Skattar og gjöld.

(Mál nr. 10909/2021)

Kvartað var yfir meintum mistökum hjá Tryggingastofnun við skráningu á nýtingarhlutfalli skattkorts. 

Tryggingastofnun upplýsti að frá árinu 2016 hefðu lífeyris- og greiðsluþegar sjálfir getað breytt hlutfalli persónuafsláttar hjá stofnuninni í gegnum „Mínar síður“ eða með því að senda erindi þar að lútandi. Ekki væri unnt að sjá að viðkomandi hefði breytt eða óskað eftir að breyta hlutfalli persónuafsláttar á tilteknu tímabili. Af fyrirliggjandi gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að halda athugun sinni á kvörtuninni áfram.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

 

 

Ég vísa til kvörtunar yðar 12. janúar sl. og símtals yðar við starfsmann umboðsmanns tveimur dögum síðar. Af kvörtuninni og gögnum sem fylgdu henni verður ráðið að þér teljið að mistök hafi verið gerð með því að Tryggingastofnun hafi skráð að þér vilduð nýta 100% af skatt­korti yðar hjá stofnuninni í stað 30%.

Í tilefni af kvörtun yðar var Tryggingastofnun ritað bréf 15. janúar sl. Þar var þess óskað að mér yrðu veittar upplýsingar og að eftir atvikum yrðu afhent gögn sem vörpuðu ljósi á atvik að baki kvörtuninni, einkum hvernig samskiptum stofnunarinnar og yðar um nýtingu á skattkorti yðar hefði verið háttað.

Mér barst svar Tryggingastofnunar 12. febrúar sl. Þar kemur m.a. fram að frá september 2015 til mars 2020 hafi skattkort/hlutfall per­sónu­afsláttar yðar hjá Tryggingastofnun verið 100%. Í mars 2020 hefðuð þér breytt hlutfalli persónuafsláttar sem þér vilduð nýta hjá stofnuninni. Frá 1. apríl sl. hefði nýtingarhlutfallið verið 30%. Þá segir að frá árinu 2016 hafi lífeyris- og greiðsluþegar hjá Trygginga­stofnun sjálfir getað breytt hlutfalli persónuafsláttar hjá stofnuninni í gegnum „Mínar síður“ eða með því að senda erindi þar að lútandi til stofnunar­innar. Ekki væri unnt að sjá að þér hefðuð breytt eða óskað eftir breytingu á því hlutfalli persónuafsláttar sem notaður væri hjá stofnuninni fyrr en 22. mars sl.

Með vísan til þeirra upplýsinga sem hér hafa verið raktar og að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að fyrir liggi ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi Tryggingastofnunar sem fela í sér mistök við skráningu á hlutfalli persónuafsláttar sem þér óskuðuð eftir að væri nýttur vegna greiðslna frá stofnuninni. Af þeim sökum læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson