarðanir tollyfirvalda þar að lútandi sættu því kæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 130. gr. tolla­laga nr. 88/2005.

Ég tel ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við ofangreinda afstöðu áfrýjunarnefndarinnar eða úrskurð hennar að öðru leyti. Að því er varðar þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við leiðbeiningar og upp­lýsingagjöf Neytendastofu vegna málsins horfi ég einnig til þess að áfrýjunarnefndin fjallaði um þessi atriði í úrskurði sínum. Lýsti nefndin þar þeirri afstöðu sinni að málsmeðferð Neytendastofu hefði „ekki verið fyllilega í samræmi við þá óskráðu meginreglu stjórnsýslu­réttarins að svör stjórnvalda við erindum borgaranna eigi að vera nægjanlega skýr til að þeir geti gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni“.

Af þessu, og öðrum athugasemdum sem nefndin gerði við upplýsingagjöf Neytendastofu og þær skýringar sem bæði yður, f.h. A, og tollyfirvöldum voru veittar vegna málsins, er ljóst að áfrýjunarnefndin hefur fallist á sjónarmið A að þessu leyti og komið ábendingum þar að lútandi á framfæri við Neytendastofu. Tel ég því ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins.

  

2

Af kvörtuninni, svo og öðrum gögnum málsins, verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við lögmæti þeirrar ákvörðunar tollyfirvalda að stöðva tollafgreiðslu vörusendingar sem A flutti til landsins á grundvelli 1. mgr. 130. gr. tollalaga nr. 88/2005. Að því leyti eru m.a. gerðar athugasemdir við að tollyfirvöld hafi ekki veitt sjóðnum færi á að bæta úr þeim annmörkum sem voru á sendingunni, s.s. með því að lagfæra merkingar og leggja fram gögn um framleiðslu og búnað leik­fanga­bílanna.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, skulu tollyfirvöld stöðva tollafgreiðslu sendingar ef inn­flutningur vöru sem sending inniheldur er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt. Hið sama gildir ef innflutningur er háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað.

Með reglugerð nr. 566/2013, um markaðseftirlit, faggildingu o.fl., sem sett er með stoð í lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðs­gæslu, hefur verið innleidd í íslenskan rétt reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins nr. 765/2008 frá 9. júlí 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 566/2013 hafa tollyfirvöld eftir­lit og bera ábyrgð á framkvæmd 27.-29. gr. ofangreindrar reglu­gerðar ESB nr. 765/2008 og aðstoða eftirlitsstjórnvöld á sviði markaðs­eftir­lits með vörum, þ.e. Neytendastofu hér á landi, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, laga og reglna settra samkvæmt þeim.

Í reglugerð nr. 944/2014, um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu, með síðari breytingum, er mælt fyrir um reglur um öryggi leikfanga og frjálsan flutning þeirra innan EES, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Með reglugerðinni hefur verið innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/48/EB frá 18. júní 2009, um öryggi leikfanga. Reglugerðin er sett með stoð í lögum nr. 134/1995 og í henni er mælt fyrir um ýmsar skyldur framleiðanda leikfanga, sbr. einkum 3. gr., skyldur innflytjanda, sbr. 5. gr. og CE-merkingar, sbr. einkum 14. og 15. gr.

Fyrir liggur að Neytendastofa veitti tollyfirvöldum umsögn, að undangenginni skoðun á innihaldi sendingarinnar, þess efnis að leik­fanga­bílarnir væru ekki CE-merktir, s.s. skylt er á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 944/2014, en auk þess hafi á þeim tíma­punkti ekki verið lögð fram af hálfu innflytjanda fullnægjandi gögn um hvort bílarnir samræmdust þeim kröfum sem gerðar eru til leikfanga sem ætluð eru börnum. Munu tollyfirvöld hafa óskað eftir umsögn Neytenda­stofu þegar í ljós kom við tollskoðun að leikfangabílarnir væru ekki CE-merktir en Neytendastofa annast framkvæmd og eftirlit reglu­gerðar nr. 944/2014, sbr. 1. mgr. 24. gr. hennar, sbr. einnig 1. mgr. 11. gr. laga nr. 134/1995. Þá liggur fyrir að Neytendastofa veitti A rökstuðning, dags. 7. febrúar 2019, vegna umsagnarinnar þar sem greint var frá þeim annmörkum sem voru á sendingunni.

  

3

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að A hafi gert athugasemdir við þá afstöðu Neytendastofu að CE-merkingum leikfanga­bílanna sem A flutti til landsins var ábótavant. Líkt og að ofan greinir er framleiðanda leikfanga skylt, þegar sýnt hefur verið fram á að leikfang uppfylli viðeigandi kröfur með því að útbúa tækni­gögn og framkvæma eða láta framkvæma samræmismat, að festa á leik­fangið CE-merkingu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 944/2014.

Gögn málsins bera hins vegar með sér að A hafi á grundvelli skriflegs umboðs framleiðanda bílanna um að sjóðurinn væri viðurkenndur fulltrúi, sbr. fyrri málsl. 1. mgr. 4. gr. reglu­gerðar­innar, leitað eftir því að fá að sinna CE-merkingu leikfangabílanna sjálfur og eftir atvikum útvega gögn um framleiðslu bílanna og bæta þannig úr þeim annmörkum sem voru á sendingunni að því leyti.

Samkvæmt 5. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er með viðurkenndum fulltrúa átt við „einstakling eða lögaðila með staðfestu innan [EES] sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.“ Samkvæmt 1. tölul. 30. gr. reglu­gerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 765/2008 frá 9. júlí 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðs­setningu á vörum, sem líkt og að ofan greinir hefur verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 566/2013, um markaðseftirlit, fag­gildingu, o.fl., skulu einungis framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans festa CE-merki á vöru.

Að þessu leyti vek ég þó athygli á því að samkvæmt síðari málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 944/2014 er framleiðanda óheimilt að yfir­færa skyldu samkvæmt 3. gr. til viðurkennds fulltrúa. Þegar af þeirri ástæðu má ljóst vera að A gat ekki öðlast lögmæta heimild til þess að bæta úr þeim atriðum sem urðu til þess að toll­yfirvöld stöðvuðu tollafgreiðslu sendingarinnar, þ.e. m.a. skorti á CE-merkingum, enda verður ekki hjá því komist að líta svo á að hið sértæka ákvæði síðari málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 944/2014 gangi framar því sem verður leitt af reglugerð ESB nr. 765/2008, sbr. einnig reglugerð nr. 566/2013, um heimild viðurkennds fulltrúa til að festa CE-merki á vöru. Af þeim sökum, og með hliðsjón af orðalagi 1. mgr. 130. gr. tollalaga er því einnig ljóst að tollyfirvöldum bar að stöðva toll­afgreiðslu sendingarinnar.

Með hliðsjón af ofangreindu tel ég ekki tilefni til þess að taka ákvörðun tollyfirvalda um stöðvun á tollafgreiðslu sendingarinnar, og úrskurð fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar að lútandi, til nánari athugunar. Er þau atriði sem nefnd eru í kvörtuninni, er lúta að því að tollyfirvöld hafi áður tollafgreitt sendingar sem innihéldu leikfanga­bíla sömu tegundar, ekki til þess fallin að breyta niðurstöðu minni að þessu leyti. Hér horfi ég einkum til þess að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 veitir mönnum almennt ekki tilkall til neins sem ekki samrýmist lögum, sjá að þessu leyti t.d. álit umboðsmanns frá 19. október 2004 í máli nr. 4132/2004. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til lögmætis þess hafi sams konar sendingar verið tollafgreiddar athugasemdalaust.

Við athugun mína vegna kvörtunarinnar hef ég þó staðnæmst við nokkur atriði í tengslum við stjórnsýslu og málsmeðferð tollyfirvalda vegna málsins. Horfi ég þá til þess að af gögnum málsins verður hvorki dregin skýr ályktun um hvenær A var tilkynnt um að ann­markar væru á sendingunni sem kynnu að leiða til þess að tollafgreiðsla hennar yrði stöðvuð, né með hvaða hætti tilkynnt var um það í upphafi ársins 2019. Þá liggur einnig fyrir að talsverður dráttur varð á því að endanleg ákvörðun var tekin um stöðvun tollafgreiðslu, þ.e. hún lá ekki fyrir fyrr en 5. maí 2020, svo og að veittar voru rangar kæruleið­beiningar af hálfu tollyfirvalda.

Á meðal þeirra gagna sem bárust vegna fyrirspurnar umboðsmanns til ráðuneytisins voru tölvupóstsamskipti ráðuneytisins við lögfræðing Skattsins vegna beiðni umboðsmanns um afhendingu gagna en þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Vert er að taka fram að síðan þetta mál var til meðferðar hjá embættinu þá er búið að laga og betrumbæta tilkynningar til aðila um stöðvun sendingar, bæði er varðar form og innihald [...] og með tilliti til kæruleiðbeininga.“

Að þessu gættu, þ.e. þeim umbótum sem gerðar hafa verið á verklagi toll­yfirvalda að þessu leyti, tel ég að svo stöddu ekki tilefni til þess að fjalla nánar um þessi atriði málsins.

   

III

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson