Útlendingar. Ríkisborgararéttur.

(Mál nr. 10894/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn um veitingu ríkisborgararéttar sem dómsmálaráðuneytið staðfesti. Sá dráttur sem hefði orðið á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókninni hefði leitt til réttarspjalla þannig að viðkomandi hefði orðið af möguleika á að fá íslenskan ríkisborgararétt.  

Að málvöxtum gættum og skýru orðalagi lagaákvæðis, þ.e. að umsækjandi um ríkisborgararétt skuli ekki aðeins uppfylla búsetuskilyrði þegar umsókn er komið á framfæri heldur einnig þegar ákvörðun er tekin, taldi umboðsmaður ekki unnt að gera athugasemd við niðurstöðu stjórnvalda. Hvað afgreiðslutímann áhrærði gaf hann tilefni til að rita dómsmálaráðherra bréf með tilteknum ábendingum og spyrja hvort brugðist yrði við þeim vanda sem uppi væri hjá Útlendingastofnun.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 4. janúar sl. vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 18. mars 2020 um að synja umsókn yðar um veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun á grundvelli III. kafla laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér gerið einkum athugasemdir við málsmeðferðartíma Útlendinga­stofnunar vegna afgreiðslu umsóknarinnar. Með úrskurði dómsmálaráðu­neytisins frá 17. desember sl. í máli nr. [...] var ákvörðun stofnunar­innar staðfest.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er á því byggt að þér uppfyllið ekkert þeirra búsetuskilyrða sem mælt er fyrir um í 1.-7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 100/1952. Af ákvörðun stofnunarinnar, svo og úrskurði ráðu­­neytisins, verður ráðið að þér hafið í umsókn yðar vísað til 2. tölul. ákvæðisins um rétt yðar til þess að hljóta ríkisborgararétt, sem þegar þér komuð umsókn yðar á framfæri hljóðaði svo:  

„Umsækjandi, sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og samvistum við hann, hafi verið hér búsettur í þrjú ár frá giftingu, enda hafi makinn haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.“

Fyrir liggur að þegar þér komuð umsókn yðar á framfæri, þ.e 18. október 2018, voruð þér í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Með dóms­sátt frá 14. júní 2019, eða um átta mánuðum eftir að þér lögðuð fram um­sókn yðar, var maka yðar veittur skilnaður að borði og sæng. Þegar um­sókn yðar var loks afgreidd í mars 2020, u.þ.b. 16 mánuðum eftir að um­sóknin barst Útlendingastofnun, var því ljóst að þér uppfylltuð hvorki ofan­greint búsetuskilyrði 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna né skilyrði annarra tölul. ákvæðisins.

Í úrskurði ráðuneytisins er á því byggt að samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna miðist skilyrði 1. mgr. ákvæðisins við fasta búsetu hér á landi þegar umsókn er lögð fram og þegar ákvörðun er tekin. Þar sem þér voruð ekki í hjúskap þegar ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin í mars 2020 yrði veiting ríkisborgararéttar ekki grundvölluð á 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. Var ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest af hálfu ráðuneytisins.

Líkt og að ofan greinir, fæ ég ráðið af kvörtun yðar, og öðrum gögnum málsins, að athugasemdir yðar lúti fyrst og fremst að því að sá dráttur sem varð á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn yðar, a.m.k. fram að því maka yðar var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng, hafi leitt til réttarspjalla, þ.e. þér hafið þannig orðið af möguleikum yðar á að fá íslenskan ríkisborgararétt.

 Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt er svohljóðandi:

„Skilyrði 1. mgr. miðast við fasta búsetu hér á landi þegar umsókn er lögð fram og þegar ákvörðun er tekin.“

Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna var fært í ofangreint horf með 5. gr. laga nr. 145/2013, sem fólu m.a. í sér breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frum­varps þess er varð að lögum nr. 145/2013 kemur eftirfarandi fram:

„Lagt er til að bætt verði því ákvæði í 2. mgr. 8. gr. laganna að umsækjandi um ríkisborgararétt skuli hafa haft samfellda fasta búsetu hér á landi, samkvæmt skilyrðum sem sett eru í 1. mgr. þegar umsókn er lögð fram og einnig „þegar ákvörðun um ríkis­borgara­rétt er tekin“. Breytingin er í samræmi við það hvernig lagaákvæðið hefur ávallt verið túlkað en er fyrst og fremst lögð til til [svo] áréttingar í því skyni að forðast misskilning sem upp gæti komið verði ákvæðið óbreytt, svo sem að umsækjandi geti lagt fram umsókn þegar hann er búsettur hér á landi en flutt síðan af landinu meðan umsókn er til afgreiðslu.“

Með þetta í huga, og að gættu skýru orðalagi ákvæðisins, þ.e. að umsækjandi um ríkisborgararétt skuli ekki aðeins uppfylla búsetuskilyrði þegar umsókn er komið á framfæri, heldur einnig þegar ákvörðun um það er tekin, tel ég ekki unnt af minni hálfu að gera athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar eða niðurstöðu ráðuneytisins í úrskurði þess. Horfi ég þá til þess að sú niðurstaða er í samræmi við hefðbundnar lög­skýringar­­aðferðir. Af þeim sökum tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar.

Að því er varðar málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar vegna umsókna um veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun tek ég fram að umboðsmaður hefur nýlega haft til meðferðar kvörtun er laut að því atriði. Af svörum stofnunarinnar við fyrirspurn umboðsmanns af því tilefni verður ekki annað ráðið en að stofnunin telji að almennur afgreiðslutími hennar að þessu leyti sé ekki í samræmi við almenn sjónarmið og reglur um málshraða í stjórnsýslunni.

Á hinn bóginn liggur fyrir að ástæður þeirra tafa sem verða á afgreiðslu slíkra mála eru af almennum toga, þ.e. vegna mannafla og málafjölda stofnunarinnar. Hefur stofnunin að því leyti upplýst umboðs­mann um þær umbætur sem unnið hefur verið að í tengslum við að einfalda vinnslu umsókna um ríkisborgararétt og minnka vinnu við vinnslu þeirra. Kvörtunin, og svör Útlendingastofnunar við fyrirspurn umboðsmanns, varð mér þó tilefni til þess að rita dómsmálaráðherra bréf, dags. 22. janúar sl., þar sem ég kom tilteknum ábendingum að þessu leyti á framfæri við ráðherra, auk þess sem óskað var eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hygðist eða hefði þegar gripið til einhverra aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem uppi er hjá Útlendingastofnun. Bréfið var birt sam­dægurs á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is, og er aðgengilegt þar.

Kvörtun yðar hefur auk þess orðið mér tilefni til þess að rita dómsmálaráðherra hjálagt bréf þar sem ég hef komið á framfæri frekari ábendingum er lúta að úrskurði ráðuneytisins og málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar vegna umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laganna.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson